Verkfæralagerinn á Smáratorgi á þrjátíu ára afmæli í september en verslunin er sennilega einna þekktust fyrir ótrúlegt úrval enda má þar finna hátt í 50 þúsund vörunúmer. Í tilefni af afmælinu verður glæsileg afsláttarhelgi helgina 5. - 8. september, 20% afsláttur af öllu sem og alls kyns önnur tilboð. Auk þess er verð lækkað á fjölmörgum öðrum vörum, að sögn Brynjólfs Gunnarssonar framkvæmdastjóra Verkfæralagersins.
„Oft heldur fólk að við séum eingöngu með verkfæri og vissulega var það þannig í upphafi. Núna erum við líkari kaupmanninum á horninu og erum með alls konar vörur. Þegar fyrirtækið var stofnað fyrir þrjátíu árum þá var markmið okkar að lækka verð á verkfærum en verkfæri voru mjög dýr. Þá þótti rafmagnsborvél rosalega fín þrítugsafmælisgjöf en í dag kostar hún kannski um 5.000 krónur þannig að það eru sannarlega breyttir tímar.
Við höfum náð góðum árangri þegar kemur að því að lækka verð á verkfærum, við fluttum inn fín rafmagnsverkfæri og ódýr handverkfæri. Og smátt og smátt var bætt við vöruúrvalið. Upphaflega var slagorðið okkar „Einfaldlega ódýr“ en með tímanum þróaðist það út í „Alltaf eitthvað nýtt“ sem er réttnefni því við bætum við nýjum vörum í hverri viku. Það er mjög meðvituð ákvörðun hjá okkur því fólki finnst gott að koma þangað sem það getur verslað allt í einni ferð.“
Verkfæralagerinn er sannkallað fjölskyldufyrirtæki með ástríðuna að leiðarljósi og hefur verið fjölskyldufyrirtæki frá upphafi. Það má sjá í ýmsu, allt frá gríðarlegri þekkingu starfsmanna yfir í nöfn á einstaka vörum. Sjálfur hefur Brynjólfur verið viðloðandi fyrirtækið í 30 ár og er næstum fæddur og uppalinn þar, sem og hans afkomendur. Enda talar hann um að þriðji ættliður fjölskyldunnar sé kominn til starfa í fyrirtækinu og fjórði ættliðurinn byrjaður að kíkja í heimsókn. Þá sé skemmtileg saga af því hvernig vinsælir strigar hlutu nafn sitt.
„Við erum með mjög vandaða og fína striga sem við kaupum beint af framleiðanda. Þegar kom að því að finna nafn á strigana þá var ákveðið að þeir myndu heita Sara og Alma listhús. Og það kom þannig til að í bústaðnum hjá mömmu og pabba voru stelpurnar mínar, sem heita Sara og Alma, alltaf að föndra inn í einu herberginu. Á endanum var það herbergi hreinlega kallað Sara og Alma listhús. Þegar átti að finna nafn á strigana þá lá beinast við að þeir hétu Sara og Alma listhús,“ segir Brynjólfur og bætir við að það sé einmitt gríðarlega mikið úrval af alls kyns myndlistavörum í Verkfæralagernum.
„Við byrjuðum með fáar vörur en núna erum við sennilega með eitt besta úrval landsins af myndlistavörum. Það eru rétt um tveir gangar í búðinni undirlagðar af alls kyns myndlista- og föndurvörum: akríl, strigum, penslum, trönum, teiknivörum og svo framvegis.“
Verkfæralagerinn er í um 1.100 fermetra húsnæði á Smáratorgi og ekki veitir af. Brynjólfur talar um að það fari mjög vel um þau í húsnæðinu enda sé frábært aðgengi fyrir viðskiptavini og nóg af bílastæðum. Það sé því öruggt að allir fái stæði og það sé þægilegt að komast til og frá versluninni. Eitt af því sem Brynjólfur talar um með stolti er sú staðreynd að Verkfæralagerinn hefur fengið nafnbótina Framúrskarandi fyrirtæki í sex ár en það eru rétt um 2% íslenskra fyrirtækja sem ná þeim góða árangri.
„Við höfum verið mjög stolt af því enda ekki sjálfgefið að ná þessum árangri sem og að halda honum en síðan við urðum fyrst Framúrskarandi höfum við haldið þeim titli,“ segir Brynjólfur og viðurkennir að sennilega sé það ekki síst góða úrvalið í Verkfæralagernum sem hjálpi til við farsælan rekstur.
„Það má í raun finna hvað sem er hjá okkur og þetta er hálfgerður ævintýraheimur. Hvort sem það er hleðslutæki og snúrur fyrir síma, lásar fyrir ræktina eða skápinn í skólanum, viðhald á bílnum eða leikföng þá er það líklega til hjá okkur. Eitt af því sem okkur blöskraði á sínum tíma var verð á leikföngum en þau voru mjög dýr. Ég segi kannski ekki að leikföng séu hræódýr hjá okkur en við reynum að vera ódýrari en gengur og gerist. Við ákváðum að bjóða upp á ódýran kost í leikföngum og það hefur hlotið góðar viðtökur þannig að við höfum bætt enn meira í þar,“ segir Brynjólfur og rýkur af stað til að raða í hillur enda er búist við fjölda dyggra viðskiptavina til að nýta afsláttinn um afmælishelgina.