Það er árið 1968, vor í lofti og kosningar framundan. Það á að kjósa nýjan forseta og ég hrífst með, fylgist með kosningabaráttunni, fer á fjöldasamkomur. Eins og flest ungt fólk á þessum tíma langar mig til að breyta heiminum til hins betra og þarna er tækifæri til að hafa áhrif. „Minn“ frambjóðandi er einn af okkur, venjulega fólkinu, og konan hans meira að segja fædd og uppalin í næstu götu við mig heima á Ísafirði! Hann er kjörinn forseti, en án minnar hjálpar. Ég er aðeins 18 ára og hef ekki kosningarétt.
Sennilega hafði ég aldrei áður velt fyrir mér hvers virði það er að kjósa, en oft síðan hefur mér verið hugsað til þingeysku kvennanna sem sendu langafa minn með ályktun á Þingvallafund 1888 og fóru þar fram á kosningarétt og kjörgengi fyrir konur. Ég ímynda mér að langalangamma mín á Gautlöndum og dætur hennar hafi verið í þeim hópi, enda miklir kvenskörungar þar á ferð og kvenfrelsissjónarmið nutu mikils fylgis í Mývatnssveit á þeim tíma.
Mamma og systkini hennar voru alin upp í þessu andrúmslofti lýðræðis- og mannréttindahugsjóna og ég drakk þessar hugmyndir í mig með móðurmjólkinni. Stuðningur við kvenréttindabaráttu var ómeðvitaður hluti af uppeldinu og heimilisbragnum. Á Ísafirði bernsku minnar voru konur áberandi í samfélaginu, þær héldu fiskverkuninni gangandi, sjómannskonurnar stýrðu stórum heimilum hjálparlaust og mér finnst eins og búðirnar hafi flestar verið reknar af konum. Engu að síður var karlaveldið svo inngróið að óhugsandi var að hugmyndir um kvenfrelsi nytu skilnings almennt.
Á námsárum mínum í Bandaríkjunum kynntist ég hinum nýja femínisma, hugmyndum kvenna á borð við Betty Friedan, Gloriu Steinem og Germaine Greer, sem höfðu mikil áhrif á mig. Hin nýja kvennahreyfing náði fljótt útbreiðslu um allan hinn vestræna heim samfara byltingu ungu kynslóðarinnar og öðrum mannréttinda- og frelsishreyfingum. Um þetta leyti hefja íslensku Rauðsokkurnar sína baráttu eftir svipaðri hugmyndafræði og auðvitað hreifst maður með. Kvenréttindi voru allt í einu komin á dagskrá eftir áratuga þögn og hér fyrir vestan var rifist um fegurðarsamkeppnir, húsmóðurhlutverkið og dagheimili rétt eins og fyrir sunnan.
Það var ógleymanleg stund þegar Kvennaframboðið var stofnað á Hótel Borg árið 1982, hvílík gleði og stemmning! Og svo kom Kvennalistinn ári síðar. Loksins var kominn stjórnmálaflokkur með málstað og pólitíska stefnu sem ég gat samsamað mig við. Reyndar voru Vestfirðir ekki með í fyrstu lotunni, en fjórum árum síðar var Vestfjarðaangi Kvennalistans stofnaður í stofunni heima hjá mömmu og um vorið tókst að koma saman framboðslista kvenna á Vestfjörðum. Það var ólýsanleg tilfinning að merkja X við lista sem ég gat stutt af heilum hug og gengið glöð og sátt frá kjörborðinu.
Í starfinu með Kvennalistanum kynntist ég fjölda kvenna á ýmsum aldri með fjölbreyttan bakgrunn sem allar höfðu það að markmiði að bæta hag kvenna og trúðu því að besta og raunhæfasta leiðin til að bæta þjóðfélagið væri sú að konur fengju völd. En hugmyndir um reynsluheim kvenna fengu ekki mikinn hljómgrunn í sjávarþorpunum. Á kosningafundum var óspart gert grín að hugmyndum okkar um fjölbreyttara atvinnulíf, ferðaþjónustu, handverksiðnað og eflingu smáfyrirtækja. Vart var þörf á slíku í samfélagi þar sem sjávarútvegur og fiskiðnaður stóðu í miklum blóma og voru að því er virtist óhagganlegar grunnstoðir samélagsins. En tíminn hefur leitt annað í ljós.
Á þeirri öld sem liðin er frá því konur fengu kosningarétt hafa hugmyndir okkar um lýðræði breyst frá því sem áður var. Stjórnmálamönnum hefur því miður ekki tekist að koma til móts við þessar hugmyndir, trúnaðarbrestur ríkir milli kjósenda og fulltrúa þeirra og sterkir hagsmunaaðilar virðast stýra ákvarðanatöku í stórum málum. Á sama tíma hefur krafan um beint lýðræði orðið æ háværari. Fólk vill fá að taka beinan þátt með þjóðaratkvæðagreiðslu í ákvörðunum sem snerta framtíð barnanna þeirra og þjóðarinnar allrar. Það vill fá að kjósa um nýja stjórnarskrá, samning við Evrópusambandið og ráðstöfun auðlinda þjóðarinnar.
Það hefur verið undravert að fylgjast með virkni íslensks almennings í þjóðmálum undanfarin ár. Fólk bloggar og skrifar upplýstar greinar, streymir út á göturnar og flykkist þúsundum saman á Austurvöll til að minna ráðamenn á að þeir eru þjónar fólksins. Vilji og löngun fólks, kvenna og karla, ungra sem gamalla, til að hafa áhrif og breyta heiminum hverfur aldrei.