Draumar rætast sjaldnast sjálfkrafa

Ingvar Jónsson, markþjálfi og framkvæmdastjóri Profectus, segir það veita sér …
Ingvar Jónsson, markþjálfi og framkvæmdastjóri Profectus, segir það veita sér innblástur að fylgjast með fólki uppgötva hvað býr innra með því og hvað það getur. mbl.is/Eyþór

„Raunveruleg færni markþjálfa felst ekki aðeins í því að kunna hugmynda- og aðferðafræði markþjálfunar heldur einnig og enn fremur í því að verða sú manneskja sem hefur lært að nýta eigin styrkleika og innsæi til að hjálpa öðrum að vaxa,“ segir Ingvar Jónsson framkvæmdastjóri Profectus sem býður meðal annars  upp á alþjóðlega vottað markþjálfanám sem hefur verið mjög vinsælt síðustu ár.

„Í lífinu er fólk yfirleitt alltaf að spyrja sig sömu spurninganna og fær þarafleiðandi yfirleitt sömu svörin. Svo eru spurningarnar sem fólk spyr sig yfirleitt neikvæðar sem kalla á neikvæð svör: „Af hverju get ég aldrei gert þetta rétt? Af hverju á ég ekki meiri pening?“ Staðreyndin er sú að af ótta við mistök, breytingar, höfnun eða jafnvel framúrskarandi árangur hefur fólk oft hvorki hugmyndaflug né hugrekki í að líta inn á við og spyrja sig uppbyggjandi eða jákvæðra spurninga sem gætu auðveldlega haft jákvæð og stefnumótandi áhrif á líf þess til frambúðar. Það er súrt en það er satt.“

Profectus býður upp á alþjóðlega vottað markþjálfanám sem hefur verið …
Profectus býður upp á alþjóðlega vottað markþjálfanám sem hefur verið mjög vinsælt síðustu ár. Ljósmynd/Aðsend

Hugrekki til að líta inn á við 

Þá segir Ingvar að það sé erfitt að horfast í augu við sjálfan sig og sérstaklega fyrir það fólk sem er staðnað eða hefur af einskærri meðvirkni staðið og fallið með ákvörðunum eða skoðunum annarra í lífinu. „Það þarf hugrekki til að líta inn á við og standa með eigin vilja, eigin löngunum og hugmyndum um sína eigin getu. Það eru alltof margir í kringum okkur sem við höfum leyft að kæfa hugmyndir okkar í fæðingu, draga úr okkur kjarkinn sem hefur leitt til þess að efinn, sú hugmyndasnauða og glataða tilfinning, dregur úr okkur allan kraft. Efasemdin um hvað maður getur í raun verður oftar en ekki til þess að við látum aldrei á það reyna.

Svo þetta er oft bara spurning um hvenær við verðum fullorðin. Hvenær tökum við þá ákvörðun að fara þangað sem við viljum fara, læra það sem við viljum læra, eignast það sem okkur langar að eignast og gera það sem við viljum gera. Það er ekki og á ekki að vera sjálfgefið að komast á þann stað en sú ákvörðun að leita til góðs markþjálfa er líklega ein besta leiðin til að komast að sannleikanum um hver maður er og vill verða. Á þeirri vegferð er stefnan ekki tekin í átt til fortíðar því markþjálfi lítur frekar með þér til framtíðar, hjálpar þér að horfast í augu við eigin vilja, getu og styrkleika og með það í huga hjálpar hann þér að finna leiðir til að brúa bilið á milli þess sem þú vilt að verði.“

Í markþjálfanáminu hjá Profectus er að mestu notuð myndræn framsetning …
Í markþjálfanáminu hjá Profectus er að mestu notuð myndræn framsetning í stað þess að nota kennsluglærur með texta. Ljósmynd/Aðsend

Að uppgötva sinn eigin styrk

Markþjálfanámið hjá Profectus er með ríka áherslu á að vinna með innri styrk og efla tilfinningagreind nemenda svo þeir séu færir um að valdefla aðra að námi loknu enda segir Ingvar að námið gangi lengra en hefðbundið markþjálfanám. Það sé kannski ekki síst þess vegna sem námið hefur verið svona vinsælt þau átta ár sem boðið hefur verið upp á það. „Við fylgjum í hvívetna leiðbeiningum og kröfulýsingum ICF (International Coaching Federation) um markþjálfanám en leggjum einnig ríka áherslu á persónulegan vöxt nemenda, sjálfsþekkingu þeirra og innsæi enda er það að okkar mati hinn trausti grunnur sem fagleg og árangursrík markþjálfun byggir á. Það sýnir sig líka að margt fólk sem kemur í námið er gagngert komið til að efla sjálft sig og lítur á námið sem persónulega hetjuför sem grunnnámið vissulega er.

Nemendur læra aðferða- og hugmyndafræði markþjálfunar í grunnnáminu en það er öllum nemendum einnig nauðsynlegt að fara sjálfir í gegnum það sjálfsskoðunarferli sem markþjálfun gengur að miklu leyti á. Þannig kynnast nemendur einnig á eigin skinni áhrifamætti þess sem þeir bjóða öðrum upp á að námi loknu. Því má alveg halda því á lofti að ferðalagið í gegnum markþjálfanámið er umbreytandi þar sem nemendur finna oft nýja sýn á lífið og eigin möguleika. Þeir uppgötva nýjar hliðar á sjálfum sér og finna styrk til að vaxa og þróast á þann hátt sem þeir höfðu kannski ekki áður trú á. Þetta ferli umbreytir ekki aðeins þeim sjálfum heldur einnig því hvernig þeir sjá aðra og heiminn í kringum sig,“ segir Ingvar sem kynntist markþjálfun fyrir 15 árum síðan.

„Þegar ég kynntist markþjálfun fyrst þá fann ég loksins minn farveg og minn tilgang í lífinu, og ég hafði leitað bæði lengi og víða, og það var því algjör vendipunktur í mínu lífi. Það sem heillaði mig mest er hvað þessi hugmyndafræði er heil og byggir að svo miklu leyti á eigin heilindum í eigin garð. Enda lít ég svo á að ég starfa ekki sem markþjálfi, ég er markþjálfi.

Hugmyndafræðin ríkir svo sterkt í mér því reynslan í mínu starfi hefur svo oft sýnt mér að nánast hver einn og einasti einstaklingur býr yfir svo miklu meiri hæfileikum, styrk og stefnufestu en hann hefur trú á sjálfur. Ég hef með tímanum öðlast óbilandi trú á getu fólks, sérstaklega þeirra sem verst eru staddir. Það fylgir því líka svo mikil gleði að fá að fylgja fólki sem er að uppgötva hvað býr innra með því, hvað það getur, hvað það þráir, hvað það kann og hvernig það vill að líf sitt verði til frambúðar. Það er það sem gefur mér mest og veitir mér innblástur á hverjum degi. Það er nefnilega svo mikið af fólki sem hefur bælt og barið niður drauma sína, bæði sjálft en óþarflega oft einnig með dyggri aðstoð annarra. Og þess vegna hef ég líka skrifað nokkrar bækur sem byggja allar á hugmyndafræði markþjálfunar, ég gerði það einfaldlega til að gefa fleirum tækifæri til að njóta sín.“

Ingvar tekur við viðurkenningu sem einn af 101 áhrifamestu markþjálfum …
Ingvar tekur við viðurkenningu sem einn af 101 áhrifamestu markþjálfum í heimi í Mumbai árið 2020. Ljósmynd/Aðsend

Það eina sem stöðvar þig ert þú

Ingvar talar um að það skiptir engu máli hvaðan við komum, eða hversu stefnulaust eða vonlaust lífið hefur verið. Það sé aldrei of seint að breyta um stefnu og elta drauma sína. Það þekkir hann persónulega. „Það eina sem stöðvar þig ert þú sjálfur því það er alltaf hægt að finna nýja möguleika ef maður hefur hugrekki til að loka dyrum.

Það er athyglisvert að ég heyri það frá mörgum nemendum að oft hefur það verið að velta fyrir sér í 2-3 ár að koma í námið. Þegar fólk hefur loksins fundið innra með sér það sem það vissi ekki að það ætti þá kemur spurningin: „Af hverju var ég ekki löngu búin að þessu.“ Kjarninn í markþjálfun er að skilja fortíðina eftir og taka eingöngu með sér það sem gagnast í nýjum áskorunum. Að marka sér nýja stefnu og láta ekkert stöðva sig,“ segir Ingvar.

Kanadíski listamaðurinn Jim Ridge hefur teiknað yfir 300 skýringamyndir sem …
Kanadíski listamaðurinn Jim Ridge hefur teiknað yfir 300 skýringamyndir sem notaðar eru í markþjálfanáminu hjá Profectus sem gerir námsefnið skýrara og skemmtilegra. Ljósmynd/Aðsend

Skýrt og aðgengilegt námsefni

Til að styðja við persónulega vegferð nemenda í markþjálfanámi Profectus hefur verið þróað kennslukerfi á netinu sem kallast Tankurinn en þar má finna meira en 100 kennslumyndbönd, fróðleiksgreinar, sjálfspróf, verkefni og aðrar gagnlegar upplýsingar sambærilegt við það sem gerist í bestu háskólum heims. Efnið er allt sérsniðið að markþjálfanáminu og nemendur geta nýtt þetta kennslukerfi til stuðnings og upprifjunar í heilt ár eftir að náminu lýkur sem gefur þeim einstakt tækifæri til að viðhalda og dýpka skilning sinn á hugmyndafræðinni auk þess sem það hjálpar þeim að vera ávallt vel undirbúnir í starfi sínu.

Þá segir Ingvar að eitt af því sem gerir markþjálfanámið hjá Profectus einstakt er sjónræn miðlun námsefnisins. „Við erum stolt af því að Jim Ridge, kanadískur listamaður og mikill vinur minn sem ég kynntist við sjálfboðastörf í Suður Afríku, hefur teiknað yfir 300 skýringamyndir, bæði fyrir bækurnar mínar, og einnig fyrir allt námsefnið. Við nýtum því að mestu myndræna framsetningu í stað þess að nota kennsluglærur með texta. Það gerir námsefnið skýrara og miklu skemmtilegra,“ segir Ingvar að lokum og vísar á heimasíðu Profectus fyrir frekari upplýsingar en heimasíðuna má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert