Brú milli starfsendurhæfingar og vinnumarkaðar

Atvinnutengingin er drifin áfram af öflugu teymi atvinnulífstengla, sem eru sérhæfðir í því að aðstoða fólk að komast aftur inn á vinnumarkaðinn. Þeir eru staðsettir á höfuðborgarsvæðinu en einnig á Suðurlandi, Norðurlandi og á Reykjanesi. Þessir sérfræðingar vinna í nánu samstarfi við ráðgjafa VIRK, einstaklinga sem eru að ljúka starfsendurhæfingu og atvinnulífið sjálft. Hlutverk atvinnulífstengla er fjölbreytt en þeir einbeita sér að því að aðstoða einstaklinga við allt sem kann að tengjast atvinnuleitinni.

Atvinnulífstenglar og fyrirtækin – mikilvægur
hlekkur í ráðningarferli

Atvinnulífstenglar eru ekki einungis bakhjarl einstaklinganna heldur einnig fyrirtækjanna sem þeir heimsækja reglulega til að mynda tengsl, kynna starfsemi atvinnutengingar og mögulegar lausnir varðandi ráðningar. Mikilvægt er að fyrirtæki taki þátt í þessu ferli þar sem þau gegna lykilhlutverki í því að skapa tækifæri fyrir einstaklinga sem oft eru í viðkvæmri stöðu. Með því að bjóða upp á hlutastörf og sveigjanleika í starfi geta fyrirtæki stuðlað að því að einstaklingar með skerta starfsgetu komist stigvaxandi inn í vinnumarkaðinn. Þannig skapar VIRK vettvang fyrir innleiðingu á inngildingu og fjölbreytileika í íslensku atvinnulífi, sem er stór hluti af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja í dag.

Mikilvægi þess að fjölga hlutastörfum

Sumir einstaklinganna í atvinnutengingu stefna á fullt starf að lokinni starfsendurhæfingu en aðrir setja stefnuna á hlutastarf. Hlutastörf og sveigjanleg vinnuskilyrði geta því verið lykilatriði fyrir fólk í atvinnutengingu. Að koma stigvaxandi inn í starf með þann sveigjanleika sem þarf getur skipt sköpum fyrir endurkomu á vinnumarkaðinn. Margir sem koma í gegnum atvinnutengingu VIRK hafa góða menntun, reynslu og þekkingu en þurfa að byrja rólega, með færri vinnustundum eða annarri aðlögun. Sveigjanleiki vinnustaða getur þannig haft gríðarleg áhrif á bata og starfsgetu einstaklingsins, auk þess sem það er mikilvægt fyrir fyrirtæki að fá starfsfólk sem er tilbúið að leggja sitt af mörkum. Að skapa tækifæri fyrir einstaklinga með breytilega starfsgetu er ekki bara ávinningur fyrir samfélagið allt og fyrirtækin í landinu heldur er það ekki síður mikilvægt fyrir efnahagslega þátttöku þeirra.

VIRKt fyrirtæki – Viðurkenning
fyrir frábært samstarf

Í dag eru um 500 fyrirtæki í virku samstarfi við atvinnutenginu VIRK, en eitt af mikilvægum verkefnum atvinnulífstengla VIRK er að vera í sambandi við fyrirtæki og kynna starfsemi VIRK. Það eru því mun fleiri fyrirtæki á skrá hjá VIRK og er mikil áhersla lögð á góð samskipti við þau. Eitt af því sem VIRK hefur komið á fót er viðurkenningin „VIRKt fyrirtæki“, sem er veitt árlega til þeirra fyrirtækja sem hafa sýnt framúrskarandi samstarf við atvinnutengingu VIRK. Þessi viðurkenning er ekki einungis tákn um gott samstarf heldur einnig hvatning til annarra fyrirtækja um að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni. Össur Iceland og Vista verkfræðistofa voru fyrst til að hljóta viðurkenninguna sem VIRKt fyrirtæki árið 2023 og Símstöðin og Hrafnista fengu viðurkenninguna árið 2024. Fyrirtæki sem fá þessa viðurkenningu hafa stutt einstaklinga til að komast aftur út á vinnumarkaðinn með góðum árangri.

Virkt samstarf fyrir sterkara atvinnulíf

Við hvetjum fyrirtæki til að hafa samband við atvinnutengingu VIRK þegar þau vantar nýja starfsmenn. Einstaklingar í atvinnutengingu hafa fjölbreytta menntun og reynslu, og eiga það sameiginlegt að vilja snúa aftur á vinnumarkaðinn – sterkari og viljugri en áður. Með sveigjanleika og samhentu átaki vinnum við saman að því að skapa heilbrigt og fjölbreytt atvinnulíf, þar sem hver og einn fær tækifæri til að blómstra.

Eyþór Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert