„Lífið hefur fyrst og fremst verið minn kennari“

Hildur M Jónsdóttir FKA
Hildur M Jónsdóttir FKA Morgunblaðið/Árni Sæberg

„Markmið mitt er að aðstoða eins marga og ég get að feta sömu braut og ég hef farið og vonandi hjálpa þeim að ná sambærilegum árangri og ég hef náð,“ segir Hildur M. Jónsdóttir, stofnandi og eigandi Heilsubankans en hann var opnaður 2006 við góðar undirtektir.

Hildur hafði verið að kljást við heilsuáskoranir meira og minna allt sitt líf og leitaði stöðugt leiða til að bæta líðan sína. Bjó hún orðið yfir miklum fróðleik um heilsutengd málefni, og var hvött til þess að miðla þekkingu sinni á einhvern hátt þannig að fleiri gætu notið góðs af og úr varð vefurinn Heilsubankinn.is. Á sama tíma fannst henni vanta vettvang þar sem fólk gæti fræðst um leiðir til að byggja upp og bæta heilsu sína, til viðbótar við þær aðferðir sem hefðbundna heilbrigðiskerfið bauð upp á. Þegar Hildur svo náði loksins árið 2015 að taka heilsu sína algjörlega í eigin hendur, setti hún saman prógramm eftir áralanga rannsóknarvinnu og náði loks fullum bata.

Þetta fór að spyrjast út og fólk byrjaði að leita til Hildar eftir sambærilegri hjálp. Þetta leiddi til þess að Hildur byrjaði með sín geisivinsælu námskeið á netinu og hafa yfir eitt þúsund manns farið í gegnum námskeiðin hennar.

Með stofnun Heilsubankans tókst Hildi að sameina þetta tvennt; að miðla fróðleik og skapa þekkingarbanka fyrir heilsutengd málefni. „Það eru sem betur fer frábærir hlutir að gerast í samfélaginu varðandi áherslur þegar kemur að heilsu og heilbrigði, en því miður þá henta þessar áherslur oft betur fólki sem er við fulla heilsu fyrir og er með úthald og getu,“ segir Hildur.

„Það sem ég brenn fyrir er að áherslurnar í minni vinnu með fólk sem hefur oft verið langveikt og með alvarlega sjúkdóma, og nær heilsu með minni hjálp, muni ekki þurfa á minni hjálp í framtíðinni heldur muni þessar lausnir sem ég byggi á komast inn í almenna heilbrigðiskerfið og fólk fari að fá raunverulega hjálp við að ná fullri heilsu. Almenna heilbrigðiskerfið býr því miður ekki í dag yfir góðum verkfærum til að hjálpa fólki í krónískum heilsuvanda.”

Tók stjórnina í eigin hendur

„Markmið mitt er að aðstoða eins marga og ég get“
„Markmið mitt er að aðstoða eins marga og ég get“ mbl.is/Árni Sæberg

Hildur segist hafa lent á „algjörum vegg” árið 2012 en var búin að stefna þangað mjög lengi, í raun frá barnæsku; „Ég byrjaði að safna á mig sjúkdómsheitum allt frá fyrstu árunum en ég hunsaði alltaf merkin og setti bara undir mig hausinn, eins og sönnum Íslendingi sæmir,” segir hún. „Það var búið að greina mig með alls kyns gigtarsjúkdóma, meltingarsjúkdóma, skjaldkirtilssjúkdóm, hjartavandamál, krónískt mígreni sem var algjörlega að fara með mig, síþreytu og fleira. Að auki var ég í raun búin að lenda þrívegis í alvarlegri kulnun og átti engin góð verkfæri til að koma mér út úr því ástandi að fullu.”

Segir þá Hildur að það hafi tekið hana langan tíma að átta sig á að hefðbundna heilbrigðiskerfið var ekki með neinar góðar lausnir fyrir sig. „Yfir lengri tíma varð ég bara þreyttari, þyngri og verkjaðri, þannig að það kom að því að það var annað hvort að gefast bara upp fyrir lífinu og lifa því eftir einhverjum lágmarksgæðum eða taka stjórnina í eigin hendur,” segir Hildur.

„Ég er með nokkurra ára háskólanám að baki en lífið hefur fyrst og fremst verið minn kennari. En ég trúi samt að öll þekking og allt nám nýtist okkur alltaf í öllum okkar verkefnum, þó þau hafi jafnvel ekki beint með það að gera hvað við lögðum stund á í námi. Ég tel að einmitt þessi færni að nýta sína eigin færni og áhuga á skapandi hátt er framtíðin fyrir okkur, um leið og gervigreindin fer að verða okkur hæfari í að setja fram þá þekkingu sem fyrir hendi er.”

Hildur verður með frítt kynningarnámskeið á næstunni um það hvað við þurfum að gera til að styðja líkamann í því verkefni að komast til heilsu.

Nánari upplýsingar á Heilsubankinn.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert