Það sagði engin að þetta ætti að vera auðvelt

Stjórn FKA á góðri stundu.
Stjórn FKA á góðri stundu.

Á tímamótum sem þessum þegar Félag kvenna í atvinnulífinu, FKA, fagnar 25 ára afmæli sínu er við hæfi að þakka þeim sem hafa rutt brautina og þeim sem standa okkur næst. Stjórn FKA fer með æðsta vald í málefnum félagsins, skipuð konum kjörnum á aðalfundi. Þessar stjórnarkonur voru fengnar til að skrifa þakklætisbréf til konu sem hefur verið til staðar í þeirra lífi í leik og starfi. Konu sem hefur haft áhrif á þær, stutt eða hjálpað að þroskast.

Það var ekki auðvelt fyrir þær að velja eina konu enda sagði engin að þetta ætti að vera auðvelt.

Guðlaug Hrönn Jóhannsdóttir
Guðlaug Hrönn Jóhannsdóttir Ljósmynd/Aðsend

 Hugsaðir alltaf vel um fólkið þitt

„Ég vil nýta þetta frábæra tækifæri og þakka ömmu minni, Guðlaugu Kjerúlf.

Að ala upp börn annarra er ekki sjálfsagt en þú gerðir það á óeigingjarnan hátt, hugsaðir vel um fólkið þitt og opnaðir augu mín fyrir fegurð ættfræði og frændsemi.

Þú kenndir mér mörg praktísk atriði sem hafa fylgt mér um ævina, hvort sem var að brjóta þvottinn vel í upphafi svo flíkin sé falleg við notkun eða vinna hvert verkefni faglega og með stolti. Þegar ég var sjö til átta ára sótti ég þig iðulega í vinnuna í eldhús Landspítalans þar sem mér var tekið opnum örmum, leyft að aðstoða við frágang og kennt að vinna vel.

Þú brýndir fyrir mér að henda ekki rusli úti á götu eða í náttúrunni. Ég vildi óska að heimurinn allur hefði fengið þá kennslu hjá þér.

Takk elsku amma!“

Guðlaug Hrönn Jóhannsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri GET Ráðgjafar ehf

Dóra Eyland
Dóra Eyland Ljósmynd/Aðsend

 Net af kröftugum konum

„Ég er svo heppin að eiga stórt net af kröftugum konum í kringum mig sem hafa stutt mig á einn eða annan hátt og verið til staðar fyrir mig á mismunandi tímum, í einkalífi og starfi. Ég er þakklát fyrir hverja einustu þeirra.

Ég dáist að konum sem elta drauma sína, láta þá rætast og hafa þann hæfileika að missa ekki sjónar á markmiðunum, alveg sama hvað. Konur sem hrósa öðrum konum, styðja þær og hvetja áfram til góðra verka, það eru mínar fyrirmyndir.

Mamma mín er sú kona sem ég vil þakka hér, fyrir að sýna mér á hverjum degi hversu mikilvægt það er að rækta vináttu, eiga áhugamál og stunda daglega hreyfingu. Ef hún er ekki að leika sér á golfvellinum þá eru það göngutúrar, ferðalög eða aðrar upplifanir með vinkonum eða eiginmanni – pant hafa heilsu í það á áttræðis- og níræðisaldri.“

Dóra Eyland, þjónustustjóri í Golfklúbbi Reykjavíkur

Helga Björg Steinþórsdóttir
Helga Björg Steinþórsdóttir Ljósmynd/Aðsend

 Perlurnar í festinni minni

„Ég hef haft þann sið síðustu ár að setjast niður fyrir jólin og fara yfir árið til að vera meðvituð um þær fyrirmyndir sem hafa haft áhrif á líf mitt. Á aðventunni heimsæki ég þær með það að markmiði að þakka þeim fyrir að vera perlurnar í festinni minni.

Að sjálfsögðu er mamma mín, Sigrún Hauksdóttir, skærasta stjarnan þar. Hún jú fæddi mig, fræddi og klæddi.

Það sem ég er alltaf að verða meira og meira meðvituð um er hve mikil forréttindi það eru að eiga mömmu sem hefur alltaf gert hlutina á sinn einstaka hátt, fer út fyrir boxið alla daga og stendur með sér og sínum fram í rauðan dauðann.

Fyrirmyndir í mínu lífi eru óteljandi og ómögulegt að nefna þær allar en það eru forréttindi að eiga mömmu eins og þig.

Þú ert mitt leiðandi stjörnuljós í lífinu.“

Helga Björg Steinþórsdóttir, meðstofnandi og meðeigandi AwareGo

Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir
Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir Ljósmynd/Aðsend

 Þeirra vegna er ég

„Þakklæti er stórt orð, sennilega orð sem ég hugsa ekki of oft um. Og hvar skal byrja. Á bak við hverja manneskju eru svo margir sem hafa komið að mótun manneskjunnar. Föðuramma mín og nafna, Ingibjörg, sem kenndi mér að meta náttúruna og rækta jarðveginn. Sem kynnti mig fyrst fyrir dýrum sem urðu mín ær og kýr. Móðuramma mín sem var alltaf með nýjustu strauma og stefnur í tískuheiminum á hreinu og var mín fyrirmynd í framkomu.

