Verkin fram yfir loforðin
Ég var stolt í fyrsta sinn þegar ég kaus til Alþingis. Ég lét aka mér á kjörstað á kosningadaginn eins og var í boði þá. Dagurinn var tekinn hátíðlega. Ég hef alla tíð verið réttlætissinni og mismunun milli kynja finnst mér jafn fáránleg og að mismuna eftir litarhafti, stjórnmálaskoðunum eða kynhneigð.
En ég skil hvað býr að baki; venja, vald og fáfræði. Fram á unglingsár var ég eins og títt var í sama pólitíska liði og foreldrarnir, íhaldskrakki sem gapti allt upp eftir þeim. Er ég skipti um stefnu og fór sjálfstæðar brautir þótti móður minni það sem svik við sig. En svona var þetta þá, menn elskuðu sinn flokk og viku ekki frá honum. Ég er svo lánsöm í lífinu að hafa lært að gefa nýjum öflum séns og mín aðkoma er að kjósa eftir verkum frekar en loforðum.