Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Halldóra Björt Ewen
Halldóra Björt Ewen
íslenskukennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð

Gefum körlum frí

Á kaffistofunni:

A: Vitið þið hvernig það er, fá allir frí 19. júní?

B: Frí?

A: Já þú veist, 19. júní, kosningaréttur kvenna og svona.

B: Já (hahahaha) það fá allir frí, líka við karlarnir, það vorum nú einu sinni við sem gáfum ykkur kosningaréttinn (hlær stórkarlalega og slær sér á lær).

Þannig var sá kaffitími og ég hugsaði með mér, hvernig getur nokkur maður, árið 2015 verið svona ótrúlega lummulegur. Ég hugsaði líka um að þessum manni veitti ekki af því að horfa á heiminn með, þó ekki væri nema lítið styrktum, kynjagleraugum. En ég hugsaði líka um dóttur þessa manns, vinkonur, frænkur, mömmu hans og ömmur, son, vini, frænda, pabba og afa. Og upp í mér blossaði reiði. Reiði yfir fáfræði mannsins og karlrembunni sem í honum býr. Hvers konar sýn á heiminn er þetta eiginlega? Með einu táknrænu pennastriki þurrkaði hann út baráttu kvenna til sjálfsagðra mannréttinda og eignaði sér það sem vannst. Einmitt, það voru karlar sem gáfu konum bara sisvona kosningarétt! Kanntu annan betri! Hvers konar fyrirmynd er maður sem hefur svona sýn á kynin og hlutverk þeirra?

Nú hafa konur mátt kjósa í 100 ár. Þau sjálfsögðu réttindi færðu karlar þeim ekki á silfurfati sisvona upp úr þurru. Raunar var töluverð andstaða við það að konur fengju að kjósa. Sjálf þekki ég ekki annan veruleika en að þau sjálfsögðu réttindi mín, að fá að kjósa til forystu þær sem ég treysti til að fara með stjórn landsins, séu fyrir hendi. Mér finnst það hins vegar vera skylda mín að sýna formæðrum mína þá virðingu að nýta kosningarétt minn í hvert sinn sem kosningar eru haldnar. En það er ekki bara rétturinn til að kjósa sem skiptir máli heldur líka sá réttur að bjóða sig fram til starfa í stjórnmálum. Í þeim efnum hefur gengið hægt að jafna hlut kynjanna. Og ég er satt að segja orðin verulega þreytt á stjórnandi körlum hvar í flokki sem þeir standa. Það skiptir máli að sjónarmið kvenna séu jafnáberandi og sjónarmið karla en þannig er málum ekki háttað í dag.

Að öllu jöfnu deili ég ekki skoðunum með Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Ég get þó ekki neitað því að hugmynd hennar um kvennaþing þykir mér spennandi kostur. Ég held að það sé kominn tími til að við gefum körlum frí frá því að stjórna landinu. Á meðan þeir eru í því fríi geta þeir einbeitt sér að heimilisstörfum en nýjar rannsóknir sýna að konur sinna þeim enn í miklu meira mæli en karlar. Til að þessar breytingar geti orðið að veruleika þurfum við, kjósendur, að nýta kosningarétt okkar og kjósa konur til valda. Kollegi minn á kaffistofunni gæti litið á það sem gjöf til karla frá konum, ef hann vill.