Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Ásta Kristjánsdóttir
Ásta Kristjánsdóttir
ljósmyndari

Konur - styðjum hvor aðra

Þegar ég fæddist voru ættmæður mínar búnar að berja í gegn kosningarrétt kvenna og ryðja brautina að miklu leiti fyrir mig og aðrar konur í jafnréttismálum. Þessar konur voru og eru algjörir naglar.

Ég var svo heppin að fæðast eftir að miklu grettistaki hafði verið lyft í jafnréttismálum kynjanna. Svo heppin var ég að það hvarlaði aldrei nokkurn tímann að mér í minni barnæsku að ég stæði ekki jöfn karlkyninu, ég tók því bara sem sjálfsögðum hlut. Þetta veganesti tók ég svo með mér út í lífið með þeim afleiðingum að ég hikaði aldrei við að framkvæma þá hluti sem mér hefur langað til að gera, hvort sem að það tengist atvinnu, útrás til fjarlægra landa eða fjölskyldunni. Þegar ég hugsa til baka man ég eftir nokkrum skoplegum atvikum sem tengjast þessum málum hér heima og í útlöndum. Til dæmis þegar bankastjóri ávarpaði mig gjarnan sem „vina mín“ og talaði við mig eins og barn á meðan karlkyns samstarfsmaður minn á sama aldri fékk allt aðra meðferð, mér fannst eins og ég væri ein á fundinum því bankastjórinn ræddi kjör bankans eingöngu við hann þrátt fyrir að ég væri framkvæmdarstjórinn. Ég man líka eftir öllum Indverjunum sem hristu hausinn þegar ég, einstæð móðir í Mumbai stofnaði þar fyrirtæki ásamt öðrum góðum konum. Ég man líka eftir mafíuforingjanum hræðilega í Síberíu sem aldrei yrti á mig í marga mánuði þrátt fyrir að við deildum sama skrifstofuhúsnæði en heilsaði alltaf manninum mínum fyrrverandi, það var nefnilega ekki æskilegt að kona væri að reka fyrirtæki á þessum slóðum á þessum tíma. Svo þegar ég eignaðist barn í Reykjavík hristi vinkona mín hausinn þegar ég sagði henni að mig langaði að vera heimavinnandi í nokkra mánuði. Það var ekki svalt að hennar mati því framakonur hlaupa ekki frá vinnu þegar þær eignast börn, þær geta nefnilega keyrt sig út í vinnu og verið með barn brjósti til að standa karlmönnum jafnfætis. Mér var slétt sama um þetta allt saman og lét það aldrei koma mér úr jafnvægi eða breyta plönunum mínum þvi ég var alltaf með það á hreinu að ég stæði karlmönnum jafnfætis og fannst ég meira að segja ég ekkert síðri en karlmaður þegar ég tók mér barneignarfrí. Fyrir þetta viðhorf mitt er ég óendanlega þakklát fyrir og því getur enginn haggað. 

Kæru konur sem gáfu mér þessa gjöf og þetta veganesti. Þið eruð hetjur og hjartans þakkir fyrir að berjast fyrir jafnrétti kynjanna. Án ykkar hefði ég lifað vid höft á alla kanta, ekki hlotið þá menntun sem ég fékk og ekki einu sinni fengið að kjósa. 

Nú spyr ég sjálfa mig og aðrar samferðakonur, hvað getum við gert til að halda áfram að ryðja brautina. Augljóslega berjumst við fyrir jafnrétti kynjanna almennt, jöfnum launum karla og kvenna en mér finnst líka mikilvægt að við stöndum saman og sýnum hvor annarri stuðning og hættum að dæma hvor aðra og segja hver annarri hvernig við eigum að vera. Mikið ber á því núna í fjölmiðlum að konum finnist lítilsvert að vera heimavinnandi en mun merkilegra að sitja í stjórn hjá fínu fyrirtæki. Konur eru líka duglegar við að setja reglur í útlitsmálum kvenna. Verum frekar umburðarlyndar gagnvart fjölbreytileika okkar og styðjum hverja aðra í verki hvort sem við erum heimavinnandi, forstjórar eða stripparar. Saman erum við sterkari og með samvinnu náum við betur að styrkja stöðu kvenna á öllum sviðum.