Konur um konur

Í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna á Íslandi tók mbl.is saman 100 tilvitnanir í íslenskar konur um konur, valdeflingu og kvenréttindi. Tilvitnunum má deila hverri fyrir sig á samfélagsmiðla merkt #kvennakvót.Til hamingju konur og til hamingju Ísland!

Sigríður María Egilsdóttir, Ræðuskörungur

Ég tel ákveðna ábyrgð fylgja því að vera fremst í heiminum. Við eigum að vera fyrirmyndir og við eigum ekki að gefast upp fyrr en við höfum náð fullu jafnrétti enda myndi það senda slæm skilaboð til þeirra sem enn berjast fyrir lágmarksjafnrétti

Eygló Hilmarsdóttir, Leikkona

Látið okkur í friði. Hættið að gera svona miklar kröfur, við erum bara eins og við erum og við erum frábærar þannig. (Um boðskap leikverksins Konubörn)

Ingibjörg Haraldsdóttir, Skáld

Ég var álfaprinsessa
kjóllinn minn var hvítur
og saumuð á hann pappírsblóm
álfaprinsinn kyssti mig
og bauð mér sæti
við hlið sér
áhorfendur klöppuðu
og við hneigðum okkur
áðuren tjaldið féll

seinna vildi álfaprinsinn
kyssa mig í húsasundi
og fékk að launum kinnhest
sem allur bekkurinn hló að.

Hljómsveitt, Kynþokkafull

Ég er með hár á löppunum
hár undir höndunum
í klofinu er ull
ég er kynþokkafull.

Júlíana Jónsdóttir, Skáld

Lítil mær heilsar
löndum sínum,
ung og ófróð,
en ekki feimin;
leitar gestrisni
góðra manna
föðurlaust barn
frá fátækri móður.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Kvenréttindafrömuður

Það er vonandi, að þær vilji sýna, að þær sjeu rjettbornar dætur hinna fornu, frjálsu Íslendinga, sem ekki þoli neinum að sitja yfir rjetti sínum og frelsi.

Dorrit Moussaieff, Forsetafrú

Íslendingar hafa náð langt í jafnréttisbaráttunni miðað við margar aðrar þjóðir og mér finnst íslenskar konur vera sterkar, stoltar og mjög færar.

Andrea Jónsdóttir, Útvarpsmaður og plötusnúður

Við systur ólumst upp við þá skoðun mömmu og pabba, að manni beri skylda til að fara á kjörstað, annað sé vanvirðing við þá, sem barist hafa fyrir kosningarétti og mannréttindum (og jafnvel látið lífið fyrir) hvar sem er í heiminum.

Claudie Ashonie Wilson, lögfræðingur og stjórnarkona í Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi

Sem kona af erlendum uppruna sem dvalið hefur hér á landi sl. 13 ár trúi ég því að atkvæði mitt skipti máli og þá sérstaklega í jafnréttisbaráttu minnihlutahópa.

Þura í Garði, Skáld

Betra er að passa á feldi flær
en frelsa mey frá spjöllum.
Lengra ekki námið nær.
„Náttúran ræður öllum"

Guðrún Erlendsdóttir, Fundarstjóri útifundar á Kvennafrídaginn 24. október 1975

Það er von mín og trú, að með þessu kvennafríi hafi íslenskar konur ekki einungis sýnt fram á mikilvægi vinnuframlags síns, þannig að öllu misrétti verði aflétt sem fyrst, heldur hafi okkur einnig tekizt að sýna fram á samstöðu kvenna.

Magndís Gestsdóttir, Skáld

Þótt ég leggi vangann við
vart minn heiður skerði.
Eitthvað hefur almættið
ætlast til ég gerði.

Jóhanna Sigurðardóttir, Fyrrv. forsætisráðherra Íslands

Minn tími mun koma.

Hallgerður Langbrók, Brennu-Njálssaga

Þá skal eg nú, muna þér kinnhestinn og hirði eg aldrei hvort þú verð þig lengur eða skemur.

Björg Ingadóttir, Fatahönnuður og framkvæmdastjóri Spaksmannsspjara

Takk hugsjónafólk sem sníðið ykkur ekki alltaf stakk eftir vexti, heldur farið í allt of stóran stakk sem við hinar höfum og erum enn þann dag í dag að nýta okkur.

Björk Guðmundsdóttir, Tónlistarmaður

Allt sem karl segir einu sinni þurfið þið að segja fimm sinnum

Sigríður María Egilsdóttir, Ræðuskörungur

Mér finnst eitthvað hræsnislegt við það að vilja ekki kalla sig femínista heldur frekar jafnréttissinna bara vegna þess að femínismi er kvenlegt orð. Hversu mikill jafnréttissinni ertu í raun og veru ef þú vilt ekki láta tengja þig við kvenlegt orð?

Sigga Dögg, Kynfræðingur

Það gleymist að brjóstin breytast rétt eins og konan sem ber þau. Stundum eru þau sexí, stundum fæðustöð, stundum örvunarstaður, stundum bara þreytt en alltaf pólitísk á meðan þú starir á þau og finnur að þau pota í þig og þínar hugmyndir um konur.

Elíza Lífdís Óskarsdóttir, Skálavörður og björgunarsveitarkona

Konum á Íslandi eru allir vegir færir. Ég get lagt á brattann

Auður Auðuns, Fyrrv. dóms- og kirkjumálaráðherra

Það má kannski segja, að það sé það besta af minni lagamenntun að segja, að ég gat orðið kynsystrum mínum að liði.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Fjárfestir, framkvæmdastjóri og formaður Félags kvenna í atvinnulífinu

Konur og menn hafa tekið þátt í stjórnmálum undanfarin 100 ár og margsannað er að fjölbreytileiki í aðkomu að stjórnun og áhrifum hefur margfalt betri útkomu í heild og til langs tíma en einsleitni.

Salka Sól Eyfeld, Fjölmiðla- og tónlistarkona

Getur maður ekki verið fínn og snyrtilegur til fara þó svo að maður sé ekki í hælum? (Um skóbúnaðarskyldur flugfreyja)

Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir, Geirvörtufrelsunarfrömuður

Ég held að þegar stelpur reyna eitthvað nýtt og ákveða að gera eitthvað sem þær hafa ekki gert áður þá teygir það á frelsi annarra kvenna.

Vigdís Finnbogadóttir, Fyrrv. forseti Íslands

Það á ekki að kjósa mig af því að ég er kona, það á að kjósa mig af því að ég er maður.“

Margrét Erla Maack, Fjölmiðlamaður og dómari í Gettu betur

Geirvörturnar eru ekki fyrir ykkur, heldur eru þær mínar, og ég flagga þeim þegar mér sýnist.

Björk Guðmundsdóttir, Tónlistarmaður

Ég held þetta sé í fyrsta skipti í þeim hundruðum viðtala sem ég hef verið í þar sem ég hef hoppað á femínista vagninn. Í fortíðinni vildi ég alltaf skipta um umræðuefni. Ég vildi að það væri ekki svo en ég mun gera það, ég er tilbúin að ráðast í skítverkin.

Ingibjörg Þórðardóttir, Ritstjóri fréttavefs BBC

Við konurnar tökum annan vinkil á hörðu málunum. Ég er alveg sannfærð um að oft sé betra að fá sýn konunnar.

Hólmfríður Gísladóttir, Blaðamaður

Sigrar kvenna jafngilda ekki tapi karla. Sigrar kvenna eru sigrar karla.

Saga Garðarsdóttir, Leikari og grínisti

Svo hefur oft verið talað um að stelpur megi vera dónalegri en strákar í uppistandi. Ég held að það sé rétt. En það er ekki af því að stelpur geta ekki verið dónalegar heldur af því að hefðbundin birtingarmynd af því hvernig stelpur eiga að vera er svo kurteis og prúð. Þegar farið er á skjön við hana verður það óhjákvæmilega fyndið eða áhugavert.

