Ég var eins og svo margir unglingar, sem er lífsins ómögulegt að átta sig á því hvað þeir eiga af sér að gera í lífinu. Ekki vissi ég þá að ég ætti eftir að verða atvinnu-námsmaður. Sem námsmaður bjó ég í nokkrum löndum og þá rann upp fyrir mér að það að vera kona felur í sér ólík hlutverk eftir því í hvaða landi maður er staddur.
Í Bandaríkjunum tíðkast ekki að konur séu að eignast börn í námi. Þær mennta sig fyrst og ef þær velja að eiga börn þá hætta þær iðulega að vinna úti. Ég eignaðist tvö börn í meistaranáminu mínu í skipulagsfræði og fékk iðulega athugasemdir um að ég væri svo hugrökk og spurninguna um hvernig ég færi að þessu. Mér var hugsað til pabba. Þegar að yngsta systkinið mitt fæddist þá varð mamma mjög veik og lengi að ná sér. Án þess að minnast á það einu orði þá bjó pabbi til sandkassa við fjósdyrnar. Þannig gat hann bæði mjólkað og passað börnin sín. Ekkert væl, heldur vilji til að láta hlutina ganga upp. Ég keypti mér kommóðu í IKEA sem var með hillu sem hægt var að leggja niður og breyta í borð. Það réðst af því hvort barnið svaf eða vakti hvort borðið var í hlutverki skiptiborðs eða skrifborðs. Prentarinn var síðan hafður undir vöggunni og barnið svaf vært undir malinu frá honum.
Á meðan ég var í námi í Bandaríkjunum dvaldist ég eina önn í Róm á Ítalíu. Þar fórum við litla fjölskyldan oft út að borða. Þá komu þjónarnir iðulega, tóku barnið og léku við það eða leyfðu því að horfa á sjónvarpið á bakvið. Þegar að við komum aftur til Bandaríkjanna brá mér. Á Starbucks sat ég og velti fyrir mér hvort ég ætti að vera dóni og þrífa ekki mitt eigið borð, eða hvort ég ætti að taka þá áhættu að barninu mínu yrði kannski stolið á meðan ég gerði það!
Að loknu meistaranámi í skipulagsfræðum lá leið mín til Bretlands í doktorsnám. Fólk fölnaði upp þegar að það komst að því að ég ætti tvö smábörn. En þegar að ég varð ólétt af því þriðja fannst mörgum nóg um. Prófessorarnir voru hálfhræddir við þessa óléttu konu. Þá komst ég að því að þeir höfðu margir hverjir ákveðið að eignast ekki börn sjálfir, þar sem að það myndi trufla þá við fræðistörfin. Það var mjög dýrt að vera með tvö börn á leikskóla í Bretlandi, svo dýrt að það rann upp fyrir manni að það er í rauninni munaður að geta leyft sér að eignast börn. Eitthvað sem Íslendingum finnst sjálfsögð mannréttindi.
Þegar að ég var að útskrifast var mér boðið að vera meðlimur í virtum fræðahóp. Þetta var að sjálfsögðu mikill heiður en þegar að ég spurðist frekar út í þetta þá sá ég mig tilneydda til að afþakka. Klúbburinn hittist nefnilega alltaf á nýársdag. Það er að sjálfsögðu upplagt fyrir einstæða fræðimenn að hittast á nýársdag og jafnvel borða saman kvöldið áður, en fyrir nýbakaða móður sem er að stofna fjölskyldu þá er það ekki spennandi kostur.
Á námsárunum dvöldum við stundum á Íslandi á sumrin. Elsti strákurinn var illa haldin af eyrnabólgu þegar að hann var smábarn. Hann grét út í eitt. Ósofin fór ég með hann frá einum lækni til annars og fékk enga lausn, ekki fyrr en að maðurinn minn kom með okkur. Hann var þá í sumarvinnu þar sem hann varð að mæta í jakkafötum með bindi. Viti men, hann fékk fullkomna þjónustu, barnið fékk aðhlynningu og það var eins og ég væri ekki á staðnum. Eftir þetta atvik fer ég aldrei með mín börn til læknis. Tel einfaldlega að börnin mín fái betri þjónustu ef að maðurinn minn fer með þau.