Ómetanleg reynsla fyrir stjörnur framtíðarinnar

Símamótið verður haldið í Kópavogi um helgina en það er …
Símamótið verður haldið í Kópavogi um helgina en það er stærsta íþróttamót landsins. Hér má sjá Símamótsmeistara ársins 2023, 5. flokk Breiðabliks. Ljósmynd/Jón Gautur Hannesson

Það mun aldeilis birta yfir Kópavoginum um helgina þegar þrjú þúsund stelpur mæta og keppa á Símamótinu sem fagnar fjörtíu ára afmæli í ár. Á mótinu, sem er fjölmennasta knattspyrnumót Íslands, munu fimm til tólf ára stelpur keppa í fótbolta og margar þeirra í fyrsta sinn.

Eyrún Huld Harðardóttir, markaðsstjóri Símans, segir að Síminn standi stoltur að baki fótboltaveislunni sem Símamótið er. „Sjálf man ég vel eftir mínu fyrsta móti, bæði sem leikmaður og seinna meir sem þjálfari. Símamótið kenndi mér hvað liðsheild og samtakamáttur skiptir miklu máli en það er eitthvað sem ég mun alltaf búa að. Öll vináttuböndin og allar minningarnar sem bæst hafa í minningarbankann. Á sama tíma hefur kvennaboltinn sem heild blómstrað og átt sinn þátt í að efla jafnrétti og skapa fyrirmyndir fyrir stelpur og stráka.“

Stúlkurnar sem keppa á Símamótinu koma hvaðanæva að og hér …
Stúlkurnar sem keppa á Símamótinu koma hvaðanæva að og hér má sjá lið Sindra frá Höfn. Ljósmynd/Aðsend

Tengjumst yfir boltanum

Aðspurð hvað komi helst upp í huga hennar þegar talað er um Símamótið segir Eyrún að það sé: „Einstök stemning, glæsileg tilþrif, stórkostleg skemmtun, sigrar og ósigrar. Það er dýrmæt reynsla að keppa á fótboltamóti af þessari stærðargráðu. Stjörnur framtíðarinnar fá ómetanlega reynslu og hetjur verða til. Á hverju ári mæta kraftmiklar fótboltastelpur á völlinn með sína allra bestu takta, skemmta sér og okkur sem fylgjumst með, þökk sé hinu frábæra skipulagi Breiðabliks og fjölda sjálfboðaliða.

Margar stelpur eru að stíga sín fyrstu skref á mótinu á meðan aðrar eru þaulvanar en spennustigið er ávallt hátt. Við erum öll hluti af umgjörðinni og okkar hlutverk er að skapa jákvæða stemningu í kringum leikina, bæði þegar vel gengur en einnig þegar úrslitin eru ekki eins og vonast var eftir. Fögnum því sem vel er gert, lærum af því sem má gera betur en fyrst og fremst höfum gaman saman.

Mót af þessu tagi er frábært tækifæri fyrir keppendur og fjölskyldur þeirra til að skapa ógleymanlegar minningar og dýrmætar samverustundir,“ segir Eyrún og bætir við að fjöldi leikja verði sýndur á Símanum Premium. „Síminn sýnir sem áður frá þremur völlum alla helgina í Sjónvarpi Símans og verða leikirnir aðgengilegir í Sjónvarpi Símans Premium að mótinu loknu.“

Um helgina munu um 3.000 stúlkur keppa í samtals 1.600 …
Um helgina munu um 3.000 stúlkur keppa í samtals 1.600 leikjum á Kópavogsvelli. Hér má sjá mannfjöldann á síðasta Símamóti. Ljósmynd/Aðsend

Um 3.000 stelpur í 1.600 leikjum

Breiðablik hefur haldið Símamótið frá upphafi og Hlynur Höskuldsson, formaður barna- og unglingaráðs Breiðabliks, segir að það sé allt að smella þessa síðustu daga fyrir mótið. „Barna- og unglingaráð ásamt starfsfólki Breiðabliks er samstiga teymi sem hefur séð um skipulagið í nokkur ár og þetta gengur því mjög vel. Þetta rúllar allt einhvern veginn en maður er óneitanlega að velta fyrir sér hvort það sé eitthvað að gleymast eða hvort eitthvað muni klikka,“ segir Hlynur og hlær.

