Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Hafrún Kristjánsdóttir
Hafrún Kristjánsdóttir
íþróttasálfræðingur

Af hverju máttu börn ekki kjósa?

Ég var 7 ára.  Það voru þingkosningar, árið var 1987.  Mamma og pabbi voru að fara að kjósa og svo ætluðum við að fara og kaupa ís. Þau voru prúðbúin, svona eins og þau væru að fara í fermingarveislu. Ég man þetta eins og þetta hafði gerst í gær.  Í fyrstu var ég aðallega spent fyrir því að fara að kaupa ísinn en fór að spyrja út í þessar kosningar.  Mamma og pabbi útskýrðu fyrir mér hvað var í gangi.  Nú mætti fólkið í landinu segja hver ætti að sjá um þjóðfélagið, sjá um að allt gengi vel, passa upp á að það væri allt í lagi hjá okkur og að sem flestir ættu fyrir matnum sínum.  Ég man að mér þótti ekki alveg nógu gott að ég fengi ekkert um málið að segja næstu 11 árin.  Ég fékk þó að fara með mömmu og pabba inn í kjörklefa.  Pabbi hvíslaði því að mér að skoða við hvaða staf mamma myndi setja X.  Það gerði ég.  Tilkynnti svo hátt og snjallt þegar við komum inn í bíl að mamma hefði sett X við A.  Um kvöldið var svo kosningasjónvarpið.  Ég settist fyrir framan það mjög spennt. Ég vildi vita hversu margir voru sammála mömmu að A-ið ætti að ráða næstu 4 árin. Svo fékk A-ið andlit. Andlitið var Jón Baldvin. Hann var skemmtilegur. Ég var á því að mamma hefði valið rétt. Mér fannst þetta allt mjög merkilegt en var ekki alveg nógu hress með að ég hefði ekki fengið að taka þátt. Orðin 7 ára og vissi alveg hvað ég söng.

Það var þennan dag sem ég áttaði mig á mikilvægi kosningaréttarins. Að minnsta kosti svona eins og barn getur upplifað slíkt mikilvægi.  Ég áttaði mig á því að við hefðum eitthvað um okkar hag að segja, við hefðum eitthvað um það að segja hvernig þessu landi væri stjórnað.  Það sem mér fannst merkilegt þarna var að allir fullorðnir fengu eitt atkvæði, alveg sama hver þeir bjuggu, voru með í laun eða hvaða menntun þeir voru með en börnin fengu ekki sama rétt.  Það fannst mér ósanngjarnt og um leið fannst mér þeir fáu sem kusu ekki skrítnir að nýta ekki þennan rétt sinn.  Ég spurði foreldra mína hverju það sætti.  Þau sögðu mér að kannski væru þau bara veik sem kusu ekki og hefðu ekki komist á kjörstað. Mikið vorkenndi ég þeim. Eftir þetta fór ég að hafa meiri áhuga á stjórnmálunum, tók vel eftir í samfélagsfræði í skólanum. En það var einmitt þar sem ég lærði það að eitt sinn hefðu bara sumir fullorðnir fengið að kjósa – bara karlmenn.  Á þeim tíma var ég orðin eldri og skildi að það væri kannski ekki góð hugmynd að börn hefðu kosningarétt en ég átti erfitt með að skilja af hverju langamma mín fékk ekki að kjósa því hún var kona. Ég á í raun erfitt með að skilja af hverju það var þannig og er þannig enn á fjölmörgum stöðum. En það skilningsleysi mitt hefur aukið skilning minn á hversu mikilvægur þessi réttur er okkur konum – og okkur öllum. Þess vegna mæti ég alltaf prúðbúin á kjörstað og fæ mér ís þegar ég er búin að ráðstafa mínu X-i, x-i sem langamma mín hafði ekki.