Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Rakel Sölvadóttir
Rakel Sölvadóttir
tölvunarfræðingur og stofnandi Skema

Ísland best í heimi?

Það var ekki fyrr en ég flutti til Bandaríkjanna fyrir um tveimur árum síðan sem ég virkilega fann fyrir því hversu langt við erum komin í jafnréttismálum kynjanna á Íslandi. Viðmót og viðhorf karla til kvenna var vægast sagt sjokkerandi en það sem mér fannst sorglegast var viðhorf kvenna til sjálfra síns og annarra kvenna. Á hliðarlínunni sem „soccer-mom“ fann ég og heyrði hvernig sumar mömmurnar litu á það sem sína ábyrgð og skyldu að sjá alfarið um börn og heimili samhliða fullri vinnu með lítilli sem engri aðstoð maka. Framkoma við konur í viðskiptaheiminum var líka frekar aftarlega á merinni þar sem alfa-maðurinn réð ríkjum og alls ekki sjálfgefið að konur myndu ganga í hvaða störf sem er og fá lof og virðingu fyrir. Ekki hjálpar það til að fæðingarorlof er stutt, leikskólagjöld fáránlega há og mæður nánast litnar hornauga ef þær hafa barnið á leikskóla allan daginn. Móðirin setur því oft sinn starfsframa á bið þegar kemur að barneignum - sorglegt en satt. Ég átti erfitt með að trúa þessu ástandi. Var ég búin að lifa í einhverri ímyndaðri kynjajafnréttiskúlu á Íslandi eða er Ísland kannski bara „best“ í heimi þegar kemur að jafnréttismálum kynjanna og af hverju?

Fyrir þennan tíma skildi ég eiginlega ekki þetta jafnréttisvæl, eða „vagínuvæl“ eins og ég tók stundum til orða. Af hverju gátu konur ekki bara staðið beinar í baki og falast eftir því sem þær vildu? Af hverju gátu konur ekki bara óskað eftir þeim launum sem þær töldu sig eiga skilið? Af hverju þurfti sérstaka kvennastyrki í atvinnulífinu? Af hverju þurfti að vera að setja upp þessa sérstöku kvennastuðningshópa? Ég ólst upp með þá sýn að það væri enginn kynjamunur og að konur jafnt sem karlar gætu tekið að sér hvaða störf sem er og fengið laun í samræmi við framlag í starfi svo lengi sem þau hefðu markmið og föluðust eftir því sem þau vildu. Ég á foreldrum mínum það að þakka að ég hafi fengið tækifæri til að upplifa störf sem þótt hafa karllæg störf frá unga aldri. Ég var ekki nema 8 ára þegar ég fór fyrst á sjó með pabba, Sölva Steinberg Pálssyni, þar sem ég fékk að galla mig upp og slægja fisk með hinum. Það var á svipuðum aldri sem ég dröslaðist með móður minni, Ragnheiði Ólafsdóttur, á alla fundi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi og fylgdist með henni ná kjöri í bæjarstjórn. Það er mér mjög minnistætt hversu virk ég var í þessu ferli. Ekki bara að drekka kók og borða Prins Póló á kosningaskrifstofunni heldur hvað ég tók þessu alvarlega og labbaði um allan bæ og límdi X-D límmiða á alla ljósastaura auk þess að þekja rúður Framsóknarflokksins með sömu límmiðum daginn fyrir kosningar. Ég fylgdi líka með frá Sjálfstæðisflokknum yfir í Borgaraflokkinn þar sem ég var yngsti flokksbundni meðlimurinn aðeins 11 ára að aldri. Það er því ekki skrítið að mér hafi fundist eðlilegast í heimi að konur væru á sjó, að konur væru í pólitík og/eða að konur væru heimavinnandi. Ég fylgdist nefnilega grannt með baráttu móður minnar í Félagi heimavinnandi húsmæðra þar sem krafist var þess að foreldrar ættu rétt á að fá greidd laun fyrir að vera heima með börnunum sínum. Og auðvitað ætti það að vera svo.

Því miður var og er heimurinn ekki alveg svona sjálfsagður. Við erum komin langt á veg í átt að kynjajafnrétti á Íslandi en við værum ekki þar sem við erum í dag ef það væri ekki fyrir baráttu. Baráttu flottra kvenfyrirmynda Íslands sem hafa barist fyrir jafnrétti og rutt veginn fyrir okkur sem á eftir komum. Fyrir þær er ég endalaust þakklát. Endalaust þakklát fyrir þann stuðning sem ég hef fengið í gegnum kvennatengslanet í viðskiptaheiminum líkt og FKA og endalaust þakklát fyrir að hafa alist upp með flottar fyrirmyndir beggja kynja mér við hlið.  Það eru nefnilega jákvæðar fyrirmyndir beggja kynja sem skipta máli í baráttunni um jafnrétti.

Baráttunni er ekki lokið og það er á ábyrgð okkra allra að vera flottar fyrirmyndir fyrir næstu kynslóðir.