Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Erla Bolladóttir
Erla Bolladóttir
verkefnastjóri

Réttlætisins helgi

Það var sérstök tilfinning að hafa náð þeim fullorðinsaldri að mega taka þátt í ríkisstjórnarkosningum i fyrsta sinn. Ég hafði mínar hugmyndir um hvaða flokkur yrði samfélaginu heilladrýgstur við stjórnvölinn og fann til vægis míns í því að leggja lóð mitt á vogarskálarnar til að stuðla að því að sá flokkur hlyti brautargengi. Tilfinning mín um mikilvægi mitt sem kjósanda var hins vegar ekki ósnortin fremur en neitt annað í lífi mínu þegar hér var komið sögu. Undanfarandi ár hafði mér verið innrætt að ég væri óverðugur og jafnvel hættulegur samfélagsþegn sem hefði engar forsendur til þátttöku í sameiginlegum málefnum heiðvirðra landa minna. Ég hafði endurtekið fengið þau skýru skilaboð að verst væri að ekki væri hægt að losa landið við mig með dauðadómi eða í versta falli innilokun þar sem skellt væri í lás og lyklinum týnt. Það var því óttablandin ferð sem ég lagði í þegar ég hélt á kjörstað þennan kosningadag sem virtist svo hátíðlegur og ég vonaði lengst að engin vandræði yrðu við þetta tækifæri.

Ég gekk óörugg að fulltrúum kjörstjórnar í kjördæmi mínu þar sem þeir sátu við borð með nafnalista sína, reiðubúnir að merkja við atkvæðagreiðslu mína. Fljótlega kom hins vegar í ljós að nafn mitt fannst ekki á listanum og mér var tjáð að ég væri ekki á kjörskrá. Fyrstu viðbrögð mín voru að leita leiða til að komast burt af staðnum án frekari málalenginga en fulltrúinn sem hafði tilkynnt mér þetta bauð mér að fylgja sér til fundar við kjörstjórn á efri hæð í skólanum sem hýsti kosningarnar í bæjarhluta lögheimilis míns. Mér virtist friðsamlegra af minni hálfu að taka boði hans og fylgdi því í humátt á eftir honum þar sem hann var lagður af stað upp stigann til æðri fulltrúa á staðnum. Þegar upp var komið gekk hann á undan mér inn á skrifstofu þar sem hann kynnti mig og tilefni þess að ég væri þangað komin. Einhverjar fleiri persónur voru þar fyrir en konan sem sat bak við skrifborð og virtist vera í forsvari á staðnum virtist ekki þurfa umhugsunarfrest áður en hún útskýrði fyrir mér að ég hefði ekki kosningarétt vegna sakaskrár minnar. Ég hefði verið fundin sek um alvarlegan glæp og dæmd í héraði og væri þess vegna ekki álitin þess umkomin að axla ábyrgð á atkvæði í ríkisstjórnarkosningum. Eftir þessa skýru yfirlýsingu hljómaði það sem á eftir kom sem suð í eyrum mér meðan ég hugsaði um það eitt hvernig ég kæmist burt úr þessum kringumstæðum. Ég baðst afsökunar á ónæðinu sem mál mitt hafði valdið á staðnum, fann leið mína út af skrifstofunni og flýtti mér heim þar sem ég gat verið óhult.

Liðið var á kosningadaginn þegar kosningarnar voru ræddar meðal fjölskyldunnar heima fyrir. Skipst var á skoðunum með tilheyrandi mismun þar að lútandi milli kynslóða. Þegar ég var spurð hvort ég hefði „kosið rétt“ eftir að hafa hlýtt á samræðurnar án þess að leggja orð í belg útskýrði ég að ég hefði ekki kosningarétt af augljósum ástæðum. Heimilisfólkinu var brugðið en eftir að það hafði jafnað sig á undruninni komu fram efasemdir um að málið stæðist gagnvart lögum. Ég var hvött til að kanna málið betur og það varð úr að ég hafði samband við kosningaskrifstofu þess flokks sem ég treysti helst. Þar urðu menn bæði undrandi og reiðir og báðu mig að bíða meðan málið yrði athugað. Eftir einhverja stund var mér tjáð að of lítill tími væri til stefnu til að leiðrétta það sem virtust vera annaðhvort mistök eða misskilningur í tæka tíð til að ég gæti tekið þátt í umræddum kosningum. Mér var hins vegar boðið að fulltrúar stjórnmálaflokksins tækju að sér að kanna málið betur í framhaldinu. Ég þáði það og lagði málið til hliðar þar sem fyrir voru nokkur önnur óþægileg mál svipaðs eðlis sem engin lausn virtist líkleg að fyndist á.

Ekkert spurðist af málinu um kosningarétt minn fyrr en tveimur árum síðar þegar borgarstjórnarkosningar stóðu fyrir dyrum vorið 1980. Kosningabarátta undanfarinna vikna hafði vakið með mér bæði depurð og kvíða í skugga fyrri reynslu og áframhaldandi tjáningar náungans á fyrirlitningu sinni á fólki eins og mér. Þá barst mér bréf í póstinum frá kjörstjórn þar sem mér var tilkynnt að nafn mitt hefði verið tekið inn á kjörskrá og mér væri því frjálst að nýta atkvæðisrétt minn í komandi kosningum. Ég dró þá ályktun að þarna hefði stjórnmálaflokkur sá sem ég leitaði til tveimur árum áður hlutast til um málið með þessum árangri. Það var engu að síður erfið framkvæmd að mæta á kjörstað, gefa upp nafn mitt og bíða eftir viðbrögðum fulltrúa á staðnum. Það gekk þó árekstralaust fyrir sig og ég skilaði atkvæði mínu í kjörkassann um leið og hvarflaði að mér að það yrði fiskað upp úr kassanum og fleygt í ruslið þegar ég væri komin í hvarf.

Ég hef aldrei síðan látið undir höfuð leggjast að nýta atkvæði mitt í opinberum kosningum. Hvað sem liðið hefur afstöðu tiltekinna aðila til „fólks eins og mín“ eftir þau skil sem dómsvald og fjölmiðlar gerðu meintri persónu minni á fyrri tíð, þá hafa það ávallt verið mikilvægar vörður á vegferð minni í baráttu fyrir réttlæti á öllum þeim stigum sem það hefur verið að engu haft að taka mína stöðu sem vernduð er af stjórnarskrá landsins og axla ábyrgð á atkvæði mínu. Mér er ljóst að þrátt fyrir þann sögulega harmleik réttarkerfisins þar sem mér og nokkrum ungmennum öðrum var fórnað í skyni hagsmuna sem enn hafa ekki verið dregnir fram í dagsljósið, þá elska ég Ísland. Land sem er svo miklu mun stærra en sú hlið sem það hefur snúið að mér og nefndum ungmennum. Fyrir þetta „stórasta land í heimi“ á ég þá ósk heitasta að það fái óhindrað tækifæri til að uppskera þau gæði sem efni þess standa til þegar réttlætinu hefur verið veittur sá helgi staður sem það verður að hafa ef þegnum þess á raunverulega að farnast vel.