Átta ára gömul gekk ég í hús með rauða rós og afhenti fyrir þingkosningar og hvatti fólk til að kjósa.
Réttlæti, jöfnuður og að allir ættu að fá sömu tækifæri í lífinu er m.a. það sem mér var innrætt frá unga aldri.
Langamma mín var Jóhanna Egilsdóttir verkalýðsleiðtogi og Alþýðuflokkskona. Sonur hennar, móðurafi minn, var framkvæmdarstjóri Alþýðuflokksins um árabil. Hann var jafnan með puttann á púlsinum um það hvað var að gerast í pólitíkinni hverju sinni.
Ég heimsótti ömmu og afa í hverri viku, þar var mikið talað um pólitík og mikið skeggrætt, en við börnin þögðum og hlustuðum. Þegar maður elst upp við slíkar pólitískar umræður, hlýtur maður að leggja við hlustir og mynda sér skoðanir.
Ég man eftir því að hafa farið með móður minni Jóhönnu E. Vilhelmsdóttir á fundi er hún var í Framkvæmdarnefnd um launamál kvenna, sem var þverpólitísk nefnd um stöðu kvenna. Ég var um 10 ára gömul með teikniblokk undir hendinni, ég horfði og hlustaði meðan konurnar funduðu og hreifst af ákafa þeirra og baráttu.
Það hafði mjög sterk áhrif á mig að upplifa það þegar að Vígdís Finnbogadóttir var kosin fyrsti kvennforsetinn í heiminum. Ég var stolt að því að vera kona/stelpa þó ég væri ekki nema nokkurra ára gömul. Svona „moment“ hafði mikil áhrif á mig.
Ég var í menntaskóla þegar ég mátti kjósa til Alþingis í fyrsta sinn. Mér fannst það skipta mjög miklu máli að nota atkvæðið mitt, hafa sjálfstæðar skoðanir. Ekki taka því sem sjálfsögðum hlut að fá að kjósa eða að kjósa eins og fjölskyldan.
Ég gekk á milli fólks og vildi ræða málin, fá fólk til að hugsa sjálfstætt og spyrja sig spurninga, líkt og ég hafði upplifað. Mér fundust margir jafnaldrar mínir, stelpur sem og strákar, hafa lítin sem engann áhuga. Þau höfðu ekki hugmynd um mun á flokkum og margir sögðust ætla að kjósa eins og foreldrarnir. Mér fannst skipta máli að hugsa sjálfstætt, hugsa hvað hentaði mér á þessum tímapunkti í lífinu og nota atkvæði mitt í samræmi við það.
Ein af skemmtilegustu stundum mínum í Kvennaskólanum voru hjá Kristínu Ásgeirsdóttur sögukennara og fyrrverandi Kvennalistakonu. Frásögn hennar um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur sem var samferðakona langömmu Jóhönnu Egilsdóttur var eftirminnileg og áhrifarík. Þarna var kjarnakona að lýsa annarri. Bríet og langamma börðust báðar fyrir jöfnuði kvenna og verkafólk, báru hag lítilmagnans fyrir brjósti. Amma Jóhanna bar mikla virðingu fyrir Bríeti Bjarhéðinsdóttur.
Mér hefur fundist áhugavert að skoða annarsvegar jafnrétti kynjanna og svo almennt jafnrétti í þjóðfélaginu. Það er mikilvægt að hafa skoðanir og þá á auðvitað ekki að skipta máli hvort við erum kvenkyns eða karlkyns.
Nú á ég tvær dætur, Bríeti og Herdísi Jóhönnu. Það er skylda okkar að upplýsa yngri kynslóðir um sögu þeirra sem á undan fóru og sem börðust fyrir réttindum kvenna og vekja þær til umhugsunar um stöðu kvenna í þátíð og nútíð.
Margt hefur áunnist í tímans rás en enn höfum við ekki náð öllum markmiðum okkar þar sem við stöndum ekki jafnfætis körlunum t.d. í launamálum.
Konur látum raddir okkar heyrast áfram!