Áslaug Íris Valsdóttir, Formaður ljósmæðrafélags Íslands

Ljósmæður áttu að sinna starfi sínu af góðvild, við erum enn að stríða við þetta viðhorf til stéttarinnar nú áratugum seinna. Það eru tuttugu ár síðan nám ljósmæðra var fært á háskólastig og margir eru enn fastir í gömlum viðhorfum.

Þura í Garði, Skáld

Gaman er að gifta sig
gefi saman prestur.
Þó er fyrir fleiri en mig
„frestur á illu beztur"

Eva María Þórarinsdóttir Lange, Eigandi Pink Iceland og formaður Hinsegin daga í Reykjavík

Jafnréttisbaráttan snýst ekki einungis um jafnrétti milli kynja, hún er ekki svört og hvít, hún er mun litríkari en svo. Hún er lífstíll og heilbrigður hugsunarháttur samfélaga þar sem jafnræði og virðing ríkir óháð kyni, kynþætti, kynvitund, kynhneigð eða kyntjáningu.

Sigríður María Egilsdóttir, Ræðuskörungur

Ef allir þeir sem hafa ekki lent í neinu nenna ekki að standa upp komumst við ekkert brjálæðislega langt. Misrétti er oft óáþreifanlegra hér en annars staðar í heiminum en við finnum allar fyrir því.

Hildur Sverrisdóttir, Lögfræðingur og varaborgarfulltrúi

Pabbi sagði á níunda áratugnum - eflaust réttilega - að Kvennalistinn væri flokkur fyrir konur og hugsandi karlmenn. Núna ættum við að vera komin á þann stað að jafnréttið sé fyrir allt hugsandi fólk.

Ásdís Hjálmsdóttir, Spjótkastari

Last night I threw like a girl. If you train really really hard then maybe one day you can to.

Hildur Sverrisdóttir, Lögfræðingur og varaborgarfulltrúi

Það á að vera í boði að hafa mismunandi skoðanir á því hvernig jafnrétti skuli náð. Og það á að vera í boði fyrir konur að takast á um þær skoðanir. Konur eru ekki eitt stórt sammála mengi sem hefur mistekist ef það er ekki í stanslausu hópknúsi.

Ragna Kjartansdóttir (Cell 7), I Spit 90ies

I spit hot fire for the sake of woman
Warming up,
I’m the only girl in the game
from miles away.

Margrét Erla Maack, Fjölmiðlamaður og dómari í Gettu betur

Það er enginn að banna fólki að finnast brjóst sexí, og við skulum gefa karlmönnum aðeins meira kredit en að þeir séu einhverjir gredduapar. Einhverjum konum finnst skegg kynþokkafull, en þær gera ekki þær kröfur að menn gangi með skeggskýlu svo þær ráðist ekki á þá og frói sér á lærunum á þeim í tíma og ótíma eins og smáhundar.

Vilborg Arna Gissurardóttir, Pólfari

Þegar ég var búin að taka þessa ákvörðun þá fór ég fljótlega að lesa um stelpur sem höfðu farið einar og þá hugsaði ég að fyrst þær gerðu þetta þannig, þá gæti ég það líka.

Tanja Ýr Ástþórsdóttir, Ungfrú Ísland 2014

Þeir sem aðhyllast kvenfrelsi hljóta að vera sáttir við það að ég taki þátt í fegurðarsamkeppni svo lengi sem ég vil það sjálf. Aðrir ákveða síðan hvað þeir gera.

Grýlurnar, Með allt á hreinu

Hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður?

Hrefna Rósa Sætran, Matreiðslumeistari og veitingahúsaeigandi

Ég upplifði það þannig að ég þurfti alltaf að gera helmingi betur en strákarnir til að fá sömu viðurkenningu. Hvort það var pressa sem ég setti á mig sjálfa eða raunin er ég ekki viss um, en ég er viss um að ég hafi rutt brautina í mínu fagi fyrir konur.

Reykjavíkurdætur, D.R.U.S.L.A

Of sæt, of full, of ein of seint of tilíða.
Ekki skylt'að hlýða, konur segja sjálfar komdu ef þær vilja ríða.
Annars þarft'að bíða.

Björk Guðmundsdóttir, Bachelorette

I am a fountain of blood, in the shape of a girl.“

Vigdís Finnbogadóttir, Fyrrv. forseti Íslands

Ég hef aldrei ætlað mér að hafa þjóðina á brjósti. (Eftir að hafa verið spurð hvort það myndi há henni í embætti að vera aðeins með eitt brjóst.)

Þura í Garði, Skáld

Frjálsar ástir, frjálst er val,
fín eru vinahótin.
Gráhærð kona góðum hal
gefur undir fótinn

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Verkakona

Konan er að vakna! (Úr ávarpi hennar á Kvennafrídeginum 1975)

Þuríður Jónsdóttir , Skáld

Ég verð að reyna að láta mér lynda
lag mitt við þessi kjör að binda,
sem aldrei svara til óska eða vona,
illt er að vera fæddur kona.“

Jóhanna Sigurðardóttir, Fyrrv. Forsætisráðherra Íslands

Dettur nokkrum lifandi manni í hug að 3% hlutfall kvenna í stjórnarformennsku 100 stærstu fyrirtækjunum hér á landi byggi á þeirri staðreynd að karlarnir séu svo miklu hæfari? Karlar sem hafa notið sambærilegrar menntunar og konur. Nei, það dettur ekki nokkrum manni í hug að halda því fram. Að baki þessari staðreynd liggur allt annað, kannski hræðslan við jafnrétti.“

Sigurlaug Bjarnadóttir og Svava Jakobsdóttir, Fyrrum Alþingismenn

Konur, við höfum kosningarétt
og kunnum því gjarnan að flíka.
En hitt virðist gleymast harla létt,
þótt hömrum við á því jafnt og þétt,
að við knúðum fram kjörgengi líka.
Því sé það í dag okkar áminning
að ætla hlut okkar meiri.
Flykkjast því konur, sem flestar á þing.
Þar fámenni okkar er óvirðing.
Við ættum að vera þar fleiri.

Sóley Tómasdóttir, Borgarfulltrúi

Friðsamlegt samfélag er samfélag þar sem konur geta óhræddar og óhikað sagt það sem þeim finnst – jafnvel móðgandi hluti.

Reykjavíkurdætur, Tíminn tapar takti

Ég hef verið alin upp við allskonar rugl
vertu svona kona vertu dularfull
sem er bull og ég veit það,
samt er ég að leita
sleitulaust að öllu því sem gerir mig heita.
Ekki taka frumkvæði því það er despó
ekki vera töffari því það er lesbó
ekki ver‘að mála þig, það er alltof Versló
vertu samt hressari en tvöfaldur espressó.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Laganemi

Útvarpsmaður eftir viðtal: „Vó, ég sem hélt að það væri ekkert í hausnum á þér, þú lúkkaðir þannig fyrst." (#6dagsleikinn á Twitter)

Stella Sigurðardóttir, Handknattleiksmaður

Ísland elur ekkert bara af sér góða karlleikmenn.

Eva María Jónsdóttir, Dagskrárgerðarmaður

Það er kannski ekki undarlegt að ungt fólk sjái lítinn tilgang með því að kjósa fólk til að sitja á löggjafarsamkundunni Alþingi, ef ekki tekst á hálfri öld að uppræta jafn augljóst óréttlæti og launamun kynjanna.

Ugla Stefanía Jónsdóttir , Fræðslufulltrúi Samtakanna '78

Um tíma datt ég alveg inn í staðalímyndina sem við tengjum við stelpur; málaði mig, horfði á „chick-flicks“ og afneitaði „strákalegu“ áhugamálum mínum. Nú er ég bara ég, spila tölvuleiki að vild og mála mig sjaldan, geri það kannski aðallega ef ég fer í drag. Það er ekki ég að mála mig og í raun ótrúlega merkilegt og kjánalegt hvað það getur verið sterk yfirlýsing að mála sig. Ég held að enginn geti passað í þau ofurþröngu box sem við flokkum konur og karla í.

Ragna Árnadóttir , Aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar

Á meðan ég var ráðherra fór sú hugsun að læðast að mér að ef til vill væri eitthvað sem héti ójafnrétti. Ég fór á ríkistjórnar­fundi og við mér blasti veggur með myndum af eintómum körlum.

Lára Rúnars, Tónlistarmaður

Þetta er ekki þannig að við séum að stilla okkur upp á móti karlmönnum eða ganga inná þeirra svæði, við erum bara að stækka svæðið. Það er alveg pláss fyrir allar þessar konur.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Kvenréttindafrömuður

Enginn skynsamur maður mun geta látið sjer þykja nokkur kona afneita hinu kvenlega eðli sínu og hæfilegleikum, þótt hún vilji vera svo sjálfstæð og öðrum óháð (...)

Ragna Kjartansdóttir (Cell 7), Rappari

Ég er oft spurð út í það hver sé uppáhalds kvenrapparinn minn, en ég hef ekki enn rekið augun í það að karlrapparar séu spurðir að því sama.

Yfirskrift mótmæla, 19. júlí 2015


Engin helvítis blóm, borgið okkur mannsæmandi laun og hættið að nauðga okkur.

Sigríður María Egilsdóttir, Ræðuskörungur

Ef það eru fyrirmyndir til staðar sem stelpur geta litið upp til þá munu þær frekar hafa sjálfstraust til að taka þátt.

Ragnhildur Gísladóttir, Tónlistarmaður

Ég hef aldrei verið með neina komplexa yfir því að vera kona í tónlist því tónlistin er vettvangur sem ég á heima á.

Þura í Garði, Skáld

Það megið þið eiga, ágætu menn, að gott þykir ykkur að fá atkvæði kvenna á kjördegi, en hvað ykkur langar til að hafa þær við á hærri stöðum sýna kjörlistar.

Margrét Lára Viðarsdóttir, Knattspyrnukona

Það hefur löngum verið fjarlægur draumur fyrir knattspyrnukonur að ná þessum áfanga, að vera valin íþróttamaður ársins. En í dag eru allar dyr opnar fyrir ungum stúlkum í knattspyrnu, hvort sem það er hér heima eða í útlöndum.

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir, Verkefnisstýra Tabú.is

Mikilvægt er að hafa í huga að það er ekki nóg að fjalla einungis um jafnrétti kynjanna eða jafnan rétt fatlaðs og ófatlaðs fólks því misréttið hefur hinar ýmsu birtingarmyndir. Það hvort þú hefur raunverulegan kosningarétt ræðst af því hvernig kona þú ert og hvernig fötluð manneskja þú ert.

Ritstjórn Veru , Leiðari 1/1982

Í Ijós kemur að þegar konur taka til við baráttuna, þá eru baráttumálin kölluð kvennamál. Konur berjastfyrir kvennamálum, en karlar fyrir.. . ja, ,,mikilvægum" málum! Það sést best á því að ef rætt er um skipulag Reykjavíkurborgar er það baráttumál flokka eða hópa hvernig staðið er að því. Ef inn í dæmið er tekin krafan um bætta leikvallaþjónustu og aðstöðu fyrir börn í skipulaginu kallast það kvennamál og þykir léttvægara en annað. Þessu gildismati viljum við breyta.

Freyja Haraldsdóttir, Verkefnisstýra Tabú.is

Hættum að þegja. Hættum að vera gungur. Því aðgerðarleysi er jafn ógnandi fyrir mannréttindaþróun og vondar aðgerðir. Við berum öll ábyrgð. Alltaf. Sagan getur vel endurtekið sig ef við þorum ekki neinu.

Laufey Valdimarsdóttir, Kvenréttindafrömuður

En þegar litið er á konurnar sézt best að frelsið átti hér aldrei heimaland, hvorki á gullöldinni né síðar.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Fyrrv. utanríkisráðherra

Hin síbreytilegu form og áherslur kvennahreyfingarinnar bera þess vott að þarna er á ferðinni lifandi hreyfing sem tekur sjálfa sig og baráttumál sín til stöðugs endurmats. Þetta er hreyfing sem lætur ekki stjórnast af hefðum og formum heldur notar þau form sem best henta hverju sinni. Þetta er hreyfing með ríkan hæfileika til að aðlaga sig samtímanum án þess þó að hún hafi nokkurn tíma misst sjónar á því meginmarkmiði sínu að breyta lífsskilyrðum kvenna þannig að þær geti staðið jafnfætis körlum í leik og starfi.

Harpa Rún Kristjánsdóttir, Bókmenntafræðinemi

Vér Pandórur höfum ekkert að fela.
‪#‎skömminerekkimín

Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Kvenréttindafrömuður

Nei, konan er sköpuð til þess að gegna sömu skyldum og njóta sömu rjettinda og karlmaðurinn, að svo miklu leyti sem hæfilegleikar hennar og vilji leyfa.

Hafdís Huld, Tónlistarmaður

Það þarf held ég að setja fordæmi, þú þarft ekki að fá strák til þess að tengja fyrir þig græjur eða magnara.

Guðrún Halldórsdóttir yngri , Skáld

Aldrei get ég andlegt fikt
iðkað nema á hlóðum
því er alltaf eldhúslykt
af öllum mínum ljóðum.

Auður Vésteinsdóttir, Gísla saga Súrssonar

Skaltu það muna, vesall maður, meðan þú lifir að kona hefur barið þig.

Stefanía Bjarney Ólafsdóttir, Yfirmaður rannsókna og greininga hjá Plain Vanilla

Ég hef áhyggjur af því að oftar en rétt er, drögum við þá ályktun að þau sem vísað er til með karlkyns nafnorðinu, séu karlkyns. Ef svo er, þá stuðlar þessi orðræða að áframhaldandi hugmynd okkar um að karlmenn standi að baki efnahag heimsins.

Katrín Jakobsdóttir, Alþingismaður og fyrrv. Ráðherra

Það er í alvöru þannig að maður verður meiri femínisti eftir því sem maður starfar lengur á þingi.

Guðrún M. Benónýsdóttir, Skáld

Rek ég hér á rembihnútinn.
Reyni þrek og mærðarkynngi.
Fyrr en láta kveða í kútinn
konurnar í Húnaþingi.

Ugla Stefanía Jónsdóttir , Fræðslufulltrúi Samtakanna '78

Pabbi er svolítill brandarakarl og tók þessu nokkuð létt, spurði mig bara hvort ég gerði mér grein fyrir því að ég væri að lækka mig um launaflokk. (Um viðbrögð föðurs síns við því að hún væri transkona.)

Jónína Leósdóttir, Rithöfundur

Ég vil fá að hnykla lýðræðisvöðvann sem oftast.

Auður Auðuns, Fyrrv. dóms- og kirkjumálaráðherra

Stúlka fer ekki í menntaskóla til þess að búa sig undir að fóstra ungbörn eða að hjúkra sjúkum. Hún fer þangað til að skapa sér möguleika til að standa jafnfætis piltunum um menntun og aðstöðu, þegar út í lífið kemur.

Guðrún Jónsdóttir, Talskona Stígamóta

„Réttarkerfið nær ekki yfir kynferðisofbeldið og það er ekki viðunandi að segja konum að þær eigi bara að kæra. Þá kröfu er ekki hægt að gera gagnvart konum nema réttarkerfið sé í standi til að taka við kærunum.“

Rakel Tómasdóttir, Meðlimur í Evrópumeistaraliði Gerplu í hópfimleikum 2013

Við erum ekkert í þessari íþrótt fyrir einhverja fálkaorðu. Við erum í þessari íþrótt fyrir augnablikin þar sem stendur „Rank 1“ á stigatöflunni og allir missa sig, það er okkar móment. (Um silfurdrengi og gullstúlkur)

Björk Guðmundsdóttir, Tónlistarmaður

Eftir að hafa verið eina stelpan í hljómsveitum komst ég að því eftir að hafa farið erfiðu leiðina að ef ég ætlaði að ná fram hugmyndum mínum varð ég að láta eins og þeir karlarnir hefðu fengið hugmyndirnar. Ég varð mjög góð í þessu og tók ekki einu sinni eftir því sjálf.

Björg C. Þorláksdóttir, Doktor og skáld

Ó, þrautirnar unnar, sem Skapanorn mér skóp,
er skráfesti’ hún urðarrúnir mínar!
Þó orðabókin þegi um anda míns óp,
um aldir þögul ber hún minjar sínar.
(Samið um Íslensk-danska orðabók sem hún vann að ásamt eiginmanni sínum en fékk engan heiður fyrir)

Ólína Andrésdóttir, Skáld

Talið er merki þróttar þrátt það að vera sonur, en landið hefur löngum átt líka sterkar konur.“

Margrét Pála Ólafsdóttir, Stofnandi Hjallastefnunnar

Þannig er ég ávallt reiðubúin til að hneigja höfuð mitt í auðmýkt fyrir afrekum þeirra sem börðust fyrir kosningarétti kvenna en best heiðrum við minningu þeirra og málstaðinn með áframhaldandi djarfri sókn, ekki afmælum og hátíðahöldum og sú er skoðun mín enn á aldarafmælinu.

Guðrún Halldórsdóttir, Skáld

Himinsins fádæma fegurð ég tilsýndar eygi.
Fjólurauð
fjöllin mig eggja að fagna komandi degi
fjarri nauð.
Fyrir húsmæðraskyldunni hné mín í auðmýkt ég beygi
og hnoða brauð.

Anna Svava Knútsdóttir, Leikkona og grínisti

Mig langar mikið að vinna með stelpum en ég veit ekki hvar þær eru.

Björg Einarsdóttir, Verslunarkona

Á morgun, þegar við stígum til baka inn í venjulega daglega umgjörð til fjölskyldu okkar og á starfsvettvanginn, hvort sem það er inni á heimilinu eða utan þess, erum við ekki sömu konurnar og áður

Jakobína Sigurðardóttir, Skáld

Gleggst mun fanginn frelsisdrauminn skilja

Ónefndur notandi, Beauty tips

Þið eruð allar hetjur stelpur! (Um #þöggun byltingu Beauty tips)

Anna Lilja Þórisdóttir, Blaðamaður

Að vera á móti staðgöngumæðrun á ekkert skylt við femínisma. Ein af grunnstoðum þeirrar hugmyndafræði er nefnilega að konur eigi að ráða yfir eigin líkama.

Þrúður Kristjánsdóttir, Fyrrverandi skólastjóri

Í næstu kosningum var ungur maður valinn í 4. sætið og mér boðið heiðursæti listans, neðsta sætið, en ég afþakkaði það. Kærði mig ekki um að „vera upp á punt“.

Ragna Kjartansdóttir (Cell 7), Gal Pon Di Scene

„I represent to the
fullest. I‘m a feminist"

Steiney Skúladóttir, Rappari og Hraðfréttakona

Ég ætlaði að skrá mig sem drusla í símaskrána um daginn en það mátti ekki.