„Þú finnur þann eina sanna hjá okkur“

Ragnheiður Ásmundsdóttir og Bjarma Didriksen hjá undirfataversluninni Misty.
Ragnheiður Ásmundsdóttir og Bjarma Didriksen hjá undirfataversluninni Misty. mbl.is/Eyþór Árnason

Misty er undirfataverslun sem sérhæfir sig í stærðum sem ekki fást alls staðar. Hvort sem um stórar skálar með lítið ummál er að ræða, litlar skálar með stóru ummáli eða stórar skálar með stærra ummál. Áhersla er lögð á að eiga til stærðir sem ekki fást alls staðar.

„Við viljum að konan í „óvenjulegu stærðinni“ hafi úr nógu að velja hjá okkur. Málið er líka að þessi óvenjulega stærð er bara alls ekki svo óvenjuleg. Okkur þykir fátt skemmtilegra en að hjálpa konum að uppgötva að brjóstahaldarinn þarf ekki að vera óþægilegur, heldur þarf bara að velja rétta stærð og snið,“ segir Ragnheiður Ásmundsdóttir, markaðsstjóri og ein þriggja eigenda Misty.

Hjá Misty er að finna fjölbreytt úrval af fallegum og …
Hjá Misty er að finna fjölbreytt úrval af fallegum og þægilegum undir-, sund-, aðhalds- og náttfatnaði ætluðum konum. mbl.is/Eyþór Árnason

Íslenskar konur vilja svört undirföt

Hjá Misty fæst fjölbreytt úrval af undirfatnaði á breiðu stærðarbili þar sem skálastærðirnar eru allt frá A til K og 28 til 48 í ummál.

„Við erum með eitthvað fyrir alla. Enda er lagerinn okkar að springa. Hversdags haldarar, kósý og sexý líka, tala nú ekki um fjöldann allan af lausnum undir baklaus eða flegin dress.“

Þrátt fyrir að Misty bjóði upp undirfatnað í ýmsum litum er svartur alltaf sá vinsælasti á meðal íslenskra kvenna.

„Margar konur vilja bara svart. Þær horfa kannski á litina en spyrja svo hvort varan sé til í svörtu,“ segir Ragnheiður og hlær. „Mögulega er það skorturinn á hita og sól á landinu sem hefur áhrif á litavalið,“ segir hún og þykir alltaf jafn gaman að sjá þegar konur fara út fyrir þægindarammann og velja sér djarfa liti.

Starfsfólk Misty er hefur mikla ástríðu fyrir því að aðstoða …
Starfsfólk Misty er hefur mikla ástríðu fyrir því að aðstoða konur við valið á hinum fullkomna undirfatnaði. mbl.is/Eyþór Árnason

Er kominn tími á nýjan brjóstahaldara?

„Við geymum meirihlutinn af lagernum okkar á bak við, ástæðan fyrir því er að við viljum aðstoða konur þegar þær eru að máta, ekki bara taka eitthvað af slánni,“ segir hún og bendir á að starfsfólk Misty hefur mikla ástríðu fyrir að aðstoða konur við að finna rétta skálastærð og snið sem henta hverri og einni.

Þá segir Ragnheiður að rétt stærð sé mikilvægt atriði til að skapa aukin þægindi og halda réttri líkamsstöðu fyrir bak og axlir.

„Það fylgja því yfirleitt óþægindi þegar stærðin er vitlaus. Við finnum það yfirleitt sjálfar þegar stærðin er ekki rétt. Spöngin getur farið að ýta á viðkvæma staði; hlýrar sífellt að detta af öxlunum og ef maður þarf alltaf að vera að laga haldarann á sér bendir það til þess að það sé kominn tími til að endurnýja. Í slæmum tilvikum getur myndast sveppasýking undir brjóstum,“ segir Ragnheiður.

„Það kemur fyrir að konur taki meðvitaða ákvörðun um að vera í „vitlausri stærð“. Það getur verið vegna vana eða sjúkdóma eins og vefjagigt til dæmis. Í þeim tilfellum viljum við endilega fá tækifæri til að útskýra hvað er fræðilega rétt svo ákvörðunin sé meðvituð. Við aðstoðum líka til við að hliðra til stærðinni svo viðkomandi líði vel - sem er það mikilvægasta þegar upp er staðið.”

Hér má sjá gríðarlegan mun á því að vera í …
Hér má sjá gríðarlegan mun á því að vera í réttri brjóstahaldarastærð. Samsett mynd

Fyrir og eftir

Verslunin er virk á samfélagsmiðlum og hefur hlotið mikið lof fyrir það frá viðskiptavinum víðs vegar um landið.

„Reglulega auglýsum við á samfélagsmiðlum okkar eftir konum sem vilja taka „fyrir og eftir“ myndir með okkur,“ útskýrir Ragnheiður.

„Þær sem eru í vandræðum með að finna sér rétta haldarann koma til okkar í mælingu og mátun og sýna muninn á því að vera í rangri og réttri stærð. Þessar myndir hafa vakið mikla lukku hjá fylgjendunum okkar og virðast allir elska að sjá „fyrir og eftir“ myndir á alvöru konum. Við erum að tala um engar smá breytingar líka.“

Það eykur vellíðan og bætir líkamsstöðu til muna að vera …
Það eykur vellíðan og bætir líkamsstöðu til muna að vera í réttri stærð og þægilegu sniði. Samsett mynd

Við skráum stærðina þína

Hjá Misty er viðskiptavinum boðið upp á sérstaka þjónustu þar sem vörukaup þeirra eru skráð inn í tölvukerfið til að auðvelda þeim næstu kaup.

„Þegar viðkomandi hefur komið til okkar í mælingu og mátun bjóðum við upp á að skrá það sem keypt er, þá þarf ekki að muna neitt. Við skráum upplýsingar um skálastærð, tegund og vörumerki svo ekki þurfi að leggja stærðina á minnið,“ segir Ragnheiður.

„Þetta hefur reynst okkur gríðarlega vel og auðveldað viðskiptavinum næstu kaup. Margar koma inn og vilja fá það sama og síðast. Svo ekki sé minnst á hvað þetta er sniðugt fyrir þá sem vilja gleðja með fallegri óvæntri gjöf sem passar.“

Kynslóð eftir kynslóð verslar í Misty

Að sögn Ragnheiðar býr undirfataverslunin Misty yfir mikilli reynslu og þekkingu á öllu því sem viðkemur undirfatnaði. Þá er einnig rík áhersla lögð á gæði og hátt þjónustustig.

„Það er fátt sem við höfum ekki séð eða ekki geta reddað. Við leggjum mikið upp úr að þjálfa starfsfólkið okkar vel. Allir þurfa að þekkja vörurnar vel og veita þá góðu þjónustu sem Misty er þekkt fyrir að veita. Það er ómetanlegt hversu mikla ástríðu starfsfólkið hefur fyrir því að veita framúrskarandi þjónustu. Það gerir það að verkum að viðskiptavinir koma aftur og aftur,“ segir Ragnheiður.

Misty sérhæfir sig í sölu á stærðum sem vandfundar eru …
Misty sérhæfir sig í sölu á stærðum sem vandfundar eru í öðrum sambærilegum verslunum. mbl.is/Eyþór Árnason

„Það er líka mjög skemmtilegt að segja frá því að þar sem verslunin hefur verið starfandi lengi þá upplifum við það oft að mæður koma með dætur sínar og jafnvel ömmur með barnabörnin sín,“ lýsir hún og segir það ylja eigendum og starfsfólki Misty um hjartarætur.

„Það er alveg dásamlegt hvað við eigum margar kynslóðir af tryggum viðskiptavinum. Við þjónustum fermingarstelpuna sem er að koma til að fá sinn fyrsta brjóstahaldara og langömmuna sem kemur aftur og aftur til að kaupa sinn gamla góða og auðvitað allt þar á milli. Þú finnur þann eina sanna hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert