Af forvitni fyrir einhverju nýju og spennandi byrjaði ég að kynna mér stjórnmálaflokka þegar ég var orðin 18 ára gömul. Að öðlast nýjan rétt, kosningarétt, var spennandi og því fylgdi einhver áður óþekkt ábyrgð.
Kosningaréttinum tók ég sem sjálfsögðum hlut. Með honum fannst mér ég geta tekið ákvörðun um hvernig ýmsu skyldi hagað í framhaldinu. Að kjósa er nefnilega þátttaka í stjórnmálum, þátttaka í lýðræðinu, þátttaka í samfélaginu sem við búum í og þátttaka í breytingum.
Þetta hafði strax mikil áhrif á mig, mér fannst gaman að kynna mér mismunandi stefnur og strauma, þá var gaman að lesa sér til um stjórnmálaflokka og hvað kosningar höfðu mikil áhrif og breytingar. Ég fann fljótt að ég var hægrisinnuð og frjálslynd. Ég vildi finna þeim skoðunum mínum farveg og fylgja þeim eftir innan einhvers stjórnmálaflokks. Með því vildi ég reyna hafa áhrif á hvað stæði á bakvið atkvæðið mitt og taka þátt í umræðunni um hvert skyldi stefna.
Fjöldi ungs fólks hefur áhuga á að taka þátt í pólitískri umræðu og starfi. Það er líka mjög nauðsynlegt að umræðan um pólitík spanni stóran aldurshóp, en sé ekki afmörkuð af miðaldra fólki. Þetta á auðvitað líka við um að gott sé að umræðan afmarkist af bæði konum og körlum, ungum sem öldnum. Það hefur þó verið áberandi að ungt fólk er oft ekki boðið velkomið í umræðuna. Oft er haldið á lofti að skoðanir ungs fólks muni nú þroskast af því, líkt og skoðanir þess séu minna virði en skoðanir þeirra sem eldri eru. Athugasemdir eins og „þetta mun nú eldast af þér“ og „hún þroskast nú af þessari skoðun“ eru letjandi fyrir ungt fólk sem áhuga hefur á að taka þátt í umræðunni og pólitíkinni. Það er því skiljanlegt að margir forðist að taka þátt í umræðunni og hvað þá þegar „virkir í athugasemdum“ láta gamminn geisa um persónuna í stað þess að svara umræðunni málefnalega.
Ég hef tekið opinberlega þátt í umræðum um pólitík frá 20 ára aldri, ég hef fengið yfir mig holskeflu af athugasemdum líkt og flestir sem taka þátt í umræðunni, en margir myndu ekki kæra sig um slíkar athugasemdir. Án þess að láta það á sig fá, þá er það mjög skiljanlegt að ungt fólk stígi ekki svo gjarnan út á vígvöllinn ef svo má kalla. Völl sem virðir ekki skoðanir þínar og telur þær oft ómarktækar vegna aldurs þíns.
Hvatning um að taka þátt í pólitískri umræðu verður að vera til staðar, að ungt fólk hafi möguleikann á að hafa áhrif og breyta einhverju. Fyrsta skrefið er að mæta á kjörstað og kjósa. Með atkvæðinu getum við unga fólkið nefnilega breytt heilmiklu og enn meiru með því að taka enn virkari þátt í pólitískri umræðu.
„Drekktu þér heimska tík“ er athugasemd beint af netinu vegna ummæla sem ég setti fram í pólitískri umræðu. Er þá ekki bara betra að hafa ekki skoðanir, mæta ekki á kjörstað og taka ekki þátt í umræðunni, í stað þess að einhver óski þér dauða? Ég spyr mig. Svarið er hinsvegar nei, því fleiri sem taka þátt í umræðunni, því líklegra er að skoðanir ungs fólks fái meiri hljómgrunn, hverjar sem þær eru og hvort sem þær eru til hægri eða vinstri. Tvær eða tuttugu niðrandi athugasemdir mega ekki stoppa mikilvæga umræðu og þátttöku ungs fólks í lýðræðinu.