Mamma sem var klettur, verndaði börnin sín sem voru hennar stolt. Systir mín, sem með stóran barnahóp fluttist til Bandaríkjanna og lærði læknisfræði í einum besta skóla í heimi. Nú eða vinkonurnar, vinahóparnir, FKA, allar þessar kjarnakonur.

Mitt þakklætisbréf er til allra þessara kvenna. Þeirra vegna er ég.“

Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri, hundaræktandi, eigandi Gæludýr.is og gjaldkeri FKA

Grace Achieng
Grace Achieng Ljósmynd/Aðsend

 Hvatti mig til að hugsa stórt

„Íslenskar konur hafa verið mínir mestu bakhjarlar síðan ég kom til landsins.

Ég átti kannski ekki frábært samband við konur í æsku og hef því aldrei hleypt þeim að mér. Það var ekki fyrr en ég kom til Íslands að það fór að breytast því ég fann að þær sýndu mér öryggi og kærleika.

Ég gæti nefnt svo margar konur í FKA sem hafa opnað dyr fyrir mér en í dag vil ég þakka Steinunni Bergsteinsdóttur. Steinunn tók mig undir væng sinn og tók mig og dóttur mína inn í fjölskylduna.

Hún sá hvað í mér bjó og hvatti mig til að hugsa stórt.

Steinunn er myndlistarkona á þriðja æviskeiði sem sannar að hugvitssemi er ekki háð aldri. Hún hefur átt langan og aðdáunarverðan feril og heldur enn myndlistarsýningar og skapar ótrúlega list.“

Grace Achieng, stofnandi og framkvæmdastjóri Gracelandic

Guðrún Gunnarsdóttir
Guðrún Gunnarsdóttir Ljósmynd/Aðsend

 Full þakklætis

„Þakklæti er efst í huga þegar ég hugsa um að vera komin á þriðja æviskeiðið, sem er ekki sjálfgefið. Að vera 63 ára, full af orku með góða heilsu og í fullri vinnu sem ég hlakka til að mæta til á degi hverjum.

Móðir mín, Ingibjörg Elíasdóttir, 96 ára, er sú kona hefur haft mest áhrif á mig. Eðlilega kemur hún úr allt öðru umhverfi en ég og þurfti að hafa mjög mikið fyrir hlutunum.

Hún hefur kennt mér að vinnan göfgar manninn og það var ekki algengt að vera með lykil um hálsinn, koma heim eftir skóla og enginn heima.

Mamma var samt alltaf til staðar, hefur ávallt stutt við bakið á mér og kenndi mér að réttlæti og heiðarleiki eru miklir mannkostir. Ég er full þakklætis að geta hringt í hana ennþá á hverjum degi.“

Guðrún Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Fastus og varaformaður FKA

Bergrún Lilja Sigurjónsdóttir
Bergrún Lilja Sigurjónsdóttir Ljósmynd/Aðsend

Dýrmætur spegill 

„Ég hef svo ótal margar konur til að þakka fyrir, fyrirmyndir og sterka kletta. Annars vegar þær sem hafa greitt brautina, rétt mér keflið, lyft mér upp og gefið mér tækifæri og hins vegar þær sem eru ávallt til staðar og hvetja mig áfram.

Að öllum öðrum ólöstuðum langar mig að lyfta móður minni upp, Olgu Ásrúnu Stefánsdóttur. Hún hefur sýnt mér í verki að maður er aldrei of gamall til að læra eitthvað nýtt, láta drauma rætast eða breyta um starfsvettvang. Hún er drifin áfram af hjálpsemi og einlægum áhuga á fólki og hefur svo til helgað sig rannsóknum tengdum þriðja lífsskeiðinu. Hún hefur verið mér dýrmætur spegill, hvatt mig áfram til góðra verka og ávallt stutt mig í öllu sem ég tek mér fyrir hendur.“

Bergrún Lilja Sigurjónsdóttir, sviðsstjóri sviðs fólks, upplýsinga og þróunar hjá Vinnueftirlitinu

 

Andrea Ýr Jónsdóttir
Andrea Ýr Jónsdóttir Ljósmynd/Aðsend

Er alltaf til staðar

„Það eru svo margar konur sem ég gæti þakkað, konur sem ég lít upp til, konur sem hafa barist og rutt veginn fyrir mig og konur sem sýna jákvæðni og umhyggju þrátt fyrir erfiðleika.

Ég get valið úr svo mörgum mögnuðum konum en ég enda alltaf með þá sömu, Maríu Richter, sem er einmitt móðir mín. Mamma mín ruddi nefnilega veginn fyrir mig, meira en nokkur önnur.

Hún barðist fyrir mig, bókstaflega, fórnaði miklu, er enn minn helsti ráðgjafi og trúnaðarvinur og kenndi mér mikilvægar lífsreglur sem ég fylgi enn í dag. Hún vann alltaf mikið ásamt því að sjá um heimilið og byggði meira að segja æskuheimilið mitt (með föður mínum) kasólétt að mér.

Samt var hún alltaf til staðar og er það enn.

Takk mamma, fyrir allt.“

Andrea Ýr Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Heilsulausna, hjúkrunarfræðingur og ritari FKA

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert