Dóttir mín Ótta varð eins árs í júní. Hún líkt og önnur börn fædd á Íslandi í dag mun öðlast kosningarétt 18 ára að aldri. Þegar langamma mín, Sumarlína Eiríksdóttir, fæddist fyrir rúmum 100 árum, 1898, nutu karlmenn hins vegar eingöngu þess réttar, nokkuð sem átti eftir að breytast við upphaf 20. aldarinnar. Það má því með sönnu segja að langamma mín, sem fæddist í Kjósinni, hafi litið dagsins ljós rétt við dagrenningu jafnréttisbaráttu kvenna á Íslandi. Í forystu á þeim tíma var Bríet Bjarnhéðinsdóttir sem áratug áður hafði haldið frægan fyrirlestur „Um hagi og rjettindi kvenna“ og þótti þar sýnt að víða hallaði á hlut kvenna í íslensku þjóðfélagi sem og í nágrannalöndum. Málaflokkarnir sem barist var fyrir voru fjölmargir m.a. réttur kvenna til náms og styrkja, aukið sjálfstæði og hlutdeild kvenna í atvinnulífi og ekki síst atkvæðisréttur og þátttaka í málefnum sveitar og þjóðar. Frelsisbarátta Bríetar og þátttökukvenna bar sinn fyrsta ávöxt við sveitastjórnakosningar í Reykjavík árið 1908 þegar að konur hlutu í fyrsta sinn rétt til kosninga og framboðs í sveitastjórnakosningum á Íslandi. Nokkrum árum síðar, um það leiti sem langamma kynntist langafa og þau gengu í hjónaband, fengu konur á Íslandi meðal fyrstu Evrópuþjóða kosningarétt til Alþingis.
Síðan eru liðin 100 ár og á þessum tímamótum, með litla dóttur mína í fanginu, velti ég því fyrir mér hvaða breytingar hafa orðið á hlut kvenna? Hvernig munu uppvaxtarár og ævi Óttu vera ólík því umhverfi sem langamma mín ólst upp við og átti eftir að upplifa? Hvar erum við stödd í dag og hvað hefur áunnist á þessari vegferð?
Í dag telst réttur kynjanna til kosninga jafn og sjálfsagður en kosningaréttur kvenna var mikill áfangasigur á sínum tíma. Hann var þó eingöngu einn liður af mörgum sem huga þurfti að til að efla hlut kvenna í þjóðfélaginu. Það átti margt eftir að breytast á æviskeiði langömmu mínnar sem ól börnin sín á tímum mikilla umróta og breytinga í jafnréttismálum. Konur hlutu atkvæðisrétt, fóru að taka þátt í opinberri stjórnsýslu, hlutu aukin tækifæri til menntunar og urðu um síðir sýnilegri til þátttöku í íslensku atvinnulífi. Staðalímynd kvenna og íslenskra húsmæðra átti þannig eftir að taka stakkaskiptum og hlutverk kvenna og karla færðust nær hvort öðru. Nútímafjölskyldan er þannig um margt ólík fjölskyldu langömmu og afa sem uppi var á síðustu öld. Hlutur kynjanna er jafnari sem skilað hefur fjölbreyttara, öflugra og ekki síst samkeppnishæfara þjóðfélagi. En verandi Íslendingur, kona, móðir, maki og virkur þátttakandi í atvinnulífi og þjóðfélagsmálum veit ég líka að tækifærin til að gera betur eru fjölmörg. Að vissu leiti hefur vegferðin undanfarin 100 ár markast af því að breyta sjálfri þjóðfélagsumgjörðinni til að greiða götu jafnréttismála en út frá menningarsjónarmiði eigum við ennþá töluvert í land. Við vitum þetta öll. Tækifærin eru sögð jöfn í orði og á borði en í hjarta þorra landsmanna ríkir ennþá menningarbil á milli kynjanna sem endurspeglast í gjörðum okkar dags daglega, bæði í lífi og starfi. Þið þekkið dæmin.
Þekkjandi skapgerð ungu dóttur minnar er ég þess fullviss að hún muni sækjast eftir sömu tækifærum og jafnaldrar sínir þegar kemur að áhugamálum, menntun og atvinnu síðar á lífsleið sinni. Í hlutverki mínu sem foreldri mun ég hvetja hana til hafa þor og fara ótroðnar slóðir, benda á þætti sem betur mega fara og að með verkum sínum markvisst vinna að því að brjóta niður þá ósýnilegu hindranir sem hún kann að mæta á lífsleiðinni. Ég ætla þannig ásamt dóttur minni að eiga virkan þátt í að skapa nýtt samfélag sem um síðir mun aldrei spyrja um kyn. Ég skora á þig að gera slíkt hið sama. Það má vel vera að þessi vegferð muni taka okkur önnur 100 ár – hver veit ? Það eitt er víst að framtíðin er okkar allra hvort heldur sem við erum konur eða karlar.