„Stærðin á mótinu er vitanlega gígantísk en þetta er fertugasta mótið hjá Breiðablik og Síminn hefur verið með okkur í tuttugu ár. Upphaflega hét mótið Gull- og Silfurmótið eins og landsliðsstelpur og eldri fótboltakempur muna sennilega eftir. Þá voru það foreldrar sem komu mótinu á koppinn en þeim fannst heldur lítið vera að gerast í kvennaknattspyrnunni fyrir dætur sínar. Svo hefur mótið bara vaxið og vaxið og í ár eru um 3.000 stelpur sem taka þátt í samtals um 1.600 leikjum.“

Eyrún Huld Harðardóttir, markaðsstjóri Símans, á góðar minningar frá Símamótinu …
Eyrún Huld Harðardóttir, markaðsstjóri Símans, á góðar minningar frá Símamótinu frá sínum yngri árum, bæði sem leikmaður og sem þjálfari. Ljósmynd/Aðsend

Foreldrar í lykilhlutverki

Þá talar Hlynur um að það væri ekki hægt að halda mót af þessari stærðargráðu án foreldra og annarra sjálfboðaliða. „Þetta er svo stórt batterí og við erum með sirka 450 foreldravaktir því það er margt sem þarf að gera, eins og öryggisgæsla, pakka mótsgjöfum, grilla pylsur og margt margt fleira. Allt þetta sjá foreldrar í Breiðablik um. Og svo má ekki gleyma dómgæslunni en það eru alltaf einhverjir foreldrar sem dæma leikina auk þess sem leikmenn úr eldri flokkum og meistaraflokki dæma einhverja leiki. Við erum líka svo heppin að eiga fullt af eldri Blikum sem koma sérstaklega til að dæma og vilja bara koma á mótið til að dæma leiki,“ segir Hlynur og bætir við að það sem helst einkenni Símamótið sé skemmtun.

„Það sést langar leiðir hvað þetta er gaman hjá stelpunum og það er smitandi. Það er gaman að vera með sama fólkinu ár eftir ár að skipuleggja og halda utan um þetta mót. Þetta er allt svo mikil gleði. Sama hvort stelpurnar vinni eða tapi þá er alltaf geggjað gaman hjá þeim. Seinna meir muna þær ekki eftir því hvort þær hafi unnið eða tapað leikjum í 6. eða 7. flokki. Þær muna bara eftir stemningunni og gleðinni yfir því að taka þátt.“

Hlynur Höskuldsson, formaður barna- og unglingaráðs Breiðabliks, segir að ekki …
Hlynur Höskuldsson, formaður barna- og unglingaráðs Breiðabliks, segir að ekki væri hægt að halda mót af þessari stærðargráðu án foreldra og annarra sjálfboðaliða. Ljósmynd/Aðsend

Sex ára á litla Símamótinu

Setningarathöfn Símamótsins er í dag og þá verður skrúðganga að Kópavogsvelli. Mótið sjálft hefst svo á morgun og stendur yfir alla helgina. „Á laugardeginum erum við svo með litla Símamótið en þar keppir áttundi flokkur sem eru fimm og sex ára stelpur,“ segir Hlynur og viðurkennir fúslega að það sé krúttlegasti flokkurinn.

„Við héldum litla Símamótið fyrst fyrir nokkrum árum og það hefur alltaf tekist mjög vel þó það séu óneitanlega aðeins líflegri leikir. Stundum eru fimleikar og fleira skemmtilegheit í miðjum leikum. Úrslitaleikur í Símamótinu er svo á sunnudeginum og það er alltaf spennandi að sjá hver ber sigur úr býtum,“ segir Hlynur fullur eftirvæntingar enda skemmtileg helgi fram undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert