Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Kristín Þóra Harðardóttir
Kristín Þóra Harðardóttir
lögmaður hjá Samtökum atvinnulífsins

Unglingunum er ekki alls varnað

Raunveruleiki þeirra kvenna sem í upphafi síðustu aldar börðust fyrir kosningarétti sér og kynsystrum sínum til handa er okkur víðsfjarri í dag. Það sem þá var sótt með margra ára baráttu og þótti þess virði er nú orðið svo sjálfsagt að mörgum finnst ekki skipta máli hvort þeir nýta sér réttinn til að kjósa.

Þær konur sem stóðu í eldlínunni í upphafi síðustu aldar og börðust fyrir kosningarétti kvenna datt ekki í hug að rétturinn væri sjálfsagður og þótti sérstök ástæða til að þakka fyrir hin nýfengnu réttindi með því að byggja eins og einn Landspítala. Það voru vissulega skiptar skoðanir um það innan kvennahreyfingarinnar hvort ástæða væri að þakka það sem sjálfsagt og eðlilegt væri, en víst er að þjóðin stendur í ævarandi þakkarskuld við þær ofurkonur og þeirra óeigingjarna starf.

Þær trúðu því að þær gætu breytt samfélaginu og gerðu það. Það hafa líka fleiri minnihlutahópar gert og munu vonandi halda áfram að gera. Mikilvægast er að trúa því að hægt sé að breyta samfélaginu og gera það betra- fyrir alla. Kosningarrétturinn er eitt af þeim verkfærum sem nota má til þess og þess vegna ætti það að vera sjálfsagt og eðlilegt að hver og einn nýti þann rétt sinn.

Á okkar tímum, sem enn og aftur eru þeir síðustu og verstu að margra mati, þá bregður svo við að áhugi ungs fólks á þátttöku í kosningum virðist fara minnkandi. Þó ég haldi ekki að við lifum á síðustu og verstu tímum allra tíma þá held ég að þetta séu ekki góð tíðindi og mikilvægt að halda á lofti mikilvægi þess að allir nýti sinn lýðræðislega rétt til að kjósa og síðustu kosningar gáfu mér tækifæri til að horfa í eigin barm hvað það varðar.

Þó ég sé svolítið tækifærissinnuð þegar kemur að því að velja stjórnmálaflokk til að merkja við inni í kjörklefanum þá hef ég oftast nær verið búin að ákveða mig áður en ég kem á kjörstað og hef ekki átt í teljandi vandræðum með að ráðstafa atkvæði mínu. Alveg þangað til í fyrra þegar kosið var til sveitastjórna í landinu. Þá gerðist það í fyrsta skipti að það hvarflaði að mér að mæta ekki á kjörstað- ég fann einhvernveginn ekki neinn lista sem ég var sátt við að gefa mitt atkvæði. Svo vildi til að ég hafði skipulagt ferðalag til útlanda fyrir mig og afkvæmin sömu helgi og kosningarnar voru þannig að mér fannst að ég kæmist ef til vill upp með þessa fásinnu. Ég gæti jafnvel látið eins og ég hefði bara gleymt að kjósa áður en ég fór af landi brott. Tvö af þremur afkvæmanna voru hinsvegar komin með kosningarétt og tóku ekki annað í mál en að við færum öll saman í Laugardalshöllina að kjósa utan kjörstaðar áður en haldið var í fríið. Og það var gert- þau börnin mun ákveðnari í sinni afstöðu en móðirin sem ákvað sig inni í kjörklefanum. Fyrir nokkrum vikum síðan spurði svo yngsta afkvæmið sem varð 18 ára í mars hvenær væru næst kosningar. Ég sagði honum að á næsta ári yrðu forsetakosningar. Ég spurði hann svo hvort hann ætlaði að nýta kosningaréttinn sinn. Unglingurinn leit á mig í einlægri undrun og sagði: Já, það eiga allir að gera það.

Kannski að Íslands unglingafjöld sé eftir allt saman ekki alls varnað.