Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Ellen Björg Björnsdóttir
Ellen Björg Björnsdóttir
nemi í tómstunda- og félagsmálafræði

Ekki bara kvenmannsverk

Þar sem fjöllin eru svo há að þau snerta himinblámann, sjórinn er jafn úfinn og hann er sléttur og þokan er lágvaxin og þétt, þaðan er ég. Trékyllisvík á Ströndum. Ég fæddist í marsmánuði árið 1991 í Reykjavík en örfáum dögum síðar var ég komin heim. Heim. Magnað hvernig svona lítið orð getur verið svona yfirgripsmikið.  

Hjá mér þýðir heim mamma og pabbi, Kitti og kindur, dráttarvélar og snjósleðar, þúfur og nýslegið gras. Og heima skiptir engu máli hvort þú ert strákur eða stelpa. Það eru ákveðin verkefni sem liggja fyrir hvern dag sem þarf að leysa. Hvort sem það er kleinubakstur eða heyskapur. Og þannig er það líka á bæjunum í kring og hefur verið alla tíð. Í minni sveit var ekki talið kvenmannsverk að mjólka kýrnar eða prjóna sokka. Guðmundur í Bæ prjónaði hina fegurstu sokka og Bensi bróðir hans í Árnesi settist við kvið kýrinnar og mjólkaði um leið og hann bölvaði síðan kálfinum eftirminnilega fyrir að atast í sér. Foreldrar mínir hafa alið mig og systkini mín þannig upp að engin verkefni eru sérstaklega ætluð öðru kyninu. Fyrir mig og systur mína, sem er einu ári eldri en ég, fannst mér aldrei skipta máli að við værum stelpur, við gengum í þau verk sem þurfti að vinna. Það hefur gefið mér svo ótrúlega mikið, jafnvel þótt ég hafi oftar litið út eins og Gyða Sól en Unnur Steinsson.

Ég er líka einkar heppin með móður. Grjótharðari en dúnmýkri karakter er varla hægt að finna. Naglinn sem harkar allt af sér, skallaði Rauðku í lærið ef hún reyndi að stíga í mjólkurfötuna meðan hún mjólkaði hana og bakar síðan bestu snúða sem smakkast hafa. Mamma og pabbi voru dugleg að leyfa frændsystkinum okkar að upplifa sveitasæluna og var oft margt um manninn í sveitinni fögru. Fyrir einhverja tilviljun voru það yfirleitt strákar sem komu til okkar og komust þeir fljótt að því að þeir voru ekki búnir að panta sér herbergi á hótel mömmu. Þeir gengu í sömu verk og við systur og mér er minnisstætt eitt atvik þegar Torfi, ósköp kær frændi minn, neitaði að hengja út þvottinn. Heyrðist þá í klossum móður minnar ganga ansi harkalega niður stigann heima. Styst er frá því að segja að hann taldi ekki eftir sér að hengja upp spjarir eftir það.

Þetta jafnréttisuppeldi mitt hefur haft áhrif á það hvernig ég nýti minn kosningarétt, sem ég geri alltaf. Því er þakklæti mér efst í huga á þessu afmælisári kosningaréttar kvenna. Þakklæti til þeirra kvenna sem stóðu á bak við stofnun Hins íslenska kvenfélags sem var uppspretta undirskriftarsöfnunnar varðandi kosningaréttinn. Takk Bríet Bjarnhéðinsdóttir, fyrir að sýna eljusemi og víðsýni, þú tekur verðskuldað pláss í mínu feministahjarta. Takk konur, og karlar, fyrir að nýta kosningarétt ykkar og þannig viðhalda lýðræðinu sem við börðumst svo lengi fyrir.