Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Anna María Bogadóttir
Anna María Bogadóttir
arkitekt

Arkitektar framtíðarinnar

Stór skref voru stigin í átt að auknu jafnrétti á þeim tíma sem ég var að alast upp og víða úr umhverfinu bárust jákvæð skilaboð sem veittu mikinn innblástur. Mér fannst sjálfsagt að sitja við sama borð og aðrir, að mennta mig og sækjast eftir og sinna störfum sem mér hugnaðist og síðar fékk ég tækifæri til að vinna með konum sem höfðu verið og eru enn magnaðar fyrirmyndir.

Þegar ég var í framhaldsnámi í Bandaríkjunum upplifði ég hins vegar að ávextir jafnréttisbaráttu á Íslandi væru ekki jafnsjálfsagðir og ég hafði haldið. Á skrifstofu skólastjóra fékk ég þau skilaboð að ég þyrfti að velja milli þess að eiga barnið sem ég gekk með eða halda náminu áfram, ég gæti ekki fengið leyfi. Sem fulltrúi menningar þar sem nám og námshlé vegna barneigna þykja sjálfsögð réttindi sveið mig sáran. Ég gekk því inn á jafnréttisskrifstofu háskólans og rakti raunir mínar. Í kjölfarið fékk ég aðstoð við að afla námsleyfisins, sem ég á endanum fékk á þeim forsendum að það stæði hvergi skýrt í reglum skólans að nemendur ættu ekki rétt á að halda áfram námi eftir tímabundið hlé vegna barneigna oftar en einu sinni á námstímanum. Það sem mér hafði þótt eðlilegasti hlutur þótti svo fjarlæg hugsun að það hafði ekki einu sinni verið haft fyrir því að taka sérstaklega fram að það samræmdist ekki reglum skólans.

Eftir að mér var veitt námsleyfið var mér sagt að nú yrði reglunum breytt til að fyrirbyggja að þetta gerðist aftur og tryggja að næsta kona í mínum sporum kæmist ekki upp með það sama og ég. Augu mín galopnuðust fyrir því hve Íslendingar eru leiðandi þegar kemur að jafnrétti kynjanna og mér varð einnig ljóst hversu karllægt fagið sem ég lagði stund á, arkitektúr, er enn þann dag í dag. Það er stutt síðan konur fóru að stunda arkitektúr. Fyrsti íslenski kvenarkitektinn lauk námi árið 1940 og lengi vel var viðhorfið að konur væru mögulega hæfar sem innanhússhönnuðir en ekki sem „alvöru“ arkitektar.

Kosningaréttur kvenna er grundvallarþáttur í því að konur standi karlmönnum jafnfætis sem arkitektar framtíðarsamfélagsins. Kosningarétturinn er þó aðeins einn áfangi af mörgum og eitt eru lög og reglur, annað eru hefðir og óskrifaðir hlutir sem birtast í umhverfinu í kringum okkur og teiknar sig ekki sjálft. Enn er langt í land og það tekur tíma að breyta undirliggjandi strúktúrum samfélagsins sem hafa ekki alltaf staðist tímans tönn auk þess að vera að mestu leyti mótaðir án aðkomu og reynslu kvenna. Skólarnir, félagsheimilin og íþróttahúsin sem umbreytast reglulega í kjörstaði, sem og göturnar sem liggja að þeim varpa ljósi á kerfi sem hafa verið skrúfuð saman á ákveðinn hátt, kerfi sem hafa áhrif á það hvernig umhverfið er, sem aftur hefur áhrif á það hvort og hvernig við kjósum og mótum umhverfi. Eldhúsið, grindverkið, gluggarnir, gólfið og það hvernig við röðum til borðs endurspeglar stöðu, hlutverk og ábyrgð, sem birtist í umhverfinu allt í kringum okkur. Þetta eru hlutir sem við kjósum um á hverjum degi og hvort sem það er stóra myndin eða litlu hlutirnir, þá þarf átak og áræði til að breyta úreltum hefðum og halda í horfi sigrum í þágu jafnréttis sem fyrri kynslóðir hafa unnið fyrir okkur. Umhverfið er því í sjálfu sér hluti af mannréttinda- og kvennabaráttunni og hér megum við hvorki sofna á verðinum né slökkva á ímyndunaraflinu.