Það starfa margir sjálfstætt á íslenskum vinnumarkaði, eru ýmist með eigin atvinnurekstur eða starfa sem verktakar hjá öðrum. Þetta fyrirkomulag getur hentað mörgum enda fylgir því ákveðið frelsi. Það er þó mikilvægt að huga að ýmsum þáttum sem eru ekki í jafn föstum skorðum og hjá launþegum. Þannig vill það til dæmis gleymast að þeir sem starfa sjálfstætt eiga ekki kjarasamningsbundin réttindi ef þeir verða óvinnufærir af völdum veikinda. Þetta er eitthvað sem ungt fólk sem starfar sjálfstætt er meðal annars ekki nógu meðvitað um, að sögn Vigfúsar M. Vigfússonar, vörustjóra persónutrygginga hjá Sjóvá.
„Einyrkjar, verktakar og aðrir sem eru sjálfstætt starfandi eru ekki launþegar og þar af leiðandi ekki aðilar að kjarasamningi. Það þýðir að þeir eiga ekki kjarasamningsbundinn rétt á launum ef þeir verða óvinnufærir af völdum veikinda eða slysa,“ útskýrir Vigfús. „Þeir greiða heldur ekki í sjúkrasjóði stéttarfélaga og eiga þar með ekki heldur rétt á greiðslum frá þeim. Það þekkjast þó dæmi um stéttarfélög sem veita mönnum aðild að sjúkrasjóði gegn greiðslu fullra félagsgjalda“.
Vigfús segir mjög mikilvægt fyrir þessa einstaklinga að kynna sér hvernig þeir geta tryggt sig gegn tekjutapi sem veikindi og slys hafa oft í för með sér. „Þeir sem starfa sjálfstætt þurfa að geta mætt því ef þeir verða óvinnufærir í einhvern tíma af völdum veikinda eða slysa. Slíku fylgir kostnaður og tekjutap sem gerir það oft að verkum að fólk nær ekki endum saman, nema það hafi tryggt sig sérstaklega.“
„Við mælum með að allir sem eru í þessari stöðu tryggi sig fyrir óvinnufærni, bæði tímabundinni og varanlegri, til dæmis með sjúkra- og slysatryggingu sem hægt er að sníða eftir að þörfum hvers og eins,“ segir Heiður Huld Hreiðarsdóttir, viðskiptastjóri hjá Fyrirtækjaráðgjöf Sjóvár.
„Með því að taka mið af bakgrunni hvers og eins, til að mynda fjölskyldustærð, fjárhagslegri stöðu, sem og öðrum skuldbindingum, finnum við rétta útfærslu hverju sinni. Einnig þarf að taka tillit til þess hvort viðkomandi er einyrki og/eða með einhverja ábyrgð gagnvart launþegum. Við skoðum einfaldlega þessar sviðsmyndir í sameiningu með því að þræða okkur í gegnum „hvað ef“ ferlið. Svo mótum við sjúkra- og slysatrygginguna að hverjum og einum, byggt á þessari sameiginlegu yfirferð okkar. Annað atriði sem metið er í sameiningu er í hve langan tíma bætur eiga að greiðast að hámarki meðan þú ert frá vinnu vegna slyss eða sjúkdóma. Þarna ertu í rauninni að fá laun frá tryggingafélaginu þínu í takt við það sem þú sóttir um þegar tryggingin var keypt,“ útskýrir Heiður. „Svo mælum við alltaf með því að fólk líftryggi sig. Það er það sem þessi margbreytilegi hópur sjálfstætt starfandi einstaklinga ætti alltaf að eiga sameiginlegt.“
„Það er mismunandi hve mikið fólk hefur hugað að þessum málum áður en það kemur til okkar og stóra spurningin er oftar en ekki sú hversu langan biðtíma fólk ræður við frá því að tekjulaust tímabil hefst og þangað til það fer að fá greitt úr tryggingunni sinni. Því lengri biðtími, þeim mun ódýrari getur tryggingin orðið,“ útskýrir Heiður Huld. „Bótasviðið er mjög vítt og hentar þess vegna mjög mörgum. Þetta er því mikilvæg ráðgjöf sem vert er að gefa sér tíma í því það tekur ekki svo langan tíma að meta aðstæður hvers og eins. Fólk er almennt frekar fljótt að átta sig á því hvað það þarf og við erum um leið vön því að lesa í aðstæður viðkomandi. Oft þarf ekki nema hálftíma spjall og þá getur viðkomandi hafist handa við að fylla út umsókn.“
Eins og Heiður Huld bendir á varðandi þá sem starfa sem einyrkjar, þá er slík trygging oft það sem skilur á milli hvort viðkomandi verði gjaldþrota eður ei.
„Það er alltof algengt að einyrkjar og verktakar séu ekki með neinar heilsutengdar tryggingar sem taka á atvinnuáhættu og mjög sjaldgæft að fólk hafi búið þannig í haginn að það eigi einhverja sjóði til taks til að mæta áföllum, einkum ef um er að ræða slys eða veikindi sem valda óvinnufærni í lengri tíma.
Flestir geta staðið af sér fjórar til átta vikur en þegar eitthvað alvarlegra kemur upp á þá skiptir öllu máli að hafa þessa tekjuvernd.“ Þegar slíkt áfall ber að höndum segir Heiður gott að vita af því að ráðgjöfin hafi borið árangur. „Það að geta sagt við fólk að það sé með tryggingu er bara alveg einstaklega góð tilfinning.“
Bæturnar geta einnig hjálpað fólki að takast á við breyttar aðstæður eftir veikindi og slys. Vigfúsi kemur í þessu sambandi ákveðið tilvik til hugar. „Ég man eftir iðnaðarmanni á fimmtugsaldri sem veiktist alvarlega af sjúkdómi sem gerði honum ókleift að stunda iðn sína. Hann fékk greiddar bætur vegna tímabundinnar örorku í eitt og hálft ár og þegar örorka hans var metin voru honum greiddar örorkubætur í einu lagi úr tryggingunni hjá okkur. Þessar bætur auðvelduðu honum að setjast á skólabekk og mennta sig til starfs sem krafðist minni líkamlegrar áreynslu og vinnur hann við það í dag.“
Það er skiljanlegt að þeir sem eru enn ungir að árum sjái ekki endilega ástæðu til að leiða hugann að slysum eða veikindum, enda flestir á þessum aldri við góða heilsu. Vigfús segist hafa orðið var við þetta í starfi sínu. „Það er einmitt okkar reynsla, að unga fólkið upplifi sig oftar en ekki sem ósnertanlegt. Þetta á ekki síst við um framtakssama einstaklinga sem eru annaðhvort sjálfstætt starfandi verktakar, einyrkjar eða jafnvel orðnir atvinnurekendur. Sumir sjá því ekki ástæðu til að verja peningum í sjúkra- og slysatryggingar en það getur reynst þeim mun dýrara ef slys eða veikindi ber að höndum.“ Vigfús segir dæmin einnig sanna að fyrirhygggjan geti sannarlega skipt sköpum ef aðstæður breytast fyrirvaralaust, enda sé ekkert aldurstakmark á slysum og sjúkdómum.