„Við sneiðum fram hjá stöðum sem eru ekki nauðsynlegir til að opinbera og kristalla kjarna og eðli hvers lands. Þessa nálgun brýni ég sérstaklega þegar ég skipulegg ferðir um stór og víðfeðm lönd eins og Víetnam. Þar eru margir spennandi staðir sem freistandi er að bæta á kort ferðalanga en ég lít svo á að það sé mitt hlutverk að tálga af allan óþarfa svo fólki gefist kostur á að ferðast fremur djúpt en ekki vítt. Fyrirmyndina getum við sótt í bók Sigurðar Guðmundssonar listamanns, Dýrin í Saígon, en þar segir hann að hann hafi ferðast um Saígon lóðrétt en ekki lárétt og náð djúpri þekkingu en ekki víðri,“ segir Viktor Sveinsson hjá Úrval Útsýn sem skipuleggur áhugaverðar ferðir á fjarlægar slóðir.
„Suðaustur Asía nýtur þess að vera öruggt svæði, hagstætt og státar af einstakri gestrisni og dásamlegum mat en það vegur sífellt meira fyrir íslenskt ferðafólk að tryggt sé að komast í framandi, þjóðlegar og öruggar kræsingar. Ég byrjaði að ferðast um Asíu og Afríku fyrir fjölda ára þegar ég var rétt orðinn fullorðinn, löng bakpokaferðalög á þeim tíma sem Internetið var óþekkt fyrirbrigði og Suðaustur Asía hefur dregið mig til sín aftur og aftur.“
Viktor er að skipuleggja spennandi ferð til Indókína en á árum áður voru Laos, Kambódía og Víetnam nýlendur Frakka og nefndar Franska Indókína sem var byggt á hugmyndum sem ríktu á þeim tíma að öll menning á þessum slóðum væri annaðhvort upprunnin á Indlandi eða í Kína.
„Þessi ferð er vandlega tálguð og sniðin að því að opinbera það athyglisverðasta í hverju landi. Áhersla er lögð á að allur viðgjörningur sé til fyrirmyndar, hótelin eru valin af kostgæfni miðað við staðsetningu, sjarma og þjónustu. Þá er keppst við að finna veitingastaði sem opinbera ekki bara einstaka matargerð hvers staðar heldur einnig þá menningu sem tengist matargerðinni og því mannlífi sem hún er sprottin úr. Héðinn Svarfdal Björnsson er fararstjóri í ferðinni um meginland Suðaustur Asíu en hann er hokinn af reynslu og þekktur fyrir að vera einstaklega natinn fararstjóri fullur af fróðleik,“ segir Viktor og bætir við að sjálfur hafi hann búið í Taílandi og á Balí í nokkur ár og gefist tækifæri til að kanna álfuna náið.
„Ég hef skoðað ótalmarga staði á þessum svæðum og af þeim eru það Laos, Kambódía og Balí sem draga mig alltaf aftur. Ferðamenn hafa lagt undir sig allan heiminn nema ef vera skyldi að Laos hafi enn sloppið. Laos er staður engum öðrum líkur, það er nánast eins og maður sé á öðrum tíma eða á annarri plánetu þegar dvalið er í Luang Prabang, gömlu höfuðborg Laos.“
Á næstunni er fyrirhuguð ferð til Márítíus hjá Úrvali Útsýn en þar segist Viktor hafa lært þrennt: „Að njóta rauðvíns, að steikja hrísgrjón og að meta asískar núðlur,“ segir hann og hlær. „Það var því löngu orðið tímabært að ég gerði ferð suðaustur í Indlandshafið, rétt 1.400 kílómetra sunnan við miðbaug, og þessi ferð verður leidd af snillingnum Kristjáni Steinssyni sem er einn allra hæfasti fararstjóri sem finnst.
Máritíus er afskekkt eyja suður í Indlandshafi sem býr að skemmtilegri og framandi menningu, fjölskrúðugri náttúru og einhverjum flottustu sandströndum í heimi. Þarna finna ferðalangar girnilegan og spennandi mat, sumt sem hvergi er annars staðar í boði og suðupott menningar sem ber keim af Indlandi í norðri, gömlum herraþjóðum frá þeim tíma er Máritíus var nýlenda Frakklands og síðar Bretlands og svo kraumar undir trumbusláttur og heitir straumar frá Afríku,“ segir Viktor og bætir við að því miður sé of seint að skoða Dódófuglinn á Máritíus en honum var útrýmt 1791.
„Rétt um 150 árum áður en við útrýmdum fjarskyldum ættingja hans Geirfuglinum en báðir fuglarnir áttu það sameiginlegt að vera ófleygir, varnarlausir og kjötmiklir fuglar. Dódófuglinn var skrítinn fugl og bjó bara á Máritíus en enn er að finna einstaka náttúru á Máritíus. Þar má til að mynda sjá risaskjaldbökur sem verða tæplega 200 ára gamlar, gæfa höfrunga, skrautlegar eðlur og hressa páfagauka. Máritíus er suðupottur margs konar menningar þar sem þróast hefur frábær matargerð, kraumandi mannlíf og einstök menning.“
Það er ekki hægt að sleppa Viktori án þess að forvitnast um hvaða dásamlega stað hann heimsótti síðast en við því svarar hann: „Ég er nýkominn frá Indónesíu þar sem ég átti yndislega daga í fjallabænum Úbúd þar sem hjarta Balí slær sterkast og auðveldast er að nálgast menningu og mannlíf eyjaskeggja.
Indónesía er eins og heimsálfa út af fyrir sig, svo víðfeðm, fjölbreytt og mögnuð enda er þetta risasvæði fjórða fjölmennasta ríki heims. Þetta víðfeðma og margbrotna land er engu líkt, samansafn smárra og stórra eyja sem teygja sig frá Ástralíu upp til syðsta enda Malasíu. Einn risavaxinn hrærigrautur af fólki, menningu og náttúru, þar sem rösklega 300 ólíkir þjóðflokkar hafa eigin dansa, matseld og listform,“ segir Viktor að lokum og hvetur alla sem hyggja á ævintýri á fjarlægar slóðir að skoða þessar áhugaverðu ferðir inni á heimasíðu Úrval Útsýn sem og hér.