Framúrskarandi vinnuaðstaða starfsfólks er keppikeflið

mbl.is/Karítas

Framtíðarhúsnæði Landsvirkjunar á að vera sveigjanlegt, aðlaðandi og til fyrirmyndar hvað varðar vinnuvernd, inngildingu og vellíðan starfsfólks. „Hlutverk mitt er að vinna með starfsfólki Landsvirkjunar og ráðgjöfum að því að þróa og byggja upp framúrskarandi vinnuaðstöðu á starfsstöðvum okkar um allt land. Þar horfum við jöfnum höndum til vellíðanar, öryggis og inngildingar starfsfólks og langtímareksturs eigna félagsins,“ segir Guðrún Ingvarsdóttir, sem er verkefnisstjóri vinnuumhverfis hjá Landsvirkjun og starfar í teymi mannauðs og menningar.

Guðrún hefur starfað síðastliðin 25 ár sem arkitekt, verkefnastjóri og stjórnandi á einkamarkaði og fyrir hið opinbera. „Ég hef lengi haft brennandi áhuga á framþróun vinnuumhverfis, enda má segja að þar tvinnist saman hugmyndafræði hönnunar, stjórnunarfræði og farsæld mannauðs. Tæknibreytingar og umhverfismál eru að umbylta því hvar og hvernig þekkingarstörf eru unnin og við það skapast gríðarlega spennandi tækifæri til framþróunar vinnustaða og mannauðs. Rannsóknir á vinnuumhverfi og áhrifum þess á heilsu, líðan og árangur starfsfólks hafa stóraukist hin síðari ár og við höfum lagt áherslu á að nýta slíkar niðurstöður til stöðugra umbóta á vinnuumhverfi okkar.“

Risastórt verkefni að færa starfsemina

Eins og skýrt var frá í fréttum flutti starfsemi orkufyrirtækis þjóðarinnar úr höfuðstöðvunum við Háaleitisbraut á síðasta ári eftir að þar greindist mygla. „Stjórnendur hafa ávallt haft að leiðarljósi að taka enga áhættu með heilsufar fólks og því var farið strax í að flytja starfsemina,“ segir Guðrún. „Um 180 manns voru að störfum í höfuðstöðvunum og það var vissulega risastórt verkefni að færa starfsemina. En við lögðumst öll á eitt og eftir á að hyggja er eiginlega lygilegt hversu vel þetta gekk og hversu vel starfsfólkið tók þessum óvæntu breytingum. Það hefur þó mikið mætt á rekstrarsviðinu okkar, því samhliða flutningum var farið í stórtiltekt og allsherjar skipulagningu gagna og búnaðar frá fyrri árum.“

Guðrún Ingvarsdóttir segir tækifæri í breytingum.
Guðrún Ingvarsdóttir segir tækifæri í breytingum. mbl.is/Karítas

Guðrún segir að fyrst eftir að myglan kom upp hafi starfsfólk höfuðstöðvanna þurft að skipta sér í bráðabirgðaaðstöðu víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. „Árið 2023 einkenndist af flutningum í og úr bráðabirgðaaðstöðu og meginpart ársins rákum við starfsaðstöðu á þremur stöðum, í Grósku, við Hafnartorg og Höfðatorg. Nú erum við búin að koma okkur vel fyrir í stóra turninum í Katrínartúni, en það er vissulega tímabundið húsnæði. Við eyðum til dæmis miklum tíma í lyftu þessa dagana, þar sem við erum dreifð á nokkrar hæðir hússins. En það er reyndar ágætis leið til að kynnast nágrönnum okkar í húsinu!“

mbl.is/Karítas

Krísan er móðir tækifæranna

Skyndilegir flutningar eftir áskoranir covid voru sannarlega stórt verkefni fyrir öll hjá Landsvirkjun. „Reyndar má allt eins færa rök fyrir því að við höfum einmitt átt fremur auðvelt með þessar breytingar eftir allar áskoranir covid-tímans, hver veit? Að minnsta kosti reyndist þessi krísa vera móðir tækifæranna og með millilendingunni í Katrínartúni gafst okkur tækifæri til að marka skýrari sýn á kröfurnar sem við munum gera til framtíðarhúsnæðis.“

mbl.is/Karítas

Húsnæðið í Katrínartúni einkennist af opnum rýmum, en Guðrún segir að mikill meirihluti starfsfólk hafi starfað í opnum teymisrýmum á Háaleitisbrautinni svo að þar hafi engin grundvallarbreyting orðið við flutningana. „Mesta breytingin er að auk teymisrýmanna erum við nú með fjölda ólíkra stoðrýma sem við starfsfólkið nýtum í dagsins önn. Vinna í opnum vinnurýmum getur verið krefjandi en með ýmsum stuðningi og ólíkum stoðrýmum breytist algerlega upplifunin og virkni opinna rýma. Kaffitorgið okkar, Kaffi Krafla, og mötuneytið, Lónið Bistro, liggja bæði nálægt vinnusvæðum og eru nýtt á öllum tímum dags. Ekki bara fyrir rjúkandi kaffibollann og dásamlega matinn heldur einnig fyrir óformlega fundi og samveru. Þessi rými hafa þannig fengið víðtækari nýtingu en gamla mötuneytið á Háaleitisbrautinni og við sjáum gjarnan teymi og hópa eiga faglegar gæðastundir saman yfir góðum kaffibolla.“

mbl.is/Karítas

Fjölbreytt og hentug aðstaða

Við öll teymisrými er að finna næðis- og fundarklefa af ólíkum stærðum og gerðum en Landsvirkjun er einnig með stórt næðis- og einbeitingarrými með stórkostlegu útsýni á 17. hæð. „Auk þessa er breið flóra af fundarherbergjum og verkefnarýmum. Svo nýtur slökunarrýmið okkar mikilla vinsælda, en þar er aðstaða fyrir slökun og léttar æfingar auk nuddsætis. Það eiga því öll að geta fundið fjölbreytta og hentuga aðstöðu í dagsins önn.“

mbl.is/Karítas

Framtíðarhúsnæði Landsvirkjunar á að vera sveigjanlegt, aðlaðandi og til fyrirmyndar hvað varðar vinnuvernd, inngildingu og vellíðan starfsfólks, segir Guðrún. „Við höfum notað þennan millileik í Katrínartúninu til að prófa okkur áfram með ólíkar lausnir og erum skref fyrir skref að nálgast skýra sýn á framtíðina. Sjálfbærni og vistvænar áherslur munu svo marka brautina frekar. Það er gaman að upplifa þann mikla vilja og áhuga sem vinnustaðir setja á mikilvægi vinnurýma starfsfólks með tillitil til heilsu, vellíðanar, jafnréttis, inngildingar og rekstrarárangurs. Rannsóknir hafa sýnt að gott og uppbyggilegt vinnurými þar sem öll njóta sín og finna rými við hæfi getur skipt sköpum fyrir framlegð og árangur fyrirtækja. Ég er stolt af því að starfa hjá fyrirtæki sem fjárfestir í slíkri hugsun og vinnur ötullega að þessum málum,“ segir Guðrún Ingvarsdóttir, verkefnisstjóri vinnuumhverfis hjá Landsvirkjun.

mbl.is/Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert