Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Margrét Erla Maack
Margrét Erla Maack
þúsundþjalasmiður

Ógeðsdrykkir og auðir seðlar

Ég var sextán ára þegar pabbi minn leyfði mér að ráðstafa atkvæði hans í kosningu um Reykjavíkurflugvöll. „Ég verð hvort sem er dauður þegar eitthvað verður gert í þessu.” Eingöngu 37% borgarbúa mættu á kjörstað. Það fannst mér fáránlegt, og mér fannst það rýra þessa fallegu ráðstöfunargjöf sem pabbi hafði gefið mér. Ég lagðist yfir málið en eins og unglinga er von og vísa kaus ég algjörlega út frá rassinum á sjálfri mér.
 
Um þessar mundir er 100 ára kosningarétti kvenna (og karla sem áður höfðu ekki fengið að kjósa) fagnað. Leitað var til mín til að skrifa þessa grein, en hún stóð á sér. Við erum ósátt við ríkisstjórnina okkar, treystum henni ekki og finnst hún ekki vera í takt við raunveruleikann. Og svo fögnum við lýðræðinu og að allir hafi atkvæðisrétt. Fagnaðarbrosin eru frosin. Þetta er ekki það sem við kusum, eða hvað? Miðað við hversu gleymin við erum á að öll vor í mörg ár hafa verið ömurleg, þá er kjósendaminnið verra. Það er í alvöru hægt að plata út úr okkur atkvæðin. Kosningarétturinn er magnað verkfæri til að verðlauna, breyta, refsa, hefna sín og láta til sín taka.
 
Hundrað árum eftir að konur fengu kosningarétt biður fimmti varaforseti Alþingis konur um að „hafa taumhald á tilfinningum sínum.“ Jú, hann baðst afsökunar - og ætlaði ekki að særa tilfinningar neins (einfalt ég gerði mistök  hefði verið smekklegra þarna). Þarna bergmáluðu hundrað ára gamlar hugmyndir sem féllu í hita leiksins… „Hvað ef konur eru með fyrirtíðaspennu á kosningadag?“ Minnir mig á þegar draugabanarnir spurðu konu sem sá draug: „Eru geðsjúkdómar í fjölskyldunni? Hefurðu á klæðum núna?“
 
Mig langar svo að vera jákvæð á þessum tímamótum. Ég er svo hrifin af jafnrétti. Og mig langar að gera eins og Sigmundur Davíð og vera jákvæð og þolinmóð og svoleiðis. En ég er bara skíthrædd um að allt sé farið til fjandans og eigi eftir að versna og að eitt lítið atkvæði skipti „þetta fólk“ engu máli nema rétt í mánuði fyrir kosningar, sem mín kynslóð kallar „ógeðsdrykkjamánuðinn” og vitnar til þess þegar þurrustu pólitíkusar mættu í 70 mínútur að drekka ógeðsdrykk.
 
Á afmælisdegi móður minnar árið 2004 vaknaði ég í kjarnorkuþynnku eftir nokkra ógeðsdrykki og dröslaði mér niður í ráðhús til að kjósa í forsetakosningum. Kjörsókn var afar dræm þetta ár, en ég var staðráðin í að fara og taka nú loksins þátt í þessu lýðræði. Ég fór í náttfötunum með málningu gærdagsins og í úlpu yfir. Hárið í einhverjum tiltektarhnút. Þegar ég gekk út úr ráðhúsinu nappaði Jóhanna Vigdís mig. „Hvað kaustu?” Ég skilaði auðu, „því mér fannst bara enginn nógu góður.” Á bakvið þetta auða atkvæði voru miklar djammtúttuþjáningar, en það taldist með auðum og ógildum. Af hverju er ekki meira mark tekið á auðum? Að skila auðu er yfirlýsing sem ber að taka alvarlega - ekki í sama flokk og atkvæðaseðla sem búið er að skrifa á limru.
 
Mig langar svo mikið að vera jákvæð og segja VIÐ FLOTTAR STELPUR HA ALLTAF AÐ KJÓSA NÆS en mér fallast hendur. Við kjósendur höfum ekki staðið okkur. Á hverju ári gleymum við að öll vor hafa verið köld frá því að Það er vorhret á glugga, napur vindur sem hvín var skrifað. Það er hægt að blekkja óhuggulega stóran hluta okkar með fótósjoppuðum flettiskiltum. Á Alþingi er þrefalt, fjórfalt eða fimmfalt gler og þingmenn segjast ósáttir við hegðun mótmælenda, þó að mér sýnist sem svo að af þeim þúsundum sem voru þarna þegar þetta er skrifað hafi einn „ruglast.“
 
Ég er þakklát þeim konum og körlum sem ruddu brautina svo ég og kynsystur mínar geti tekið þátt í lýðræðinu, en næst skulum við sýna þeim meiri virðingu en svo að kjósa yfir okkur bjána sem erum ekki í tengslum við raunveruleikann. Ígrundum atkvæðið og látum ekki blekkjast, stelpur, ha. Gúglum þetta betur. Og mætum á kjörstaði og verum úthvíldar, með gloss og túberað hár.
 
Þessi pistill er skrifaður af allsberri konu að skrifa jákvætt um lýðræðið fyrir Morgunblaðið.