Frá fyrstu tíð hefur mér verið innrætt að kosningarétturinn væri dýrmætur og ekki sjálfgefinn. Öllum bæri skylda til að nýta lýðræðislegan rétt sinn til að hafa áhrif á líf sitt og umhverfi.
Þegar ég skoða sögu kvennabaráttu á Íslandi hleypur mér kapp í kinn. Það er makalaust hvað Íslenskar konur hafa verið öflugar og lagt mikið til samfélagsins í gegn um tíðina.
Þegar ég lít til baka þá hefði ég sannarlega viljað vera viðstödd þegar fyrsti spítalinn var opnaður á Íslandi árið 1866, sjúkrahús Reykjavíkur sem íslenskar konur söfnuðu fyrir. Ég hefði líka átt samleið með hópi skagfirsku húsmæðranna í Rípurhreppi sem komu saman á fund í Hegranesi árið 1869 og stofnuðu fyrsta kvenfélag sem sögur fara af á Íslandi.
Ég hefði áreiðanlega einnig slegist í hóp kynsystra minna sem stofnuðu Hið íslenska kvenfélag árið 1894 og hófu söfnun fyrir háskóla á Íslandi. Að sjálfsögðu hefði ég einnig gerst stofnfélagi í Kvenréttindafélagi Íslands árið 1907, borið kyndla og barið bumbur til að fagna fyrsta framboði kvenna til embættis í sveitastjórnarkosningum árið 1908.
Það var reyndar árið sem kvenskörungurinn og fyrirmynd mín í lífinu, Ágústa Kristófersdóttir amma mín fæddist. Ég held svei mér þá að ég hafi erft þessi sterku femínistagen frá henni. Ég man eiginlega ekki eftir mér öðruvísi en með einstaklega sterka jafnréttistilfinningu og meðvitund um að það yrði að heyja baráttu til að rétta hlut kvenna.
Amma mín, mamma og systur hennar voru mér allar ómetanlegar fyrirmyndir. Sterkar og réttsýnar innrættu þær afkomenum sínum að konur ættu að standa jafnfætis körlum. Á öllum vígstöðum. Að allir ættu jafnan rétt á menntun. Þær hvöttu okkur til dáða og stuðningur þeirra var dýrmætur.
Fyrsta skipti sem ég tók þátt í opinberri baráttu fyrir jafnrétti kvenna var í 1. maí göngu árið 1970, þar sem Rauðsokkahreyfingin lét fyrst að sér kveða; konur gengu stoltar aftast í göngunni og báru stóra gifsstyttu sem á var letrað: Manneskja, ekki markaðsvara. Þessar konur snertu streng í hjarta mínu, hrifu mig uppúr skónum með baráttugleði sinni og kjarki.
Kvennafrídagurinn 1975 var ólýsanleg upplifun. Einstök samstaða kvenna.
Þegar Vigdís Finnbogadóttir bauð sig fram til forseta árið 1980 vorum við fjölmargar konur tilbúnar að vaða eld og brennistein til að hún gæti orðið forseti.
Það voru ótal fordómaskrímsli sem þurfti að yfirvinna áður en sá heimsviðburður gat átt sér stað. Grein sem birtist í Morgunblaðið í febrúar 1980 er gott dæmi um viðhorf ákveðinna þursa í samfélaginu:
„Það er gömul íslenzk hefð að bóndi standi úti fyrir heimili sínu og taki á móti gesti sem að garði ber, bjóði til stofu, spyrji frétta og taki við erindi gestsins. Konan gegnir sínu hlutverki, sem er engu minna, lagar sig til og gengur í stofu, heilsar gestum og býður veitingar, sem hún ber oft fram af rausn. Þessi forna íslenzka bændamenning ætti að varðveitast með íslenzkri þjóð um ókomin ár. Það er dýrmæt erfð kynslóðanna, sem ber að varðveita. Því kynni ég því vel að þessi gamla þjóðarhefð yrði varðveitt á heimili æðsta manns þjóðarinnar, forsetaheimilinu að Bessastöðum. Ég kynni því betur að þar mætti gestum höfðinglegur karl, húsbóndi heimilisins á bæjarhellu, hann byði til stofu, þar gengi fram virðuleg íslenzk kona, sem byði gesti velkomna og veitti þeim góðgerðir, gegndi sem ætíð sínu göfuga húsmóðurhlutverki. [...] Ef hér skipaði kona ein, og væri gift, þá gengi hún fyrst fram mót gestum. Hvar yrði bóndinn? Kannski sem vinnumaður einhvers staðar í verkunum. Því formi kynni ég ekki.“
Þrátt fyrir forpokuð viðhorf, náði Vigdís kjöri, fyrsta konan í veröldinni til að gegna embætti þjóðkjörins forseta.
Í janúarlok 1982 efndi fjölmennur hópur kvenna til fundar á Hótel Borg þar sem stofnuð voru samtök um kvennaframboð fyrir bæjarstjórnarkosningar. Það var magnað fá að vera hluti af þeirri pólitísku byltingu. Kappið var mikið og samstaða og kærleikur allsráðandi. Við fengum tvo fulltrúa kjörna í borgarstjórn Reykjavíkur og tvo í bæjarstjórn Akureyrar, sem var frábær árangur.
Kvennalistinn var stofnaður árið eftir 1983. Þrjár konur komust á þing. Stórsigur.
Nú fagna ég öllum konum sem þora. Ég fagna Druslugöngu-byltingunni, Free The Nipple- byltingunni, Beauty tips-byltingunni og ég er þakklát öllum kjarkmiklu konunum sem standa að baki gjörningum sem þessum. Þær eiga erindi við þjóðina og búa yfir djörfung til að stíga fram og koma afdráttarlausum skilaboðum til samfélagsins.
Lokaorð: Stöndum þétt við bakið á öllum sem vilja berjast gegn því kynjamisrétti sem enn ríkir hér á landi þrátt fyrir, að því er virðist, endalausa baráttu.
Fögnum næstu byltingu sem verður er við konur við tökum yfir heiminn og gefum valdakörlum frí. Um einhverja hríð að minnsta kosti. Þeir eiga það inni hjá okkur.