Erum til staðar fyrir alla

Dagný Guðmundsdóttir segir að það sé mikilvægt að huga að …
Dagný Guðmundsdóttir segir að það sé mikilvægt að huga að eldvörnum í kringum sumarbústaðinn á þessum árstíma og til að mynda sé gott að huga að því hvernig gengið er frá lóðinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Á þessum árstíma eru margir að huga að eldvörnum í görðum og í kringum sumarbústaðina. Það er svo margt sem hægt er að gera, ekki einungis að vera með eldvarnarbúnað heldur líka að huga að því hvernig gengið er frá lóðinni,“ segir Dagný Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ólafur Gíslason og Eldvarnamiðstöðin en hægt er að fá ókeypis ráðgjöf um eldvarnir í versluninni að Sundaborg.

„Við erum til staðar fyrir alla sem vantar ráðgjöf og hún kostar ekki neitt. Mikilvægt er að miða ráðgjöfina að einstaklingnum og því sem hentar þeim en ekki bara almennt. Það er til dæmis mjög mikilvægt að gróðurinn sé ekki upp að sumarbústaðnum, að frágangurinn sé mjög góður og að það sé meira en meter af möl upp við húsið í stað gróðurs. Það getur gert gæfumuninn ef það kviknar í sinu því hún breiðist svo hratt út.“

Falleg slökkvitæki sem passa vel inn í hönnun heimilisins eru …
Falleg slökkvitæki sem passa vel inn í hönnun heimilisins eru vinsæl innflutningsgjöf. Ljósmynd/Aðsend

Eldur verður fljótt óviðráðanlegur

Dagný talar um að ráðgjöfin hjá Ólafi Gíslasyni og Eldvarnamiðstöðinni sé mjög vinsæl og það séu sífellt fleiri sem nýta sér hana. „Það er mikilvægt að vera með réttan eldvarnarbúnað en það er líka mikilvægt að allir viti hvar búnaðurinn er og að það sé auðvelt að nálgast hann. Það er til dæmis ráðlagt að vera með sinuklöppur við alla sumarbústaði og hafa þær þar sem allir komast í þær, ef ske kynni að eigandinn sé ekki heima þegar eldur brýst út.

Sinuklöppur eru notaðar til að slökkva í sinu, almennt fer gróðureldur í sinu mjög hratt og það er því mikilvægt að hver sem er komist í klöppurnar til að slökkva eldinn. Það er líka hægt að nota eldvarnarteppi, með öðrum búnaði, á sinu en þá er það lagt niður á sinuna og svo stappað á því til að kæfa eldinn. Ef allir vita að þessar vörur er til í bústaðnum og hvar þær eru geymdar þá eru meiri líkur á að hægt sé að bregðast rétt við. Á meðan fólk er í taugaæsingi að leita að því sem til þarf þá líður svo langur tími. Eldurinn getur fljótt orðið óviðráðanlegur á þeim mínútum.“

Koparlituð slökkvitæki hafa verið vinsæl fyrir sumarbústaði en mikilvægt er …
Koparlituð slökkvitæki hafa verið vinsæl fyrir sumarbústaði en mikilvægt er að hafa líka létt tæki í bústöðum sem allir ráða við. Ljósmynd/Aðsend

Reykskynjari í símann

Þá segir Dagný að með góðri ráðgjöf sé auðvelt að finna hvað henti hverjum og einum og oft sé þetta ekki eins dýrt og fólk haldi. „Ef við tökum eldvarnarteppi sem dæmi þá gera þau ótrúlega margt en kosta bara frá 3.900 krónum og upp í 5.900 krónur. Með þeim er hægt að slökkva í pottinum í eldhúsinu, í grillinu og í minni eldum. Svo mælum við með að það séu slökkvitæki sem henti hverjum og einum í sumarbústaðnum og kannski fleiri en eitt. Sumir nota níu lítra tæki, þau eru ansi þung en góð því það er mikill slökkvimáttur í þeim. Ef það eru eldri borgarar eða einhver sem getur ekki lyft þungu þá gerir þannig tæki lítið gagn,“ segir Dagný og bætir við að það sé mikilvægt að velja það sem hentar hverjum og einum.

„Svo er ekki alltaf nauðsynlegt að vera með dýrt öryggiskerfi og við höfum ráðlagt fólki sem er með internet í bústaðnum að vera með reykskynjara sem sendir skilaboð í síma en það kostar bara um 5.900 krónur. Þá lætur skynjarinn vita ef það er vatnsleki, eldur eða reykur. Það er hægt að gera ótrúlega margt ef fólk hefur þekkinguna og fær góða ráðgjöf.“

Slökkvitæki vinsæl innflutningsgjöf

Aðspurð hvort almenningur sé upplýstari um eldvarnir nú til dags en áður segir Dagný að hún hafi séð mikinn mun á síðustu árum. „Það er mikil aðsókn í búðina hjá okkur til að fá ráðgjöf og fólk vill undirbúa sig og hafa allt á hreinu. Við finnum líka að við náum betur til unga fólksins eftir að við hófum að selja slökkvitæki í fallegum litum en ekki bara gamla góða rauða tækið. Áður vildi fólk helst geyma slökkvitækin inni í skáp eða í geymslu þar sem enginn vissi af þeim ef það kviknaði í. Núna eru slökkvitækin orðin vinsæl innflutningsgjöf og jafnvel með fallegum svörtum reykskynjara. Það er náttúrlega einkar hugulsöm gjöf og gæti varla verið meiri umhyggja í gjöfinni,“ segir Dagný einlæg og bætir við að hægt sé að fá slökkvitækin í fjöldamörgum litum, til að mynda svört, gyllt, koparlituð og grá.

„Koparlituðu slökkvitækin eru sérstaklega vinsæl í sumarbústaðina. En það er gaman að segja frá því að þrátt fyrir þessa söluaukningu í lituðum tækjum þá minnkar salan ekki í rauðu slökkvitækjunum. Svo má ekki gleyma reykskynjurunum en það á alltaf að vera reykskynjari í öllum barnaherbergjum. Reglugerðir segja að það eigi bara að vera reykskynjari á gangi, í eldhúsi og í þvottahúsi en tímarnir hafa breyst svo mikið. Í dag er mikilvægt að þeir séu í öllum herbergjum þar sem hlutir eru í sambandi og ung börn eru farin að setja tölvur og síma í samband. Svo er skjátíminn liðinn og þá fela þau tækið undir koddanum en þá er mesta eldhættan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert