Það var sóknarhugur í íslensku þjóðinni árið 1915. Þá fengu konur, 40 ára og eldri, kosningarétt til Alþingis. Þetta var mikill árangur fyrir kvennabaráttuna enda þótt konur í Danmörku væru reyndar taldar hafa kosningaþroska 25 ára. Árið var einnig merkilegt fyrir þær sakir að þá kom til Íslands m/s Gullfoss sem var fyrsta skip í eigu hins nýstofnaða Eimskipafélags Íslands h.f. Gullfoss kom í sinni „jómfrúarferð“ til Ólafsvikur þar sem amma mín, Þórheiður Einarsdóttir bjó. Hún var þá tvítug og hafði því ekki náð kosningarrétti. Amma ásamt nokkrum öðrum konum í Ólafsvík ákváðu að fagna komu Gullfoss með því að klæða sig upp í peysuföt og róa út að Gullfossi. Þegar karlarnir um borð sáu þessar konur undir árum var skellihlegið og gert grín að þeim. Svona var nú viðhorfið á þessum tíma.
Amma Þórheiður hafði ágæta námshæfileika en hafði fjárhagslega enga möguleika að mennta sig frekar en flestar aðrar konu á hennar tíma, enda þótt árið 1911 hefði sami aðgangur karla og kvenna að menntastofnunum verið lögfestur. Hún náði hins vegar að upplifa að yngri systir hennar, Ólafía Einarsdóttir lauk fyrst Íslendinga prófi í fornleifafræði. Ólafía sem lauk síðan doktorsprófi í sagnfræði hlaut fyrst kvenna 4ra ára ríkisstyrk til náms erlendis. Önnur systir hennar, Björg Einarsdóttir, skrifaði brautryðjendaverk um ævi og störf íslenskra kvenna. Ömmu hefði hins vegar ekki órað fyrir að 100 árum eftir að konur fengu kosningarétt yrðu konur 2/3 þeirra sem stunduðu háskólanám.
En hvenær byrja konur að hafa raunveruleg pólitísk áhrif? Amma sá því miður ekki mikla þróun í stjórnmálaþátttöku kvenna þau tæpu 50 árum sem hún lifði eftir að konur fengu kosningarétt. Mér sýnist að það sé í raun ekki mikil breyting fyrr en eftir hinn sögulega kvennafrídag árið 1975 og eftir að Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kvenna í heiminum kosin forseti í almennum kosningum. 65 árum eftir að „eldri“ konu fengu kosningarétt var til dæmis hlutfall kvenna á Alþingi einungis um 5%. Upp úr 1980 hefur þetta hlutfall sem betur fer vaxið jafnt og þétt og hefur síðustu árin verið um 40%.
Ég held að það hefði ekki komið ömmu á óvart að þrátt fyrir lagasetningu um að launajöfnuður skyldi nást fyrir árið 1967 sé enn nokkuð í það að raunverulegt jafnrétti verði í launamálum karla og kvenna. Það hefði hins vegar ekki hvarflað að ömmu minni að íslenskar konur yrðu með hæstu atvinnuþátttöku í heiminum 100 árum eftir að hún réri að Gullfossi. Amma hefði aldrei getað ímyndað sér að Ísland yrði efst á lista yfir þau lönd í heiminum þar sem kynjamunur er talinn minnstur og þar sem best þykir að vera kona. Ömmu minni, sem eignaðist 11 börn, hefði aldrei órað fyrir því að Ísland yrði árið 2000 fyrsta landið i heiminum til að jafna rétt foreldra til fæðingarorlofs.
Hvað jafnrétti karla og kvenna viðkemur stendur Ísland árið 2015 mjög framarlega á heimsvísu. Þessi staða gefur okkur kost á að leggja okkar af mörkum alþjóðlega til að jafna hlut kvenna og okkur ber að gera það. Víða um heim sæta konur kúgun og hafa takmörkuð sem engin pólitísk eða borgaraleg réttindi. Við erum þegar byrjuð að miðla reynslu okkar og þekkingu til annarra þjóða svo sem eins og með Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna og með karlaráðstefnu hjá Sameinuðu þjóðunum um réttindi kvenna tengt verkefninu „hann fyrir hana“. Ísland gæti hins vegar verið í fremsta flokki á alþjóðavettvangi í að jafnrétti kynjanna fái sinn réttmæta sess í baráttunni fyrir grundvallarmannréttindum en til þess þurfum við að halda áfram að vera í fararbroddi. Við megum ekki láta staðar numið innanlands. Við þurfum alltaf að gera betur. Grípum það tækifæri nú er við höldum upp á 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Gerum réttindi kvenna að mannréttindum, ekki annars flokks réttindum.