Skemmtilegur og traustur vinnustaður

„Ég hef fylgt Símanum í gegnum viðburðaríka tíma og umfangsmiklar breytingar á undanförnum árum. Samstæðan taldi yfir tíu félög þegar mest var og var starfsmannafjöldi nálægt þúsund. Á þessum tíma hafa félög verið sameinuð og önnur félög seld, auk þess sem Síminn var skráður á markað. Í dag er staðan sú að við erum talsvert léttara fyrirtæki með einfaldara skipulag og um það bil þrjú hundruð starfsmenn,“ segir Ragna Margrét Norðdahl mannauðsstjóri Símans.

Ragna er klínískur sálfræðingur að mennt og segir hún áhugann á mannauðsmálum hafa kviknað þegar hún hóf að kynna sér fyrirtækjamenningu í Cand. Psych-framhaldsnáminu. „Ég hélt áfram að fara ofan í kjölinn á fyrirtækjamenningu nýverið í MBA-námi þar sem ég lagði áherslu á fyrirtækjamenningu á stafrænum tímum.“

Spurð hvað hafi helst fangað athygli hennar í þessu samhengi segir hún: „Fyrirtækjamenning er ósýnilegt hreyfiafl sem stýrir ekki aðeins ánægju og líðan starfsfólks, heldur hefur einnig mikil áhrif á árangur fyrirtækja. Með jákvæðri menningu eykst starfsánægja, helgun og hollusta. Starfsfólk finnur fyrir stuðningi og að við séum öll í þessu saman. Ef menningin er neikvæð veldur það streitu, minni ánægju, aukinni starfsmannaveltu og minni afköstum, sem á endanum dregur úr árangri fyrirtækisins. Lykilatriðin í góðri menningu eru traust, sálfræðilegt öryggi, uppbyggileg samskipti og endurgjöf, virk upplýsingagjöf, sveigjanleiki, sterk liðsheild, tækifæri til vaxtar og svo mætti lengi telja,“ segir hún.

Neikvæð menning verður til þegar það sem Ragna hefur talið upp hér fær ekki athygli og tíma. „Þegar deildir og svið innan fyrirtækja eru aðskilin og lítil samstilling eða samstarf er á milli þeirra. Það er oft sagt að fyrirtækjamenning borði stefnu fyrirtækja í morgunmat, og það er margt til í því. Menningin er ósýnileg en algjört lykilatriði í að starfsfólk gangi saman í takt í þeirri vegferð að vinnustaðnum gangi sem best, í öllum skilningi. Menning fyrirtækja er ekki tilviljun, hún er búin til og því þarf að tryggja að hún þróist í takt við markmið fyrirtækja á hverjum tíma,“ segir Ragna og bætir við að ein helsta áskorun nútímans sé stafræn umbreyting og áhrif hennar. „Aðaláhrif hennar eru á vinnulag sem hefur verið óbreytt mjög lengi. Fjarvinnan, aukin ferlavæðing, gervigreindin og fleira hefur áhrif á vinnustaðarmenninguna og því þurfa fyrirtæki að fylgjast vel með áhrifum þessa á menninguna og vinnulag.“

Ragna Margrét Norðdahl mannauðsstjóri Símans er klínískur sálfræðingur að mennt. …
Ragna Margrét Norðdahl mannauðsstjóri Símans er klínískur sálfræðingur að mennt. Hún er einnig með meistaragráðu í stjórnun (MBA). mbl.is/Aðsend

Öflug þjónustumenning

Síminn á sér langa sögu sem er samofin sögu þjóðarinnar. „Við erum 118 ára og samkvæmt öllum mælingum nýtur Síminn mikils trausts. Þetta traust er áunnið og mikilvægt að við tökum réttar ákvarðanir í öllu sem við gerum, til að halda því trausti. Við erum sterkt þjónustufyrirtæki á sviði fjarskipta og afþreyingar og höfum yfir að ráða mjög öflugu starfsfólki í geira þar sem ríkir mjög virk og hörð samkeppni. Síminn hefur breyst mikið í áranna rás og ekki síst á síðustu árum. Míla er sem dæmi ekki lengur hluti af okkur og það sama má segja um fleiri minni félög sem hafa verið seld síðustu ár. Við slíkar breytingar hafa stefna og hlutverk okkar orðið skýrari,“ segir Ragna.

Þegar kemur að tæknibreytingum lætur Síminn ekki sitt eftir liggja. „Við erum alltaf á fleygiferð. Uppbygging á 5G- og 4G-kerfinu okkar er sem dæmi alltaf fyrirferðarmikil. Farsímakerfið okkar var valið það besta á landinu nýverið af óháðum aðilum. Við erum í sífelldum umbreytingar- og gæðaverkefnum sem bæði snúa að því hvernig við gerum hlutina innanhúss og hvernig við auðveldum viðskiptavinum lífið. Má þar nefna sem dæmi sjálfsafgreiðslu og betri upplifun,“ segir Ragna og bætir við að Sjónvarp Símans sé nú orðið að stærstu efnisveitu landsins. „Sem var fjarlægt markmið þegar Skjárinn fór inn í Símann fyrir margt löngu. Þannig höfum við fengið tækifæri til að huga meira að afþreyingu í stað aðeins fjarskipta. Þjónusta við viðskiptavini breytist einnig þegar afþreying er orðin stór þáttur í starfsemi okkar en fjarskiptatækni og sjónvarp eru ólík í eðli sínu.“

Þegar kemur að áherslu í mannauðsmálum segir Ragna mannauðinn lykilþátt í árangri fyrirtækja. „Mannauðsstjórar vinna náið með öllum rekstrarstoðum fyrirtækisins til að tryggja að áherslur í mannauðsmálum séu samræmdar markmiðum þeirra. Mannauðurinn er einn af lykilþáttunum sem hafa bein áhrif á árangurinn og mannauðsstjórar þurfa því að skilja markmið fyrirtækisins til að tryggja að þættir eins og áherslur í ráðningum, þjálfun og skipulagi fyrirtækisins styðji við markmiðin hverju sinni. Af þeim sökum eru áherslur Símans í mannauðsmálum breytilegar en áherslur okkar næstu misserin munu snúa að því að byggja upp öfluga þjónustumenningu innan Símans, bæði til viðskiptavina og inn á við. Aukin áhersla á þjónustumenningu mun hafa áhrif á það hvers konar störf við ráðum í, hvernig við háttum þjálfun starfsfólks og innri markaðssetningu og hvernig við vinnum saman.“

Fjórar kynslóðir Símafólks

Síminn var fyrst fjarskiptafyrirtækja til að hljóta jafnlaunavottun. „Við höfum farið í gegnum úttektir vegna hennar ár hvert og fengið hrós fyrir það hvernig við höldum utan um þessi mál. Síðustu ár hefur aukin áhersla verið á fjölbreytileika, jafnrétti og inngildingu, sem mun án efa verða enn stærri þáttur í mannauðsmálum. Rannsóknir benda til þess að fjölbreyttari teymi nálgist verkefni og vandamál með öðrum hætti sem styður við hugmynda- og nýsköpun,“ segir Ragna og talar um að hjá Símanum starfi fólk á öllum aldri. „Hér mætast kynslóðir í orðsins fyllstu merkingu og erum við nú með fjórar kynslóðir í vinnu á aldrinum 18 ára og upp í 70 ára. Eins er gaman að geta þess að hér vinnur einnig fólk sem er önnur og þriðja kynslóð Símafólks. Við erum lánsöm að búa yfir mikilli reynslu og þekkingu þeirra sem hafa fylgt okkur í áratugi en á sama tíma höfum við verið heppin með að vera eftirsóttur vinnustaður og því er mikilvægt að ráða inn nýtt ungt fólk, með ferskar hugmyndir og þekkingu sem víkkar út sjóndeildarhring okkar. Það er mikill styrkur sem felst í því að hafa fjölbreyttan mannauð og höfum við reynt að leggja okkur fram í því,“ segir Ragna og bætir við að ekki megi horfa framhjá þeim verkefnum sem verða til í slíku umhverfi. „Fólk á mismunandi aldri með ólíkan bakgrunn hefur mismunandi væntingar og þarfir. Hver kynslóð hefur sín sérkenni, væntingar og gildi og því er mikilvægt að stjórnendur hjá okkur átti sig á þeim og geti þannig hagað endurgjöf, samskiptum og stjórnun eftir því.“

Það sem einkennir Símann er sterk liðsheild og góður andi. „Það höfum við náð að byggja upp með fólki á mismunandi aldri og með ólíkan bakgrunn. Kostirnir eru að félagslífið verður fjölbreytt og vinnudagurinn brotinn upp til að hittast og hafa gaman.“

