Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Guðrún Guðlaugsdóttir
Guðrún Guðlaugsdóttir
blaðamaður

Hinn heilagi réttur fólks

Á sólbjörtum vordegi æsku minnar stóð mikið til á bænum þar sem ég var í sveit. Tekin voru fram dökk spariföt úr kistlum sem jafnan voru geymdir undir súð. Pils og kápur kvenna og jakkaföt karla. Allar flíkurnar voru hengdar út á snúru, þar sem vindurinn lék sér í þeim á margvíslegan hátt. Stundum urðu svörtu peystufatapilsin afar belgmikil en næsta augnablik hengu þau niðurmjó og tilkomulítil. Því var annan veg farið með jakkaföt karlanna, þau voru söm og jöfn, - nema hvað vindurinn gat snúið þeim til og frá á herðatrjánum, eftir því hvernig hann blés.

Nokkru eftir hádegi klæddi svo fólkið sig upp. Traktornum var ekið upp í hlað og aftan í hann festur heyvagn, stór og lagður viðarborðum sem ekki náðu alveg saman. Síðan var hver strigapokinn af öðrum fylltur með töðu. Eftir að hafa hresst sig á kaffisopa kom fólkið svo út á hlað og var hjálpað upp í heyvagninn. Um var að ræða sex eldri borgara sem sjaldan fóru af bæ og svo þrjú börn húsbændanna milli tvítugs og þrítugs. Þegar búið var að koma öllum fyrir sem best á heypokunum settist eldri sonur húsbændanna undir stýri á traktornum. Ég spurði hvort ég mætti ekki koma með í þessa tilkomumiklu ferð.

„Nei Guðrún mín, þú ert bara lítil stúlka. Við erum að fara að kjósa til Alþingis. Það mátt þú ekki gera fyrr en þú verður fullorðin. Þú og bræður þínir verðið að vera heima passa hundinn,“ svaraði húsmóðirin. Síðan hélt traktorinn skröltandi af stað með sinn dýrmæta kosningafarm. Við systkinin og hundurinn stóðum eftir á hlaðinu og horfðum á eftir heimilisfólkinu.

Að kjósa til Alþingis hefur alla tíð síðan verið hátíðlegt fyrirbæri í mínum huga. Ég hafði þó áður haft óljósar spurnir af sveitarstjórnarkosningum. Faðir minn varð bæjarstjóri út á landi þegar ég var smábarn. Á skólaaldri var ég þegar við fluttum aftur til Reykjavíkur. Sjálfstæðisflokkurinn hafði misst meirihluta í bæjarstjórn og nýr bæjarstjóri kosinn, úr Framsóknarflokknum. Mér var eftir það ekki um þann flokk gefið. Hans vegna hafði ég þurft að yfirgefa bestu vinkonu mína og leggja á nýjar slóðir.

Á unglingsárum var ég svo frædd skikkanlega um kosningar og þátttöku kvenna í þeim. Það gerði föðuramma mín, sem setið hafði sem bæjarfulltrúi í Reykjavík hátt á annan áratug. Hún gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þegar ég var sextán ára sá hún ástæðu til að útskýra fyrir mér þá baráttu sem það hafði kostað konur að fá að kjósa.

„Ég fékk ekki að kjósa 1915, þegar konur fengu kosningarétt á Íslandi, var ekki nærri orðin 40 ára. Ég var samt bara nýfædd 1893 þegar fyrstu konurnar fengu kjósa, það var á Nýja Sjálandi,“ sagði amma. Hún sagði mér einnig að 1915 hafi vinnu- og verkamenn líka fengið kosningarétt. „Og þeir þurftu bara að vera 25 ára til að fá að kjósa,“ bætti hún við.

„Það kostaði konur hér mikla baráttu að fá kosningarétt, allt frá árinu 1885 – en þetta hafðist,“ sagði amma. „Gleymdu aldrei vina mín að fólk á að nota kosningaréttinn sinn. - Og helst að kjósa rétt,“ bætti hún svo við eftir nokkurt hik. Ég hafði á þessum árum meiri áhuga á öðru en kosningum en spurði þó: „Hvað er að kjósa rétt?“ Amma svaraði: „Að mínu mati að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Og það ætla ég að biðja þig að gera fyrir mig í fyrsta skipti sem þú kýst. Þú ert nú einu sinni alnafna mín.“

Mér þótt undur vænt um ömmu og lofaði henni að gera eins og hún bað - og stóð við það. En eftir það taldi ég mig óbundna og hef á lífsleiðinni hagað mér svipað og karlmannafötin á snúrunni forðum, snúið mér eftir því sem vindurinn blæs. Og það er einmitt hinn heilagi réttur fólks, - að kjósa eftir sannfæringu sinni hverju sinni.