Á mínu heimili hefur kosningarétturinn aldrei verið settur í kynbundið samhengi. Á kosningaréttinn hefur aftur á móti verið litið sem rétt sem ekki er sjálfsagður heldur áunninn og ein af grunnstoðum samfélagsmyndar okkar og mannréttindi sem forverar mínir börðust fyrir um langa hríð. Því hef ég alltaf mætt á kjörstað hvort heldur það sé að kjósa flokka eða skila auðu. Ég hef miðlað þessu til barna minna og þau hafa nýtt sér kosningarétt sinn eftir að þau náðu aldri til þess. En þessu meira sem ég kynni mér fyrirkomulag lýðræðisréttar hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það að kalla fólk til kjörstaðar á fjögurra ára fresti er ekki þannig aðhald sem nútímafólk telur nægilega mikið til að búa í heilbrigðu og réttlátu lýðræði og því finnst fólki nánast tilgagnslaust að mæta á kjörstað nú til dags, því það er bara í boði að kjósa fólk og flokka út frá loforðum sem sjaldan eru efnd og ekkert hægt að gera til að segja þeim upp sem lugu sig til valda, eða krefjast þess að sá aðili sem ber höfuðábyrgð á svikum gagnvart þeim er veittu umboð sitt axli ábyrgð. Því hef ég beitt mér fyrir því síðan ég fékk mitt umboð til að vera fulltrúi á Alþingi Íslands að auka beina aðkomu og þátttöku almennings í lýðræðinu okkar.
Móðir mín, söngvaskáldið Bergþóra Árnadóttir var mjög virk í jafnréttisbaráttu síns tíma og spilaði sína tónlist gjarnan á baráttufundum ýmiskonar. Því fékk ég vitund um mikilvægi jafnréttis ung að árum og að það væri ekki sjálfgefið frekar en önnur mannréttindi sem forfeður og mæður mínar börðust fyrir, bæði fyrir sína kynslóð en ekki síður fyrir komandi kynslóðir.
Það hefur verið bryddað upp á hugmyndum í tengslum við 100 ára kosningaréttarafmælið að konur ættu t.d. að vera einar á Alþingi, það finnst mér afleit hugmynd, betur færi á að við einhendum okkur sem konur að taka okkur meira afgerandi stöðu í ákvarðanatöku er lítur að efnahagsmálum og koma með grunn að nýju kerfi þar í stað þess að apa upp valdaklíkukerfin og kasínófíknina sem gjarnan er kennd við gömul kerfi sem karlar komu einvörðungu að. Ég skora því á aðrar konur að taka aldrei valdið í fangið, að þær verði aldrei valdið, ef við getum ekki og komið með nýja hugsun í hin hefðbundnu karllægu kerfi, þá skiptir engu máli hver er hvar. Maður horfir upp á kvenmenn sem gætu verið fyrirmyndir en hafa bara alls ekki valdið því eins og t.d. AGS drottninguna Christine Lagarde, hún er mun vægðarlausari sem stjórnandi sjóðsins en forverar hennar. Það eru mikil vonbrigði. Hún og fleiri konur í valdastöðum tala um mikilvægi þess að fleiri konur séu í forystu, en það er ekki aðalmálið, aðalmálið er að mannúðlegri gildi séu í forystu og liður í ákvarðanatöku útfrá öðrum gildum. Sá heimur sem við búum við og reistur er á karlægum gildum er barn síns tíma. Kannski ættum við í stað þess að etja kven- og karl- mönnum saman á gildishlaðin máta að einbeita okkur að því að hvetja til mannlægra gilda sem sameina það besta frá báðum heimum.
Mér finnst allt of margar ákvarðanir sem teknar eru í okkar nútímasamfélagi litast af skammsýni, á meðan lítið er fjallað um framtíðarsýn og langtímahagsmuni samfélagsins. Nú er kominn tími á að við setjumst niður saman í okkar misstóru samfélögum út um allt land og ræðum saman um hvernig samfélagi við viljum búa í og hvað við erum til í að leggja að mörkum til að móta þá sýn saman og hrinda því í framkvæmd.