Það voru alþingiskosningar árið sem ég fæddist þótt ég muni ekkert eftir þeim, ekki frekar en kosningunum þegar ég var þriggja ára. Ég man hins vegar eftir kosningum árið þegar ég varð sex ára, enda var kosið tvisvar það ár. Þetta voru hátíðlegir dagar, fólk klæddi sig í betri fötin og fór á kjörstað en krakkaskottin sem voru skilin eftir heima héngu úti í glugga og biðu eftir – ja, hverju? Kannski eftir pönnukökukaffinu þegar fullorðna fólkið hafði nýtt sinn lýðræðislega rétt og gegnt sinni lýðræðislegu skyldu eða kannski héldum við að eitthvað hlyti að breytast við það að þjóðin lýsti sinni skoðun á hverjir ættu að stjórna landinu og hvernig. Og eitt nýstárlegt gerðist reyndar í þessum fyrstu alþingiskosningum sem ég man eftir – kona var kosin á þing. Í seinni kosningunum það ár var hún svo endurkjörin og önnur með henni.
Þetta voru vissulega ekki fyrst konurnar sem sátu á Alþingi en þær höfðu ekki verið margar á undan þeim og það leið enn langur tími þangað til kona varð ráðherra, önnur þeirra sem voru kosnar árið sem ég var sex ára. Þegar þau undur og stórmerki urðu í íslenskri pólitík höfðu konur haft kosningarétt í rúmlega hálfa öld og jafnan kosningarétt á við karla í 50 ár. Það þurfti sviplega atburði til að Auður Auðuns hlyti þá upphefð að verða ráðherra og ég held að hún hafi verið eina konan á þinginu þá.
Þetta er kannski í hnotskurn upplifun mín af heiminum og stjórnmálum þessi fyrstu sautján ár af ævi minni: karlmenn stjórna og ráða. Þær hugmyndir höfðu styrkst af fullyrðingum sem ég hafði heyrt með nokkuð reglulegu millibili á þessum árum um að konur yrðu að kjósa eins og eiginmaðurinn – annars myndu þær ógilda atkvæði hans. Jafnvel þótt ég væri ung þóttu mér þetta skrítnar hugmyndir, að tilgangurinn með kosningarétti kvenna hefði kannski í reynd verið að færa kvæntum karlmönnum tvö atkvæði en ekki eitt eins og öðru kosningabæru fólki, og ekki síður að með hjónabandi ættu konur að afsala sér öllum pólitískum skoðunum sem ekki féllu að smekk eiginmannsins. Ég einsetti mér að giftast aldrei eða að minnsta kosti að nýta mér þann stjórnarskrárvarða rétt minn að þegja yfir því hverjum ég greiddi atkvæði mitt. Ég stóð við hvorugt.
Ég fékk að kjósa í fyrsta sinn um svipað leyti og þróttmikil jafnréttisumræða hófst í þjóðfélaginu og svo kom Kvennalistinn sálugi og ég fann mér loksins pólitíska höfn árið sem ég varð þrítug. Þá hafði reynslan sem betur fer leiðrétt ýmsar ranghugmyndir sem þvældust fyrir mér í bernsku og ég vissi að karlar höfðu enga meðfædda forystuhæfileika umfram konur, ekki frekar en að einvaldskonungar fyrri alda höfðu hlotið konungdóminn af guðlegri náð. Þetta var allt saman pólitík í einhverri mynd og pólitík er hægt að breyta.
Margt hefur líka breyst síðan þá og konur hafa orðið meira áberandi á opinberum vettvangi. Konum hefur fjölgað á þingi og konur hafa gegnt embætti forseta lýðveldisins, forsætisráðherra og biskups, sem teljast helstu silkihúfurnar í okkar samfélagi. Undir niðri kraumar samt enn gamall hugsunarháttur um að konur séu síður til forystu fallnar en karlmenn og ekki ýkja langt síðan kona sem bauð sig fram til forseta var kölluð „puntudúkka“ og kona sem tók við formennsku í stjórnmálaflokki uppnefnd „gluggaskraut“. Vonandi eru þeir sem hugsa svona örfáar eftirlegukindur úrelts kynjakerfis og vonandi eru af sama toga ranghugmyndir sem ég hef heyrt í síðustu kosningum, nú síðast rektorskosningum, að í nafni jafnréttis sé ekki hægt að kjósa konu til embættis tvisvar í röð. Svona hugmyndir eru af svipuðum meiði og hugmyndin um að giftar konur verði að kjósa eins og eiginmaðurinn (eða sitja heima ella): eintóm þvæla og hugsanavilla þeirra sem hika ekki við að kjósa karl fram af karli til sama embættis áratugum og jafnvel öldum saman.
Kosningarétturinn barst okkur ekki fyrir neina guðlega náð heldur eftir þrotlausa og langa baráttu. Í hvert skipti sem við ákveðum að nýta hann ekki heldur sitja heima leggjum við vopn í hendur þeirra sem vilja svipta okkur honum og veitum í reynd þeim sem mæta á kjörstað tvöfalt atkvæði. Og einn daginn vöknum við kannski upp við þann vonda draum að þurfa að byrja alla þessa löngu og ströngu baráttu upp á nýtt.