Fyrir fimm árum átti ég von á mínu fjórða barni, við hjónin vorum þá bæði útivinnandi og sáum ekki fyrir okkur hvernig það myndi ganga upp með fjögur börn á aldrinum 0-7 ára. Ég var á þeim tíma ekki tilbúin til að gera hlé á mínum starfsframa til að vera heimavinnandi. Nokkrum dögum síðar kom maðurinn minn heim úr vinnunni og tilkynnti að hann væri búinn að segja upp vinnunni sinni svo hann gæti verið heimavinnandi. Hann lét það ekki trufla sig þótt pabba mínum fyndist hann ónytjungur, vinnufélagarnir gerðu grín að honum og það þvældist heldur ekkert fyrir honum að eiginkonan væri fyrirvinnan. Framundan tóku við þrjú bestu ár ævi okkar.
Fyrstu vikurnar gleymdust fótboltaæfingar, afmæli hjá vinunum og börnin voru ógreidd í ósamstæðum fötum. Ég sat á mér með að vera framkvæmdastjóri heimilisins en eftir nokkrar vikur var allt komið í fastar skorður. Eftir að maðurinn minn fór síðar aftur út á vinnumarkaðinn er verkaskiptingin á heimilinu mun jafnari en áður.
Þessi reynsla mín varð til þess að ég fór að velta meira fyrir mér jafnrétti og af hverju svo fáar konur gegna æðstu stjórnendastöðum í íslenskum fyrirtækjum. Ég gerði því rannsókn í mastersnámi mínu, rannsóknarefnið var leið kvenna í æðstu stjórnendastöður fyrirtækja. Ég ræddi við tíu konur og spurði þær hvernig þær fóru að því að komast í æðstu stjórnendastöðurnar.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að tækifærin eru víða í íslensku atvinnulífi fyrir konur. Mikið hefur verið rætt um að fjölga konum í stjórnendastöðum og lög hafa verið sett til að auka hlut kvenna í stjórnum. En umfjöllun og lög duga ekki ein og sér, það þarf meira til. Til að komast í æðstu stjórnendastöður þurfa konur að ryðja hindrunum úr vegi og flestar þeirra hindrana geta konur haft áhrif á. Eftirfarandi atriði nefndu flestar konurnar sem þætti sem skipta máli til að komast í æðstu stjórnendastöðu:
Við konur þurfum að sleppa takinu á heimilinu. Það getur verið erfitt að vera bæði framkvæmdastjóri í vinnunni og á heimilinu. Alla jafna hafa konur sterkari skoðanir á barnauppeldi og heimilisrekstri og eiga því erfitt með að sleppa takinu af því. Almennt vilja karlmenn taka meiri þátt heima fyrir en kröfur okkar kvennanna eru oft það miklar að erfitt er að standa undir þeim. Við þurfum að gera eiginmenn okkar að raunverulegum félaga.
Við konur þurfum að taka að okkur sérverkefni á vinnustöðum okkar, verkefni sem fara þvert á fyrirtækið og helst verkefni sem eru næst æðstu stjórnendum fyrirtækisins, þar sem ákvarðanir eru teknar um framtíð starfsmanna. Konur eru almennt duglegar í vinnu og okkur hættir til að halda að það sé nóg til að komast áfram í starfi. En svo er ekki, við þurfum að láta sem flesta vita hvað í okkur býr.
Við konur þurfum að efla tengslanetið enn meira og í okkar tengslaneti mega ekki bara vera konur því meirihluti þeirra sem taka stóru ákvarðanirnar í fyrirækjum eru karlar. Það er ekki þannig að karlar sem gegna áhrifastöðum í þjóðfélaginu vilji ekki að konur taki að sér meiri ábyrgð. Konurnar eru bara ekki nægilega sýnilegar. En það fer töluverður tími í að efla tengslanetið og oftast er það á kostnað tíma með fjölskyldunni og það þykir mörgum konum fráhrindandi.
Við konur þurfum að hafa meiri trú á okkur og stökkva á tækifærin þegar þau gefast, við ætlum að gera allt í réttri röð, klára að mennta okkur, fá reynslu, eignast börnin og síðan erum við tilbúnar fyrir meiri ábyrgð í atvinnulífinu, en þá eru tækifærin e.t.v. búin að sigla framhjá okkur.
Við konur viljum fá að hafa val. Áhugasvið kvenna og karla eru ólík og konur velja oftar að vera heimavinnandi með börnin en karlar og eru ánægðar með það val. Það er þó staðreynd að viðskiptaheimurinn er karllægur og því þurfa konur að hafa meira fyrir því að komast í æðstu stjórnendastöður en karlar. Konur hika því við að leggja í þá miklu vinnu sem til þarf.
Niðurstöðurnar eru þær að ef konur markaðssetja sjálfar sig innan og utan fyrirtækisins, efla tengslanetið, eru sýnilegar, auka sjálfstraust sitt, dreifa ábyrgðinni á heimilisrekstrinum og barnauppeldinu og stökkva á tækifærin þegar þau gefast er leiðin í æðstu stjórnendastöðu nokkuð greið.