Innihaldsríkt líf eftir starfslok

Thelma Hafþórsdóttir Byrd iðjuþjálfi segir ljóst að við starfslok upplifi …
Thelma Hafþórsdóttir Byrd iðjuþjálfi segir ljóst að við starfslok upplifi eintaklingurinn eina mestu breytingu sem hann verður fyrir á seinni hluta ævinnar. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Thelma Hafþórsdóttir Byrd iðjuþjálfi er sérfræðingur í vinnuvernd með áherslu á hreyfi- og stoðkerfi. Hún starfar hjá Vinnuvernd, sem er framsækið þjónustu- og ráðgjafarfyrirtæki sem stuðlar að heilbrigði einstaklinga og aukinni vellíðan á vinnustað.

„Hjá okkur starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfari og sálfræðingar. Auk þess leitum við til annarra sérfræðinga sem við erum í samstarfi við, þegar þörf krefur. Við leggjum metnað okkar í að veita sérhæfða læknis- og sálfræðiþjónustu til starfsmanna fyrirtækja ásamt því að sinna heilsufarsmati, bólusetningum, fræðslu og vinnustaðaúttektum svo eitthvað sé nefnt.

Við erum sífellt að þróa þjónustuleiðirnar okkar áfram. Þessa dagana vinnum við sem dæmi hörðum höndum að því að koma rafrænum fræðsluerindum í loftið,“ segir Thelma og hvetur öll til þess að skoða heimasíðu Vinnuverndar og sjá alla þá fjölbreyttu þjónustu sem þar er að finna.

Mikilvægt að undirbúa starfslok

Þegar kemur að vinsælum námskeiðum bendir Thelma á námskeiðið Nýtt líf eftir starfslok, sem hefur fengið frábærar undirtektir að undanförnu.

„Námskeiðið okkar um starfslok er tveggja daga námskeið, alls sjö klukkustundir að lengd. Á námskeiðinu fá þátttakendur námsefni og hafa aðgang að okkur í gegnum tölvupóst auk þess að hitta okkur á námskeiðinu. Markmið okkar er að aðstoða fólk við að undirbúa þær breytingar sem eiga sér stað við starfslok. Þannig fræðum við fólk um það sem þarf að hafa í huga þegar kemur að fjármálum en einnig um hlutverkabreytinguna sem verður, hreyfingu, næringu, tómstundir, markmiðasetningu og fleira.

Við starfslok upplifir einstaklingurinn eina mestu breytingu sem hann verður fyrir á seinni hluta ævinnar og við vitum að þeir þættir sem skipta hvað mestu máli þegar kemur að starfslokum eru efnahagurinn, heilsan og félagslegi þátturinn. Þess vegna reynum við að skoða alla þessa þætti í víðu samhengi, ekki einungis fjármálin,“ segir Thelma

Spurð um aldur þeirra sem mæta á námskeiðið segir hún: „Við beinum sjónum okkar að fólki sem er byrjað að velta fyrir sér starfslokum en við fáum líka fólk sem er þegar komið á eftirlaun. Það er sannarlega ekkert aldurslágmark. Sín vegna mælum við með því að fólk komi frekar fyrr en seinna, en við höfum einnig fengið jákvæða endurgjöf frá vinnuveitendum því oft eiga breytingar sér stað áður en að sjálfum starfslokum kemur,“ segir Thelma.

Tækifæri til að hitta aðra

Thelma sér um námskeiðið um starfslok og er bakgrunnur hennar sem iðjuþjálfi, sem og sérfræðiþekking hennar á vinnuvernd með áherslu á hreyfi- og stoðkerfi, dýrmæt reynsla sem hún miðlar áfram.

„Ég er einnig með einkaþjálfararéttindi en áður en ég byrjaði að vinna hjá Vinnuvernd vann ég með eldra fólki og ég hef saknað þess mikið. Ég greip því fegin tækifærið þegar mér var boðið að taka við þessum námskeiðum. Mín hægri hönd er Magnea Einarsdóttir, fyrrverandi skólastjóri. Hún gefur okkur almennar upplýsingar um fjármál og hvernig lífeyrissjóðir og almannatryggingar vinna saman en miðlar einnig sinni eigin reynslu þar sem hún er sjálf komin á eftirlaun. Höfundur námskeiðsins er Sigþrúður Guðmundsdóttir, eftirlaunakona og fyrrverandi mannauðstjóri. Við Magnea stöndum keikar á herðum hennar,“ segir Thelma.

Námskeiðið er kennt bæði sem fjarnámskeið en einnig á staðnum og mælir Thelma með því að mæta.

„Með því að mæta á staðinn myndast tenging við annað fólk og það skapast meiri umræða í kennslunni. Það gefur fólki einnig tækifæri til að hitta aðra, spegla sig og uppfræðast. En ef fólk á ekki heimangengt viljum við að sjálfsögðu frekar hitta fólk í netheimum en ekki. Námsefnið og aðgengið að okkur er það sama á báðum námskeiðum,“ segir hún.

Færri hlutverk – tími til að njóta

Hver eru tækifærin í lífinu þegar við ljúkum störfum?

„Það getur skipt miklu máli hvernig starfslok ber að. Hvort einstaklingurinn ákveður þau sjálfur eða hvort slys, veikindi eða jafnvel reglur innan fyrirtækja knýja hann til starfsloka. Viðmót til starfslokanna getur skipt máli en jafnvel þótt breytingarnar séu jákvæðar geta þær verið erfiðar og sumir syrgja það sem var.

Það fer auðvitað eftir stöðu hvers og eins og hvað fólk langar til að gera en við hvetjum fólk til að velta því fyrir sér hvaða hlutverk það á eftir að fá og langar til að sinna. Einhver kvíða einveru og þá er jafnvel hægt að vinna með það áður en fólk hættir að vinna. Það má gera með því að efla tengsl við vinnufélaga utan vinnu. Mörg hlakka til þess að fá meiri tíma á golfvellinum, með barnabörnunum eða að dvelja erlendis. Á seinni árum sjáum við fólk taka virkari þátt í tómstundum og hreyfingu. Við fögnum því, þar sem það er iðulega atriði sem fólk hefur þurft að setja til hliðar fyrr á ævinni þegar nær allur tíminn fór í að sinna vinnu, fjölskyldu og heimili,“ segir Thelma og bætir við:

„Margir nefna að tíminn líði hægar þegar þeir hafa færri hlutverk og þannig njóti þeir betur líðandi stundar. Mér þykir það svo falleg tilhugsun, því þetta er ekki spurning um magn heldur innihald. Ég hlakka í það minnsta til að njóta, ekki einungis þjóta – þegar að því kemur!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert