Giggó – Fyrir allt sem gera þarf

Anna Katrín Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Alfreðs.
Anna Katrín Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Alfreðs. Morgunblaðið/Eggert

„Það er mikið að gera hjá okkur þessa dagana, þar sem við erum alltaf að þróa og betrumbæta þjónustu okkar,“ segir Anna Katrín Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Alfreðs og bætir við að það sé ekki tilviljun að Alfreð sé vinsælasti atvinnuleitarmiðill á Íslandi, bæði fyrir fólk og fyrirtæki.

„Við höfum verið að uppfæra ráðningarkerfið okkar til þess að auka gæði umsókna og auðvelda úrvinnslu þeirra. Það mun spara tíma fyrir atvinnurekendur og eykur hagræðingu fyrir umsækjendur. Með breytingum verður auðveldara að flokka umsækjendur eftir mikilvægum þáttum,“ segir Anna Katrín og bætir við: „Við höfum uppfyllt þarfir Íslendinga í leit að störfum og starfsfólki í meira en áratug. Aftur á móti var ekki til neitt sam­bærilegt fyrir íhlaupavinnu og verktakastörf og því ákváðum við að þróa Giggó.“

Giggó að verða mjög vinsælt

Giggó hefur farið mjög vel af stað. „Nú þegar eru 12 þúsund einstaklingar komnir með Giggó í símann sinn og 6.500 skráð sig sem giggara. Auglýstum verkefnum fjölgar með hverri vikunni sem líður,“ segir Anna Katrín og bætir við að gaman sé að fylgjast með nýju þjónustunni vaxa og dafna.

„Vefsíðan er í vinnslu en á næstunni verður einnig boðið upp á að auglýsa verkefni þar. Við sjáum ótal tækifæri til að auka þjónustu okkar við einyrkja, verktaka og sérfræðinga sem vinna sjálfstætt. Við erum þó fyrst og fremst að vinna í að búa til öruggan vettvang, að tengja saman verktaka og verkkaupa, á sem einfaldastan hátt,“ segir Anna Katrín.

Snjallforritið Giggó virkar þannig að notendur setja inn smáauglýsingu með stuttri verklýsingu. „Giggó sendir svo giggurum með samsvarandi merkingar skilaboð um nýtt gigg í boði. Þeir giggarar sem hafa tök og áhuga á að vinna verkið sækja um giggið,“ segir Anna og bætir við að auglýsandinn geti svo í rólegheitum farið í gegnum umsóknirnar, óskað eftir tilboðum og átt í samskiptum í gegnum forritið. „Þegar verkinu er lokið gefur auglýsandinn stjörnugjöf og umsögn fyrir þann er vann verkið. Þannig byggist smátt og smátt upp hópur „stjörnugiggara“ sem hægt er að treysta á.“

Giggó léttir undir með mannauðsfólki

Anna Katrín hvetur sérfræðinga í mannauðsdeildum fyrirtækja að skoða þessa nýju þjónustu Alfreðs. „Það koma upp ýmis verkefni sem eiga hvergi heima, eins og við flest þekkjum. Þessi verkefni enda oft á borðum starfsfólks í mannauðs­deildum. Sem dæmi um þetta má nefna árshátíð, aðra viðburði og margskonar smærri verkefni sem mikilvægt er að koma í farveg.

Þessi verkefni er hægt að manna með því að smella smáauglýsingu inni á Giggó. Segjum að það vanti ljósmyndara eða plötusnúð fyrir viðburð. Það er fljótlegt og einfalt að smella auglýsingu inn á Giggó og velja svo úr tilboðum frá efnilegum giggurum í forritinu,“ segir Anna Katrín.

Það er kappsmál fyrir starfsfólk Alfreðs að spara stjórnendum og mannauðsfólki tíma. „Við sjálf höfum verið að nýta okkur Giggó til að útvista tilfallandi verkefnum sem koma inn á borð til okkar hér. Það verður að segjast að forritið virkar mjög vel. Með aukinni notkun verður Giggó bara betra.“

Áður en Giggó kom til sögunnar voru margir að óska eftir aðstoð á Facebook. „Giggó gefur þér tækifæri til að takast á við málin í friði. Þegar þú auglýstir á Facebook vissir þú aldrei hver viðbrögðin yrðu og á hvaða forsendum fólk bauð fram aðstoð sína. Þar að auki viljum við ekki að allir séu með nefið ofan í þeim verkefnum sem við viljum útvista. Þegar þú nýtir þér Giggó þá þarftu ekki að láta nafn þitt koma fram fyrr en þú byrjar að semja við verktakann.“

Giggó leysir alls konar áskoranir

Anna Katrín segir mikinn kost að auglýsingin rati beint í Giggó-snjallforritið í símanum hjá þeim sem verið er að leita að. „Það þarf yfirleitt ekki að bíða lengi eftir tilboði. Með þessu móti verður þjónustan skilvirkari. Það hefur verið meira spurning um heppni að finna rétta fólkið þegar verkefni eru auglýst á samfélagsmiðlum. Við viljum búa til meira gegnsæi og stuðla að minna svindli. Eins getur þú valið að skipta einungis við fagfólk sem hefur auðkennt sig með rafrænum skilríkjum, sem stuðlar að öryggi um að viðkomandi sigli ekki undir fölsku flaggi.“

Þegar kemur að notendastýrðu gæðaeftirliti þá gegna stjörnur og umsagnir mikilvægu hlutverki. „Við erum nú þegar farin að sjá hvaða giggarar standa undir nafni og skila góðu verki,“ segir Anna Katrín.

Fjölbreytileiki auglýstra verkefna er mikill. „Það hefur komið okkur á óvart hversu ótrúlega fjölbreytt verkefnin eru. Eitt sinn var sem dæmi óskað eftir listmálara til þess að mála mynd af fjölskyldu. Ég hef rekist á aðra skemmtilega beiðni þegar erlendur auglýsandi óskaði eftir aðstoð við að þýða ljóð Tómasar Guðmundssonar. Einn notandi auglýsti eftir einkakennslu á hjólabretti fyrir níu ára dóttur sína. Ég gæti lengi haldið áfram að telja,“ segir Anna Katrín Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Alfreðs, sem hvetur alla gesti Mannauðsdagsins að koma við í bás Alfreðs og skoða Giggó betur. „Við verðum auk þess með óvæntar uppákomur og skemmtilegan gjafaleik sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert