Þétt samstarf skiptir sköpum

Eyþór Árnason

Mannauðsteymi hafa um langt skeið verið burðarás í fyrirtækjum og skipta lykilmáli þegar kemur að því að ná markmiðum í rekstri. Þau gegna ekki aðeins hlutverki í ráðningum og þjálfun heldur eru þau einnig mikilvægur hlekkur í mótun stefnu, eflingu samkeppnishæfni og mótun menningar og liðsheildar innan fyrirtækja.

Stöndum við á tímamótum?

Það þarf ekki að horfa mörg ár aftur í tímann til að sjá atvinnulífið hefur þróast hratt að undanförnu, eflaust hraðar en við höfum áður séð, og bendir margt til að þetta sé rétt byrjunin.

Í dag erum við með fjórar kynslóðir á vinnumarkaði þar sem þögla kynslóðin er mestöll sest í helgan stein og Z-kynslóðin er að koma inn á vinnumarkaðinn eins og stormsveipur með nýjar væntingar og áherslur til vinnuveitenda. Tækniþróun er í sögulegu hámarki með tilkomu og útbreiðslu gervigreindar og spunagreindar (generative AI) sem opnar á endalaus tækifæri í hagnýtingu gagna og sjálfvirknivæðingu. Á sama tíma hafa tíðar sveiflur í efnahag víðsvegar um heiminn sett svip sinn á rekstur fyrirtækja. Fyrirtæki keppast við að aðlaga sig þessum nýja veruleika og hámarka þau tækifæri sem í þessu leynast. Þetta þýðir að fyrirtæki eru mörg hver að marka sér nýja stefnu og framtíðarsýn, endurskipuleggja starfsemi, auka skilvirkni og hagkvæmni í rekstri, auka sjálfvirknivæðingu, styrkja vörumerki og fleira mætti telja.

Breytingastjórnun

Markviss breytingastjórnun er nauðsynleg til að svona umfangsmiklar breytingar skili tilætluðum árangri, en mannauðsfólk gegnir þar lykilhlutverki. Það er í verkahring æðstu stjórnenda að taka ákvarðanir um stórar breytingar, en mannauðsteymið er í lykilhlutverki í að leggja upp „leikplanið“, hvernig eigi að fara úr nústöðu yfir í framtíðarstöðu á sem árangursríkastan hátt. Fyrirtæki sem sinna breytingastjórnun á árangursríkan hátt sjá ekki aðeins árangurinn í rekstri heldur einnig aukna starfsánægju, minni starfsmannaveltu og meiri framleiðni.

Þegar fyrirtæki takast á við áskoranir af þessari stærðargráðu gegnir mannauðsteymið lykilhlutverki í að leiða breytingarnar og tryggja að starfsfólk fái nauðsynlegan stuðning og þjálfun. Þau veita stuðning við aðlögun að nýjum verkferlum, tæknilausnum og starfsumhverfi, sem getur oft verið krefjandi og jafnvel ógnvekjandi fyrir starfsfólk. Það er í raun eðlilegt að starfsfólk upplifi óöryggi á tímum breytinga þar sem það þekkir vel stöðuna eins og hún var fyrir breytingar, og veit til hvers af því var ætlast, en er í óvissu um hlutverk sitt eftir breytingar. Þetta getur tekið sinn toll af fólki og því þarf að horfa sérstaklega til þessa í breytingum með því að styðja fólk og teymi í breytingunum þegar óvissan er sem mest, meðal annars með markvissri upplýsingagjöf.

Ímynd fyrirtækis í augum starfsfólks

Á sama tíma og fyrirtæki eru að fara í gegnum breytingar þarf að styrkja ímynd þeirra og samkeppnishæfni. Fyrirtæki eru í samkeppnisumhverfi, hvort sem það er samkeppni um viðskipti, um að halda í gott starfsfólk eða um að ráða til sín besta mögulega framtíðarstarfsfólkið sem býr yfir þeirri hæfni og þekkingu sem fyrirtækið þarf til að ná árangri. En þá þarf ímynd fyrirtækisins að vera sterk. Eitt lykilhugtak hér er vörumerki vinnustaðarins, eða „employer branding“ sem segir til um hver ímynd vinnustaðarins er og hversu eftirsóknarverður hann telst bæði innanhúss og utan.

Góð vinnustaðaímynd er afleiðing góðrar menningar, góðra vinnubragða og góðs utanumhalds um núverandi starfsfólk. Breytingastjórnun, ef faglega unnin, getur haft jákvæð áhrif á upplifun fólks af vinnustaðnum. Ef starfsfólk fær nægar upplýsingar til að skilja breytingar og ástæður þeirra, fær samtöl um breytingarnar, finnur fyrir þátttöku og fær tækifæri til að vaxa í gegnum breytingarnar getur það styrkt ímynd fyrirtækisins í augum starfsfólks. Stundum eru breytingar í fyrirtækjum þess eðlis að ólíklegt er að allt fólk líti breytingarnar jákvæðum augum eða sé tilbúið að skilja ástæður breytinganna. Störf eru jafnvel lögð niður og gerðir starfslokasamningar við starfsfólk. Í þeim aðstæðum reynir verulega á hversu vel er staðið að framkvæmd breytinga og hversu markviss vinnan er við að hjálpa fólki að sjá tækifæri í breytingunum, hvort sem það er tækifæri fyrir vinnustaðinn í heild eða persónuleg vaxtartækifæri og starfsþróun.

Náið samstarf við markaðsteymi

Markaðsteymi leggja grunninn að almennri ímynd fyrirtækis inn á við og út á við. Eins og fyrr segir geta breytingar innan fyrirtækis „ruggað bátnum“ og þá getur þétt samstarf markaðs- og mannauðsteymis skipt sköpum í að viðhalda jákvæðri ímynd fyrirtækisins meðan á breytingum stendur. Markaðsteymi hjálpa til við að miðla þeirri nýju stefnu sem fyrirtækið innleiðir með breytingunum en mannauðsteymi sjá til þess að starfsfólk fái þann stuðning sem það þarf til að aðlagast þeim.

Jafnvægi er lykillinn

Það finnst öllum erfitt að breyta, og breytingar í fyrirtækjum eru sjaldnast framkvæmdar að ástæðulausu. Breytingar geta verið tilkomnar af ýmsum ástæðum; af illri nauðsyn til að lifa af samkeppni, eða til að stökkva á spennandi tækifæri. Nú eru mörg fyrirtæki í þeirri stöðu að við þeim blasa stór tækifæri til að innleiða margs konar nýjungar, endurhugsa reksturinn, breyta störfum, auka sjálfvirknivæðingu og fleira. Það eru aftur á móti takmörk á því hversu umfangsmiklar breytingar hægt er að innleiða í einu án þess að það taki of mikinn toll af starfsfólkinu og trausti þess til fyrirtækisins. Það þarf því alltaf að finna eitthvert jafnvægi þarna á milli. Umfang breytinga þarf að vera innan þeirra marka að þær séu framkvæmdar vel, upplýsingagjöf sé snörp og tíð, og mannauðsteymi og stjórnendur hafi burði til að styðja við starfsfólk í breytingunum og í kjölfar þeirra. Mannauðsfólk er þarna í algjöru lykilhlutverki með sína sérfræðiþekkingu við að skipuleggja og framkvæma breytingar og stuðla að framþróun fyrirtækja.

Þau fyrirtæki sem átta sig á mikilvægi aðkomu mannauðsteyma á þessum miklu umbrotatímum eru þau fyrirtæki sem líklegust eru til að ekki bara lifa af heldur skara fram úr í atvinnulífinu.

Höfundar eru Adriana Pétursdóttir, formaður Mannauðs og framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Rio Tinto, og Helgi Héðinsson, meðstjórnandi í Mannauði og mannauðsleiðtogi hjá Orkuveitunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert