Fyrsta Kvennahlaupið á Íslandi var haldið 30. júní árið 1990 í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ og er fyrir löngu orðið ómissandi viðburður hjá konum á öllum aldri. Það er líka svo að við skipulagninguna er þess gætt að allir geti fundið sér vegalengd við sitt hæfi enda markmið Sjóvá-Kvennahlaups ÍSÍ frá upphafi að vekja áhuga kvenna á reglulegri hreyfingu. Þess vegna er engin tímataka í Kvennahlaupinu en þess í stað lögð áhersla á að hver kona hlaupi á sínum forsendum og komi í mark á sínum hraða – með bros á vör.
„Tilgangur Kvennahlaupsins í upphafi var að vekja áhuga á íþróttaiðkun og hreyfingu kvenna, en þar með er þó ekki öll sagan sögð,“ segir Gígja Gunnarsdóttir, en hún starfar hjá embætti landlæknis sem verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags og hreyfingar, ásamt því sem hún á sæti í Kvennahlaupsnefnd ÍSÍ. „Tilgangurinn var og er líka að hvetja konur til þátttöku í starfi íþróttahreyfingarinnar, til að koma inn í stjórnir og taka þátt í að skapa umgjörðina utan um starfið. En þar fyrir utan eru konur félagsverur og það hefur frá upphafi verið lögð rík áhersla á að standa vörð um þá hugmyndafræði að hver og ein kona geti tekið þátt fullkomlega á sínum forsendum, kynslóðirnar geti komið saman, hreyft sig og átt ánægjulega samverustund. Félagslegi þátturinn er ekki síður mikilvægur en hreyfingin sem fæst með þátttöku í Kvennahlaupinu.“
Gígja bætir því við að konum sem einhvern tímann hafa tekið þátt í Kvennahlaupinu beri saman um að það sé svo sérstök og skemmtileg stemning á viðburðinum. „Það er svo mikil og jákvæð orka í kringum hlaupið þar sem margar konur koma saman. Í dag held ég að það sé alveg sérstaklega mikilvægt því nútíminn er á svo margan hátt drifinn af samanburði og samkeppni. Í Kvennahlaupinu koma konur saman til að vera með fjölskyldu og vinum og ekki síst vera þær sjálfar.“
Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fer ekki eingöngu fram á höfuðborgarsvæðinu heldur víða um landið og það sem meira er, hægt er að hlaupa í Kvennahlaupinu erlendis.
„Það er það sem gerir hlaupið líka svo sérstakt, að þetta er ekki einn viðburður á einum stað. Kvennahlaupið er haldið á meira en 90 stöðum um allt land og svo er líka hlaupið erlendis. Þannig hefur Kvennahlaupið meðal annars verið haldið í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Færeyjum, Þýskalandi, Belgíu, Lúxemborg, Mallorca, víða í Bandaríkjunum, Mósambík og Namibíu. Hvar sem íslenskar konur eru niðurkomnar ættu þær að geta tekið þátt í Kvennahlaupinu. Hvar sem þær eru niðurkomnar þá eru þær partur af einhverju stærra þegar þær taka þátt í Kvennahlaupinu.“
Gígja þekkir mörg dæmi þess að konur taki daginn frá og geri sér far um að geta tekið þátt í Kvennahlaupinu. „Þetta er dagur þar sem konur setja sig í fyrsta sæti og njóta dagsins saman með sínum nánustu vinkonum og fjölskyldu.“
Með hliðsjón af yfirlýstu markmiði og tilgangi Kvennahlaupsins sem Gígja nefndi hér að framan er ljóst að hlaupið hefur tilætluð áhrif.
„Það sem við sjáum að hafi breyst á þeim tíma sem hlaupið hefur farið fram er að tölfræðin sýnir svo ekki verður um að villst að hreyfing kvenna er almennt að aukast og íslenskar íþróttakonur að ná frábærum árangri á alþjóðavísu. Við sjáum að sama skapi í dag að konur eru í auknum mæli í forsvari fyrir íþróttahreyfinguna. Til dæmis eru framkvæmdastjórar ÍSÍ og UMFÍ konur, framkvæmdastjóri KSÍ er kona og svo mætti áfram telja. Konur eru sem sagt í auknum mæli að gera sig gildandi sem iðkendur en ekki síður sem stjórnendur í starfseiningum sem tengjast íþróttum.“
Gígja bætir því við að þær þúsundir kvenna sem taka þátt í Sjóvá Kvennahlaupi ÍSÍ á hverju ári séu líka til vitnis um að þær vilja ekki missa af því að taka þátt, um leið og hið breiða aldursbil þátttakenda sýni að Kvennahlaupið henti öllum kynslóðum, allt frá kornungum telpum í vagni til ömmu og langömmu.
„Kvennahlaupið er okkar viðburður. Þetta er okkar stund.“