Síðan ég fékk kosningarétt fyrir 29 árum hef ég kosið í öllum kosningum sem í boði hafa verið. Ég hafði nú ekkert verið að velta kosningum og kosningarétti fyrir mér og hefði ekki farið á kjörstað í fyrsta sinn nema af því að afi minn sagði að ég ætti að fara og nýta réttinn minn. Ég bjó í Reykjavík vegna náms og þurfti því að kjósa utankjörfundar. Afi sagði mér hvernig ég ætti að bera mig að en þar sem við höfðum ekki kjörgengi í sama sveitarfélaginu reyndi hann ekki að hafa áhrif á hvað ég kysi. Til að vera alveg viss um að ég nýtti kosningaréttinn sótti hann mig og ók mér í Laugardalshöllina til að kjósa.
Ekki hef ég hugmynd um hvað ég kaus eða hvort ég skilaði auðu, en afi sagði mér reyndar að það væri hægt að skila auðu ef ég vildi ekki kjósa neinn af þeim sem í boði væru. Síðan þá hef ég verið meira meðvituð um hverja ég ætla að kjósa og af hverju. Stundum langar mig að skila auðu en þar sem þau skilaboð komast ekki til skila þá hef ég alltaf kosið einhvern lista. Mér finnst nefnilega að auðir seðlar ættu að fá meira vægi til að þau skilaboð komist vel til skila. Ég vil að auð atkvæði gildi og verði þau nægilega mörg þá verði t.d. auður stóll á Alþingi af því að einhverjir völdu það.
Því miður hef ég spjallað við of margar konur sem ekki fara á kjörstað því þær telja sig ekki vita neitt um þessa pólitík. Það er allt í lagi að vita ekkert um pólitík ef mann langar til þess en það er heldur ekkert mikið mál að kynna sér það sem í boði er og taka upplýsta ákvörðun með kosningarétti sínum. Umfram allt ekki kjósa það sem aðrir segja þér að kjósa. Kjóstu það sem þig langar að kjósa.
Þegar ég hugsa um jafnréttisbaráttuna þá eru það launin sem koma fyrst upp í huga minn. Þó Ísland standi framarlega í jafnrétti á blaði þá er því miður jafnréttið ekki eins gott í raun. Enn í dag eru konur með lægri laun en karlar fyrir sömu störf; þó einhver árangur hafi náðst þá erum við ekki komin alla leið. Konur eru færri í stjórnunarstörfum og nefndum en þar eigum við konur einhverja sök því við verðum að bjóða okkur fram og sækjast eftir þessum störfum líka.
Sjálf hef ég ekki upplifað að geta ekki gert eitthvað að því að ég er kona. Vissulega eru áhugamál okkar kvenna og karla stundum misjöfn og sumt höfðar meira til kvenna og annað til karla en það er bara allt í lagi því við höfum val um að gera það sem okkur langar til.
Kosningadagar eru alltaf skemmtilegir á einhvern hátt. Það ríkir spenna, sumir klæða sig upp á og margir hafa sínar hefðir tengdar þessum degi. Aðalatriðið er þó að njóta þess að hafa þessi réttindi og óska ég þess að allir alls staðar í heiminum fái að kjósa langi þá til þess.