Þrátt fyrir að hafa haft kosningarrétt hálfa ævi mína og lesið um sögu kvenréttindabaráttunnar, í bæði grunn- og menntaskóla, gerði ég mér í raun og veru ekki almennilega grein fyrir því hversu dýrmætur sá réttur minn er. Ég hef nefnilega alltaf tekið því sem sjálfsögðu að fá að kjósa.
Ég tilheyri kynslóðinni sem ólst upp við forseti lýðveldisins væri kona og forsætisráðherra Bretlands einnig. Hvað sem hverjum kann að finnast um stjórnmálaskoðanir Margrétar Hildu Thatcher þá var hún sú erlenda stjórnmálakona, sem oftast var á skjánum í fréttatíma sjónvarpsins á níunda áratugnum.
Í dag geri ég mér grein fyrir því, að þær konur sem áberandi voru á þeim tíma, eru mér ekki minnisstæðar vegna skoðana sinna eða verka. Heldur vegna þess að þær voru svo fáar að stelpukrakki, sem hafði meiri áhuga á að hoppa í parís en fréttum, veitti þeim athygli þegar þær birtust á skjánum.
Það er í raun ekki fyrr en ég í starfi mínu lagði við hlustir, þegar einstaklingar af þeirri kynslóði, sem nú er óðum að hverfa, röktu fyrir mér sögu sína, að mér verður ljóst hversu dýrmætt það er að hafa kosningarrétt. Þegar konur á tíræðisaldri rekja baráttusögu sína fyrir mér í fáum orðum –en tilfinningaþrungnum og baráttuandinn kemur yfir þær. Frásögn þeirra líkur gjarnan á orðunum: En nú er þetta allt breytt.
Nú er þetta allt breytt –því þær áttu með kosningarrétti sínum stóran þátt í að breyta stöðu kvenna í íslensku samfélagi. Hvaða leið hefði verið farin ef aðeins hálf þjóðin hefði haft kosningarétt?
Þetta er spurning um sjálfstæði einstaklingsins. Að eiga þátt í að ákveða hvert þjóð stefnir og hvernig samfélag hún mótar. Að rödd mín heyrist þó ekki sé nema með einu atkvæði. -Að kjósa ekki er óhugsandi.
Þegar ég hlusta á konurnar, sem tilheyra elstu kynslóð þessa lands, er ég minnt á að taka ekki réttindum mínum sem sjálfsögðum. Heldur þakka fyrir það sem hefur unnist. Eftir sveitastjórnarkosningarnar 2014 átti ég samtal við eina af þessum konum, hana langömmu mína –hún var þá níutíu og sjö ára og fylgdist vel með. Hún hafði mikið fyrir því að komast á kjörstað og gat með engu móti skilið af hverju unga fólkið skilaði sér ekki þangað. Af hverju kýs fólkið ekki? Mér varð svarafátt. Hún hafði auðvitað sínar kenningar og reyndi að svara sinni spurningu sjálf.
Það eru einungis fjörtíu og eitt ár síðan að fyrsta konan var vígð til prests á Íslandi og tvö ár í sumar frá því að kona varð fyrst biskup. Þegar ég var fimm ára sagði ég afa mínum að ég ætlaði að vera prestur þegar ég yrði stór. Það sagði hann að ég gæti ekki orðið. Þegar ég vildi vita ástæðuna, sagði hann að það væri ekki hægt því ég væri stelpa. Þess í stað stakk hann upp á því að ég lærði veðurfræði. Ég hélt nú ekki. Ég gæti vel orðið prestur –það væru til konuprestar (þá reyndar mjög fáar).
Þetta var í fyrsta sinn sem ég upplifði ójafnrétti kynjanna. Þó svo að gamli maðurinn, hann afi minn, hafi bara hlegið og sagt að þá skyldi ég vera dugleg að læra og verða prestur, þá átti ég oft eftir að heyra fólk tala niðrandi um prestsvígðar konur langt fram á tíunda áratuginn. Þar sem hæfi þeirra og geta til að sinna prestsþjónustu var dregin í efa af þeirri ástæðu einni að þær voru og eru konur. En nú er það allt breytt.
Eða ekki? Síðasta brekkan í jafnréttisbaráttunni virðis brött og hægt gengur að útrýma launamun kynjanna. Þegar ég horfi á börnin mín, stúlku og dreng, sé ég að ekki er hægt að láta það duga sem áunnist hefur. Þó svo að mín kynslóð nái því e.t.v. ekki að fá notið þess, sem smá saman vinnst með jafnréttisbaráttu kvenna í dag, þá njóta konur komandi kynslóða þess, líkt og við njótum í dag þess sem baráttukonur horfinnar kynslóðar áunnu fyrir sig og dætur sínar.