Nýlega átti ég í samtali við góða stjórnmálakonu vinsælls flokks. Við ræðum oft um heima og geyma, í þetta skiptið um femínisma. Hún var ekkert of spennt þrátt fyrir að taka undir með mér um dásemdina í fjölbreytileika jafnréttisbaráttunnar. Þar sem eðlilega, bæði konum og körlum er frjálst að hafa mismunandi skoðanir og áherslur. Þá var þessi stallsystir mín samt ekki áfjáð til fylgis. Að sögn vegna þess að hún hafði sjálf aldrei upplifað kynjamisrétti á eigin skinni.
Með mér bærðust blendnar tilfinningar. Mikið var það gleðilegt að þessi kjarnorku kvennmaður upplifði sig algjörlega sinn eigin gæfusmið á Íslandi nútímans. Að hún hefði sjálf ekki upplifað hindranir í samfélaginu sem rekja mætti til kyns hennar. Mikið var það frábært og mikill sigur fyrir kvennabaráttuna og okkur öll.
Þær konur sem hafa í gegn um söguna barist áfram fyrir sjálfsögðum réttindum kvenna á við karla, líkt og kosningarétti kvenna, voru að mér fannst nú loksins sannarlega að uppskera ríkulega. Þessar formæður okkar börðust ekki fyrir sig sjálfar. Þær ruddu leiðina og fórnuðu sínum tíma, sínum kröftum fyrir okkur hinar sem á eftir komu. Það er þeirra sigur að á Íslandi í dag séu til konur sem að kannast ekki við mismunun á grundvelli kyns síns.
Það sem hinsvegar skyggði á gleðina hjá mér var óttinn, og auðvitað vissan, um afleiðingar þess að jafnvel heil og hálf samfélög taki jafnrétti sem gefnum hlut. Ég óttast værukærðina og samhengisleysið í þesslags hugsunarhætti. Er það þannig að við getum bara strikað jafnréttisbaráttu út af tékklistanum?
Nei, að sjálfsögðu ekki. Heilmargt er enn óunnið. Jöfn laun fyrir jafna vinnu. Konur til jafns við karla til ábyrgðar á mikilvægum sviðum atvinnu- og mannlífs okkar. Kynbundið ofbeldi er köld staðreynd sem hverfur ekki að sjálfu sér. Markvisst niðurbrot heftandi staðalmynda kynjanna er þörf. Og við þurfum að berjast gegn nýjum leiðum til kúgunar kvenna sem til dæmis skjóta upp kollinum í breyttum heimi netsins og samfélagsmiðla.
Ég hvet þá sem að telja að samfélags- og réttarfarsbreytingar hljóti að eiga sér stað líkt og einhverskonar sjálfvirkt náttúrulögmál, að lesa söguna okkar aðeins betur. Það var sannarlega unnið fyrir kosningarétti kvenna og baráttan var ekki átakalaus.
Sagan kennir okkur líka að lýðræðisumbætur, jafnréttisbarátta og önnur almenn mannréttindi verða því miður ekki óumbreytanlegur fasti í samfélögum þegar þesslags umbótum er komið á. Þó að skrefin séu sem betur fer oftast framávið, þá er líka oft bakkað.
Verðum ekki værukær. Það er mikið verk er enn óunnið, og það stendur upp á okkur fylgja fordæmi mæðra okkar. Við skulum bæta um betur fyrir okkar dætur og næstu kynslóðir.