Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
María Rut Kristinsdóttir
María Rut Kristinsdóttir
markaðsstjóri og varaformaður Samtakanna '78

Sex ættliðir sterkra kvenna

Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég myndi ekki átta mig á því hvað kosningarétturinn þýddi fyrir mig persónulega nema að rýna aðeins í nærumhverfið mitt og sjá hvaða réttindi formæður mínar höfðu, samanborið við þau réttindi sem ég þigg eins og ekkert sé sjálfsagðara í dag.

Ég kynni því stolt til leiks; kvenlegginn minn:

Móðir mín, Vigdís, er fædd árið 1970. Sama ár og Tina Fey. Hún fæddist nokkrum vikum áður en fyrsti fundur Rauðsokkahreyfingarinnar var haldinn í Norræna húsinu. Hún hefur alltaf verið í fullu starfi á vinnumarkaði og litið á það sem sjálfsögð réttindi. Hún hefur alltaf kosið. Hún er fjármálastjóri, fráskilin með þrjú börn.

Móðuramma mín, Jóhanna, er fædd árið 1941. Sama ár og Martha Stewart. Hún tók stúdentspróf árið 1959 en á þeim tíma tóku um 10% árgangsins stúdentspróf. Í hennar stúdentahópi voru 11 stelpur en 56 strákar. Á þeim tíma voru um 800 stúdentar í Háskóla Íslands. Hún hefur alltaf kosið. Hún hefur alltaf verið í fullu starfi á vinnumarkaði sem kennari og skólastjóri, fráskilin með tvö börn.

Svo er það María langamma. Hún var fædd árið 1907. Sama ár og Frida Kahlo og Katharine Hepburn. Bræður hennar tveir fóru í menntaskóla, ekki systurnar. Þær fóru í Kvennaskólann í Reykjavík. Hún hafði alltaf kosið. Hún var alla starfsævina á vinnumarkaði í fullu starfi, sem símstöðvarstjóri og organisti. Hún varð ekkja með tvö börn.

Mamma hennar, Guðrún, var fædd árið 1872. Sama ár og Helena Rubinstein. Hún var menntuð sem handavinnukennari. Hún fékk fyrst að kjósa árið 1915. Var alla starfsævina á vinnumarkaði. Símstöðvastjóri og formaður kvenfélags í áratugi. Hún varð ekkja með fjögur börn og tvær fósturdætur.

Að lokum er það langa-langa-langaamma mín, María, fædd 1840. Ég fann enga heimsfræga konu sem fædd var sama ár og hún. Enda voru engar merkilegar konur til fyrir 20. öldina eins og við vitum öll. Hún var alla tíð heimavinnandi húsmóðir og „alþýðulæknir“ en aldrei í launuðu starfi. Hún lést árið 1915, sama ár og íslenskar konur fengu kosningarétt. Hún átti þá átta uppkomin börn á lífi.

Ég gæti rakið kvenlegginn minn lengra aftur í tímann en það er óþarfi. Ég fór fimm ættliði aftur í tímann til þess að finna konu sem ekki var í fullu starfi úti á vinnumarkaðnum, konu sem fékk aldrei að kjósa og þekkti ekkert annað. Þannig var tilveran. Ég er af þeirri kynslóð sem hefur verið dugleg að þiggja mannréttindi sem áður voru ekki sjálfsögð. Sjálf er ég fædd árið 1989. Sama ár og Taylor Swift. Ár Berlínarmúrsins og bjórsins. Þá átti Kvennalistinn fulltrúa bæði á Alþingi og í ýmsum sveitastjórnum, en sá listi hafði á sinni stefnuskrá að bæta stöðu kvenna. Þrátt fyrir kosningarétt hafði staða kvenna ekki náð að verða jöfn stöðu karla á mörgum sviðum. Ég hef alltaf gengið að því vísu að fá að kjósa og fá að vinna í fullu starfi á vinnumarkaðnum. Enda þekki ég ekki annað. Það er hollt að staldra við og skoða söguna og arfleiðina; bera hana saman við núverandi ástand til að átta sig á stöðunni.

Ég tilheyri kynslóð sem vissulega upplifir öðruvísi misrétti en formæður mínar því baráttunni er hvergi nærri lokið. Þó svo að litið sé á kosningarétt kvenna í dag sem sjálfsagðan hlut þá eru hundrað ár það langur tími að kynslóðir sem upplifðu frumbaráttuna fyrir þessum sjálfsögðu réttindum eru nú komnar undir græna torfu.

Ég hef varið töluverðum tíma af minni ævi í það að berjast fyrir réttindum minnihlutahópa; þegar ég var formaður Stúdentaráðs sem berst fyrir réttindum stúdenta, sem talskona Druslugöngunnar sem berst fyrir réttlæti í kynferðisbrotamálum og nú síðast sem varaformaður Samtakanna ’78 sem berst fyrir réttindum hinseginfólks á Íslandi.

Það er einlæg ósk mín að eftir hundrað ár, árið 2115 verði dóttur-dóttur-dóttir mín beðin um að skrifa grein um jafnréttisbaráttuna. Þar sem hún verður steinhissa þegar hún fer að skoða söguna og kemst að því að minnihlutahópar hafi þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum árið 2015. Að kynbundið ofbeldi hafi í alvöru verið jafn algengt og mikið samfélagsmein og raunin er í dag og það hafi í alvöru fundist launamunur á kynjunum. Þetta hljómar kannski útópískt í dag; en kannski hljómaði það líka útópískt fyrir Maríu langa-langa-langömmu minni að konur myndu fá að kjósa, vinna og njóta kynfrelsis árið 2015.