„Það eiga flestir nóg af öllu. Það er því tilvalið að gefa upplifun og leyfa viðkomandi að búa til dýrmætar minningar með fólkinu sínu,“ segir Hrönn Bjarnadóttir, sölu- og markaðsstjóri Óskaskríns, en það eru gjafakort þar sem hægt er að velja úr fjölmörgum upplifunum. „Óskaskrín eru mjög vinsæl gjöf, jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Þetta er í raun hin fullkomna gjöf, frábær fyrir þann sem á allt og svo er bara ótrúlega dýrmætt að gefa fólki upplifun. Óskaskrín eru mjög vinsæl gjafavara allt árið um kring og eitthvað sem hentar fyrir alla. Svo erum við með Óskaskrín á mjög breiðu verðbili og með ólíkum áherslum svo þetta hentar við öll tilefni, stór og smá.“
Aðspurð hvaða Óskaskrín séu vinsælust segir Hrönn að Bröns fyrir tvo sé langvinsælast. „Svo eru almennu Óskaskrínin okkar flest mjög vinsæl eins og Gourmet, Glaðningur, Dekurstund, Rómantík og Lúxus Bröns. Við seljum um 20 mismunandi tegundir af almennum Óskaskrínum á breiðu verðbili, 2.900 krónur og upp í 73.000 krónur. Nýjustu skrínin okkar eru Óskaskrín sem eru eingöngu seld rafrænt á heimasíðunni okkar og eru á mjög góðu verði. Þetta eru Pizza Pizza, Ís-fjör, Kaffi & Kruðerí og Skál,“ segir Hrönn og tekur fram að það sé líka hægt að fá önnur Óskaskrín rafrænt.
„Fyrir tveimur árum byrjuðum við að selja öll Óskaskrínin líka rafrænt. Við sáum að það var komin ákveðin krafa á það, bæði út frá umhverfissjónarmiðum og eins er þetta frábær þjónusta fyrir þá sem vantar gjöf á síðustu stundu. Það er lítið mál að kaupa eitt Óskaskrín á leiðinni í veisluna. Rafræn Óskaskrín hafa verið mjög vinsæl og vinsældirnar eru alltaf að aukast.“
Þá talar Hrönn um að fyrirtæki og stofnanir noti Óskaskrín mikið sem gjafir til starfsmanna, gjafir til viðskiptavina og sem þakklætisvott við hin ýmsu tilefni. „Það getur verið mjög erfitt að velja gjöf sem allir eru ánægðir með fyrir stóran og fjölbreyttan starfsmannahóp og því er Óskaskrín tilvalin gjöf þar sem þú gefur starfsfólki tugi ólíkra og fjölbreyttra upplifana til að velja úr, í sama gjafabréfinu. Við erum með sex týpur af sérhönnuðum fyrirtækjapökkum þar sem við erum með fleiri og fjölbreyttari upplifanir svo allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Þessi Óskaskrín er hægt að sérmerkja með persónulegri kveðju og vörumerki fyrirtækisins,“ segir Hrönn og bætir við að vitanlega sé hægt að fá öll gjafakortin rafræn til að setja í veskið í farsímanum.
„Eins getum við sérmerkt rafrænu gjafakortin. Með rafrænu gjafakortunum sem fyrirtæki kaupa gjarnan fær hver starfsmaður smáskilaboð með persónulegri kveðju og tengil á gjafakortið. Þetta er mjög sniðug lausn í stórum fyrirtækjum með mörgum starfsstöðvum því þetta einfaldar afhendingu á gjöfinni.“
Óskaskrín er í samstarfi við yfir 130 samstarfsaðila og Hrönn talar um að lögð sé mikil áhersla á að bjóða upp á fjölbreyttar, vandaðar og ólíkar upplifanir fyrir viðskiptavini. „Okkar samstarfsaðilar eru um allt land og við reynum að vera með sem flesta valmöguleika í öllum landshlutum. Til þess að það sé mögulegt erum við í stöðugri vöruþróun og alltaf að hugsa um möguleika til að bæta við vöruúrvalið okkar. Við reynum að vera með sem mesta fjölbreytni á sem breiðasta verðbilinu svo þetta henti fyrir öll tækifæri.“