Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Laufey Tryggvadóttir
Laufey Tryggvadóttir
framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár

Jafnrétti - dásamleg þróun

Það er magnað að 100 ár séu liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt. Þetta er bæði langur og stuttur tími í senn, enda tíminn teygjanlegt og torskilið fyrirbæri. Fjörutíu ár eru liðin síðan ég komst á þann aldur að fá lögbundinn kosningarétt. Á þeim árum fannst ungum konum ekkert merkilegt við það að hafa kosningarétt, í okkar augum var hann sjálfsagður. Samt voru þá aðeins sextíu ár liðin frá því að konur fengu fyrst kosningarétt á Íslandi. Merkilegt er að hugsa til þess að árið 1843 fengu fyrstu íslensku einstaklingarnir kosningarétt og þá takmarkaðist rétturinn af kyni, aldri og efnahag og náði því í reynd aðeins til tveggja prósenta þjóðarinnar.

Þegar horft er til baka má sjá hve hröð þróunin varð á tuttugustu öldinni er konur öðluðust frelsi til menntunar og starfa og fengu þar með fjárhagslegt sjálfstæði. Ekki þurfum við að biðja eiginmennina um peninga eins og tíðkaðist hjá kynslóð mæðra okkar. Örar voru breytingarnar á sama tíma og mín kynslóð var að komast til þroska, breytingar sem komu til bæði vegna almennra framfara og þrýstings frá samtökum kvenna. Við lögðum upp með jafnan rétt og drengirnir til menntunar. Við höfðum aðgang að öflugum getnaðarvörnum og þar með skipulagningu barneigna, sem gáfu aukið frelsi til starfa utan heimilis, auk þess sem aukin hagsæld og rafmagnstækni drógu stöðugt úr umfangi heimilisstarfa. Ýmis ljón voru þó á veginum okkar; lítið sem ekkert fæðingarorlof, fátæklegir dagvistarmöguleikar, gamaldags skoðanir á hlutverki kvenna og þar með taldar skoðanir okkar sjálfra, lítil þátttaka karla í heimilisstörfum og barnauppeldi, tengslanet karla sem takmarkaði atvinnutækifærin, og síðast en ekki síst skortur á kvenkyns fyrirmyndum. Þær höfðum við fáar þegar við völdum okkur ævistarfið. Gjörólíkur heimur með áhrifa- og afrekskonum á mörgum sviðum þjófélagsins blasir við ungum konum í dag.

Gleymum samt ekki afrekum formæðra okkar þótt þær störfuðu á öðrum vettvangi. Verkefni þeirra voru ekki síður mikilvæg er þær stýrðu flóknum heimilum, unnu við bústörf og komu börnum sínum til manns, oft við erfiðar og jafnvel hrikalegar aðstæður. Eitt mikilvægasta verkefni samfélagsins á hverjum tíma er að huga að framtíðinni og koma ungviðinu á legg á þann hátt að það dafni vel og hafi sem besta möguleika til að nýta hæfileika sína.

Umhverfi barna hefur tekið miklum stakkaskiptum. Þau eiga nú mæður sem hafa öðlast jafnrétti og frelsi og þau eru sjálf vel upplýst. Ég tel samt að sníða þurfi af ákveðna vankanta. Það sem skortir er meiri tími fyrir samveru fjölskyldunnar, ekki síst kyrrðarstundir án skipulagðra verkefna. Að báðir foreldrar séu í fullri vinnu utan heimilisins tel ég of mikið álag fyrir fjölskyldur með börn undir skólaaldri. Næsta skref á framfarabrautinni ætti að verða aukinn sveigjanleiki á vinnumarkaði svo hlutastörf verði reglan en ekki undantekningin. Þá þurfa foreldrar ungra barna ekki að vera í meira en 150-160% starfshlutfalli samtals og hægt verður að stytta tímann sem yngstu börnin eru á leikskólum. Heill vinnudagur er langur tími fyrir litlar manneskjur í stórum hópi, fjarri foreldrum og heimili.

Aukið jafnrétti kvenna er liður í almennri hreyfingu í átt til jafnréttis á mörgum sviðum, dásamleg þróun sem ekki sér fyrir endann á. Hún byggist á auknum skilningi, þekkingu og virðingu fyrir eðlilegum breytileika milli einstaklinga. Annað dæmi um margbreytileika sem nú er að öðlast viðurkenningu eru ýmis „róf“ varðandi geðslag. Í dag býðst margvíslegur stuðningur fyrir börn sem eru það fjarri meðaltalinu að þau eiga á hættu að lenda utan samþykkis umhverfisins. Þannig kemur stuðningur og samþykki í stað fordóma og eineltis sem var líklegri útkoma áður en þessi þekking myndaðist. Sama gildir um breytileika á sviði kynhneigðar, þar erum við í góðri sókn í átt til skilnings og sáttar í stað fordóma og eineltis.

Kosningaréttur kvenna var miklu stærri áfangi en við ungu konurnar gerðum okkur grein fyrir, sjálfar nýkomnar á kosningaaldurinn. En mikilvægi þess að reyna að hafa áhrif á það sem hægt er að breyta sá ég frá upphafi. Einn liður í því er að nýta ætíð kosningaréttinn, eina af grunnstoðum lýðræðisins. Við hljótum að gera allt sem við getum til að efla þjóðfélag sem hefur í hávegum mannvirðingu og kærleika, hlúir að góðum eiginleikum og leggur áherslu á jafnrétti, frelsi og jöfnuð.