Þó að samskipti innan Símans eigi sér stað að hluta til í gegnum hefðbundin kerfi á borð við Teams og Workplace er hvatt til þess að fólk myndi tengsl og tali hvert við annað. Umhverfið styður við það. „Kaffigarðurinn okkar er hjartað í Símanum þar sem fólk kemur saman og fær sér gott kaffi eða léttar veitingar. Þar byrja mörg daginn á einum bolla og engiferskoti og heilsa upp á hvert annað. Kaffigarðurinn er einnig mikið notaður í stutta óformlega fundi eða bara í almennt spjall sem brýtur upp daginn. Eins má nefna mötuneytið okkar þar sem við höfum fyrrverandi landsliðskokka sem elda frábæran, fjölbreyttan mat í hádeginu. Að hafa einn stað í hádeginu til að hittast hjálpar til við samheldnina því flestir kjósa að borða með okkur í stað þess að skjótast út í hádeginu. Matreiðslumenn Símans eru hjálpsamir við að svara spurningum starfsfólks og gefa uppskriftir og góð ráð. Þeir hafa haldið námskeið fyrir okkur um súrdeigsbakstur og galdra sous vide-tækja svo dæmi séu tekin.“

Tæknin mikilvæg en kemur aldrei í stað mennskunnar

Það er auðheyrt að margir hlutir þurfa að koma saman til að mynda menninguna í Símanum, sem einkennist af gleði og sameiginlegu trausti eins og Ragna lýsir svo vel. „Við erum saman í þessu og flest okkar hafa sterkt, blátt „Símahjarta“. Okkur er annt um Símann og viljum í sameiningu ná árangri fyrir hann. Við getum hlaupið hratt og unnið vel sem teymi en einnig stoppað þegar efni standa til, náð áttum og tekið upplýstar ákvarðanir. Ég trúi því að starfsaldur hjá Símanum sé langur því hér er gott að vinna og starfsfólkið fær að njóta sín. Gott dæmi um þetta er þegar starfsfólk Símans fer í önnur störf eða frekara nám en kemur svo aftur, þar sem það saknar fyrirtækisins því það er svo gaman að vera hér. Í gegnum árin höfum við eins lagt mikið upp úr starfsþróun og að fólk geti vaxið með Símanum. Margt starfsfólk hefur unnið sig upp í ábyrgðarstöður eftir að hafa byrjað í einhverju sem átti kannski að vera tímabundin vinna milli skólastiga eða eitthvað álíka.“

Þegar kemur að framtíðarmálum mannauðsgeirans svarar Ragna snögg upp á lagið: „Samþætting á nýrri tækni, fjölbreyttari teymi og nánara samstarf, meiri sveigjanleiki og vellíðan starfsfólks er það sem kemur fyrst upp í huga minn. Gervigreind og gagnagreining munu eflaust hafa mikil áhrif á stjórnun mannauðsmála til framtíðar. Öll þessi nýja og spennandi tækni mun hjálpa mannauðsdeildum að greina stór gagnasöfn til að finna til dæmis réttu hæfileikana, búa til persónusniðið fræðslu- og þjálfunarefni, að bæta ráðningarferli, meta árangur og jafnvel spá fyrir um vinnutengda hegðun. Aukin sjálfvirknivæðing mun svo vonandi taka yfir endurtekin verkefni eins og launavinnslu og umsóknarferli og þannig geta mannauðsteymin í auknum mæli einbeitt sér að stefnumótandi verkefnum.

Með allri þessari nýju tækni þarf líka að huga vel að sí- og endurmenntun, þar sem hún er enn mikilvægari nú sem fyrr þegar fyrirtæki og starfsfólk þurfa að fóta sig í nýjum veruleika sem keyrður verður áfram af gervigreind að einhverju leyti. Fyrirtæki munu þurfa að fjárfesta enn frekar í þjálfun starfsfólks að búa yfir þeirri hæfni sem nýja tæknin krefst, sérstaklega í störfum sem þróast hratt. Mannauðsteymi þurfa einnig að huga í enn meiri mæli að öryggi gagna og persónuvernd og að notkun allra þessara gagna sé í samræmi við lög. Mannauðsfólk framtíðarinnar mun því þurfa að beisla krafta nýrrar tækni en það má aldrei gleyma mikilvægi mannlegra samskipta, samkenndar og að huga að andlegri líðan starfsfólks,“ segir Ragna Margrét Norðdahl mannauðsstjóri Símans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert