Ég hef alltaf nýtt kosningaréttinn og sennilega aldrei kosið sama flokkinn enda er ég ekki hrifin af flokkapólitík og meira hrifin af að kjósa málefni. Þegar ég var yngri spurði ég þá eldri og reynslumeiri sem ég treysti og myndaði mér skoðun út frá því. Í dag kynni ég mér hvað flokkarnir standa fyrir og vel svo það sem mér finnst skást í stöðunni. Stundum vildi ég að hægt væri að kjósa menn og málefni af því stundum finnst mér að hagsmunir flokksins ráði meiru en hagsmunir fólksins.
Það er mikilvægt að fólk nýti kosningaréttinn, þó að það komi til að skila auðu af því þá er það líka að senda skilaboð. Á þessu litla landi skiptir hvert atkvæði máli svo það er fáránlegt að sleppa því að mæta á kjörstað. Að kjósa hvetur líka fólk til að fylgjast með og kynna sér hvað er að gerast í samfélaginu.
Mér finnst svo sjálfsagt að konur hafi kosningarétt að ég á erfitt með að ímynda mér að einungis séu 100 ár liðin síðan það gerðist. Það þurfti að berjast mikið fyrir því og við skulum ekki taka því sem sjálfsögðum hlut af því það þarf heilmikla baráttu til að breyta venjum. Heimurinn er ekki fullkominn í dag og enn eiga mörg lönd langt í land að ná jafnrétti og sama á við hér þó við séum langt komin. Þetta gerist ekki af sjálfu sér.
Ég hef alltaf farið allra minna leiða án þess að spá í hvors kyns ég er. Ég hef aldrei sett það fyrir mig að ég sé kvenkyns og lít frekar á það sem tækifæri en einhverja hindrun. Þegar ég hugsa tilbaka þá hef ég oft verið í frekar gauralegum stöðum. Ég sótti í gamni um að verða ljósamaður í Hagaskóla í 9. bekk og kom á óvart að verða ráðin en þá fannst þeim tilvalið að fá stelpu í það hlutverk í fyrsta skipti. Þá stýrði ég ljósunum á leiksýningum og skólaskemmtunum og fannst það mjög krefjandi og skemmtilegt. Enn þann dag í dag pæli ég mikið í ljósunum þegar ég fer í leikhús eða á annars konar sýningar.
Plötusnúðastarfið var frekar karlmiðað þegar ég byrjaði árið 1999 en í dag er fullt af stelpum plötusnúðar. Ég fór bara af stað og spurði á vinsælum stað hvort ég mætti spila á þriðjudagskvöldum og fékk prufukvöld. Eftir það var ég plötusnúður í mörg ár. Ég fékk fullt af verkefnum af því ég er stelpa þannig að það var bara plús en að sjálfsögðu þarf hæfileika til að vegna vel.
Í dag stýri ég sterkvínsdeildinni hjá Ölgerðinni og sé um orkudrykkinn Red Bull og finnst það mjög krefjandi, fjölbreytt og skemmtilegt. Ég er með mikið og gott viskíúrval á mínum herðum og mér finnst mikilvægt að þekkja vel vörurnar sem ég ber ábyrgð á. Ég þurfti að hafa dálítið fyrir því að byrja að drekka viskí. En það er mikilvægt starfsins vegna og ég get alveg staðhæft að viskí er jafnmikið fyrir konur og karla. Svo þekki ég marga stráka sem gretta sig og geta ekki kyngt þannig að það er alveg á báða bóga. Viskíbragðið er krefjandi en í dag drekk ég viskí eins og hvert annað heljarmenni og get vel þekkt tegundir í sundur í blindsmakki eins og strákarnir. Menn dæma mann nú oft eftir útlitinu og eru með fyrirfram ákveðnar hugmyndir og stundum finnst mér eins og ég þurfi að vita helmingi meira en strákur í minni stöðu til að sanna mig.
Varðandi jafnrétti og kynjamismun held ég að oft séu stelpur ekki eins hugrakkar að koma sér á framfæri og bjóða sig fram á meðan strákar eru hvattir til dáða frá unga aldri. Ég hvet foreldra til að efla sjálfstraust hjá stelpum eins og var gert við mig og ekki bara segja að þær séu sætar og fínar en strákarnir duglegir. Ég hef aldrei verið feimin og hef yfirleitt fengið það sem ég hef sóst eftir þannig að ég hvet stelpur til að sækjast eftir því sem þær langar til og setja markið hátt og þannig breytist heimurinn.