Valdið hefur færst frá fyrirtækjum sem eru í leit að starfsmönnum yfir til starfsfólksins. Framúrskarandi starfsfólk er vandlátt og það fyllir það drifkrafti að starfa hjá fyrirtæki sem veitir því innblástur. Þetta snýst ekki bara um launin, framúrskarandi starfsfólk vill starf sem það getur vaxið í hjá fyrirtæki sem deilir gildum með því. Fyrirtæki þurfa að selja sig sem stað þar sem framúrskarandi starfsfólk getur blómstrað,“ segir Ariel Giusti, alþjóðlegur markaðsráðgjafi með MBA-gráðu frá Háskólanum í Denver í Bandaríkjunum, en hann og Árvakur hafa tekið höndum saman í verkefninu Vinnustaðakynning þar sem fyrirtækjum er hjálpað að laða til sín rétta starfsfólkið. Árvakur framleiðir og kynnir myndskeið um fyrirtæki þar sem starfsfólk þess ræðir hvernig er að vinna hjá fyrirtækinu. Með lifandi frásögnum eru dregnir fram styrkleikar fyrirtækja í augum væntanlegra starfsmanna. Marksækni með markvissum herferðum á samfélagsmiðlum mbl.is er skýr og stöðug frásögn um fyrirtækið sem vörumerki.
Vinnustaðurinn sem vörumerki, eða employer branding á ensku, er hugtak sem var fyrst kynnt af breska markaðssérfræðingnum Simon Barrow árið 1996. Síðan þá hefur þetta hugtak hlotið stöðugt meiri athygli enda er samkeppnin um gott starfsfólk sífellt að harðna og bestu fyrirtækin skilja að góður mannauður er dýrmætur í hörðu samkeppnisumhverfi. Ariel talar um að markaðurinn um framúrskarandi starfsfólk sé svo harður að þetta snúist ekki lengur eingöngu um að manna lausar stöður. „Fyrirtæki vilja laða að sér fólk sem deilir með þeim gildum og passar inn í menningu þeirra. Með því að efla og styrkja vörumerkjavirði fyrirtækisins aðgreinir fyrirtækið sig frá öðrum fyrirtækjum á sama markaði sem og kynnir fyrirtækjamenningu sína. Með því er verið að byggja upp fyrirtækið sem og vörumerki sem fólk vill vera hluti af.“
Þá segir Ariel að sterkt vörumerki laði ekki eingöngu að sér framúrskarandi starfsfólk heldur auðgi það vörumerkið og geri það persónulegra. „Þegar starfsfólk tileinkar sér gildi fyrirtækisins verður það áreiðanlegir talsmenn vörumerkisins sem tengir ímynd fyrirtækisins við reynslu neytandans. Sögur og reynsla starfsmanna dýpkar vörumerkið og þá er auðveldara að samsama sig því auk þess sem það eykur traust. Neytendur laðast að vörumerkjum sem sýna fólkið á bak við fyrirtækið og það skapar persónulegri tengsl sem er mikils virði á markaði þar sem valmöguleikarnir eru margir.“
Inntur eftir því hvort Vinnustaðakynning sé nauðsynleg á Íslandi þar sem allir þekkja alla segir Ariel að það sé ekkert síður þörf á góðu vörumerkjavirði á litlu markaðssvæði. „Þó markaðurinn sé lítill og allir þekki alla þá þurfa fyrirtæki að ná stjórn á orðspori sínu. Kunnugleiki þýðir ekki alltaf að fólk þekki gildi fyrirtækisins eða viti af hverju það ætti að vinna fyrir fyrirtækið. Vinnustaðakynning aðgreinir fyrirtækið frá öðrum og sýnir fyrirtækið sem fyrsta valkost fyrir framúrskarandi starfsmenn. Öll fyrirtæki vilja laða að og halda framúrskarandi starfsmönnum en fæstum tekst að auglýsa vörumerki sitt nægilega vel. Lausnin er Vinnustaðakynning sem hjálpar fyrirtækjum að byggja upp vörumerkjavirði sitt, sama hversu stór þau eru. Með því fá fyrirtæki sýnileika, trúverðugleika og sterkt vörumerki.
Með því að varpa ljósi á einstaka menningu sína og gildi laða fyrirtæki ekki bara að sér fleiri umsækjendur heldur réttu umsækjendurna, fólk sem vill starfa lengi hjá fyrirtækinu og leggja sitt af mörkum til að fyrirtækið nái árangri.“