Uppi á vegg á skrifstofunni minni hangir póstkort með mynd sem er tekin í porti Miðbæjarskólans í Reykjavík þann 19. júní 1915 af konum sem undirbúa skrúðgöngu til að fagna nýfengnum kosningarétti. Á þessu ári voru langömmur mínar á bilinu átján til þrjátíu og sjö ára, sem sagt engin orðin fertug, sem var aldurinn sem konur þurftu að hafa náð til að mega kjósa. Hvorug af ömmum mínum var fædd. Ég hef stundum virt þessa mynd fyrir mér og velt því fyrir mér hvað konurnar á myndinni hafi hugsað og hvaða vonir þær hafi bundið við kosningaréttinn. Ætli þær hafi haldið að nú væri fullt jafnrétti nánast í höfn?
Eitt sem einkennir alla jafnréttisbaráttu, hvort sem það er barátta fyrir kynjajafnrétti eða annars konar jafnrétti, er að það ávinnst aldrei neitt af sjálfu sér. Þeir eru hins vegar margir sem hafa hag af því að segja okkur einmitt það að hlutirnir muni lagast sjálfkrafa, að við eigum að hætta að vera með þessi læti og bara vera þolinmóðar og bíða og þá muni þetta allt saman koma. Það getur verið góð leið til að þagga niður í þeim sem ruggar bátnum að fá viðkomandi til að trúa því að baráttan sé óþörf. Og vissulega getur það virst freistandi að slaka bara á og treysta því að þetta sé bara allt að koma, fólk stendur nú yfirleitt ekki í öllu stússinu kringum réttindabaráttu sér til skemmtunar.
Annað sem hægir á jafnréttisbaráttu er þegar konum er sjálfum kennt um allt sem vantar upp á. Þannig fá þær að heyra að þær þurfi að temja sér aðra raddbeitingu svo einhver muni nenna að hlusta á þær, svo þurfi þær að hætta að vera svona kurteisar, þær þurfi að vera virðulegri í klæðaburði, temja sér meiri áræðni, sýna meira frumkvæði, biðja um hærri laun (af því að þeim dettur það víst aldrei í hug!) og svo framvegis. Það má segja að skilaboðin séu eins mótsagnakennd og hugsast getur: „Þú ert ekki nógu góð eins og þú ert, vertu ánægðari með þig og gerðu meiri kröfur og þá lagast allt.“ Rannsóknir sýna hins vegar að hinar áræðnu, sjálfsöruggu konur sem tala hátt og mikið mæta gríðarlegu mótlæti, eru yfirleitt álitnar óþolandi frekjur og fá svo sannarlega ekkert afhent á neinu silfurfati. Þar fyrir utan spretta eiginleikar eins og áræðni og sjálfsöryggi ekki upp af engu heldur verða til með tíð og tíma. Þegar borið er saman hvaða viðmót konur og karlar fá á vinnustöðum verða konur til dæmis mun oftar fyrir því að gripið sé fram í fyrir þeim og að hugmyndir sem þær setja fram séu ekki viðurkenndar fyrr en einhver annar (karl!) setur þær fram. Slíkar smáárásir, sem jafnvel eru ómeðvitaðar, hljóta að grafa undan sjálfsöryggi viðkomandi þegar þær safnast saman. Konur eyða svo ómældum tíma og orku í að finna leiðir til að breyta hegðun sinni, eins og þær séu einhver vandræðabörn sem þurfi á betrun að halda.
Afar misvísandi gagnrýnisraddir heyrast á jafnréttisbaráttu kvenna. Auk þess að fá að heyra að við séum ekki nógu duglegar að koma okkur á framfæri og gera kröfur fáum við nefnilega líka að heyra að ef við myndum nú bara vera kurteisari og hófstilltari í framsetningu á kröfum okkar þá yrði ábyggilega betur hlustað og meira mark á okkur tekið. Kona sem er áberandi þykir óþægileg en dragi hún sig í hlé má kenna því um ef hún nær ekki þeim markmiðum sem hún hefði viljað. Líklega er eina ráðið að treysta á samtakamáttinn til að streitast gegn öllum slíkum þöggunartilburðum og halda áfram baráttunni. Ég er alla vega viss um að ef formæður okkar hefðu ákveðið að fara þá leið að sitja þolinmóðar og bíða eftir að jafnréttið kæmi af sjálfu sér þá sætum við enn og biðum eftir kosningaréttinum.