„Bókmenntirnar eru undirstaða íslenskrar menningar. Þær fylla okkur stolti, næra okkur og kæta en hugga líka þegar svo ber undir. Bókaútgefendur á þessu litla málsvæði sem Ísland er eiga heiður skilinn fyrir hugrekki sitt og úthald. Þeir eru útverðir íslenskrar tungu,“ segir Bryndís Loftsdóttir framkvæmdastjóri Félags íslenskra bókaútgefenda sem heldur Bókahátíðina í Hörpu tónlistarhúsi allra landsmanna um helgina. „Á Bókahátíðinni gefst tækifæri til að hitta þá sem starfa við bókaútgáfuna, útgefendur, rithöfunda, myndhöfunda, þýðendur og aðra lesendur. Hægt verður að hlusta á upplestra rithöfundanna sem eiga bók í flóðinu í ár. Ég hlakka líka til að láta spá fyrir mér og komast að því hvaða bækur ég fæ í jólagjöf og hvort það verði ekki hvít jól,“ segir Bryndís og vísar í Tarot-lestur sem verður í boði bókaútgáfnanna Sölku og Bókabeitunnar á hátíðinni.
Bryndís segir flesta rithöfunda njóta þess að vera í samskiptum við lesendur sína. „Það getur oft verið gaman að verða vitni að því þegar börnin fá að taka í höndina á sínum uppáhaldshöfundi.“
Sjálf las Bryndís allt sem hún komst í þegar hún var barn. „Teiknimyndasögur voru í miklu uppáhaldi, til dæmis bækurnar um Tinna, Ástrík og Lukku Láka. Ég á tvo eldri bræður svo ég las Grím grallara og Frank og Jóa en líka Nancy-bækurnar. Ætli uppáhaldshöfundurinn minn hafi ekki verið Daninn Ole Lund Kirkegaard. Mig langaði að slæpast með Gúmmi-Tarzan, Albert og Fúsa froskagleypi, borða með þeim plómur og klifra í trjám.“
Það er mikil gróska í íslenskri bókaútgáfu um þessar mundir. „Fjöldi nýrra rithöfunda gefur nú út sína fyrstu skáldsögu. Íslenskir bókaunnendur eiga vafalítið eftir að taka þeim opnum örmum, enda áhugavert að fá að heyra nýjar raddir. Á Bókahátíðinni um helgina sem er sannarlega upphafið af jólabókaflóðinu, verða til að mynda þau Birgitta Haukdal, Bergrún Íris, Áslaug Jónsdóttir, Ævar Þór Benediktsson, Gunnar Helgason og Kristín Helga Gunnardóttir sem öll eiga sér fjölda lesenda.“
Bryndís er ekki í nokkrum vafa um jákvæð áhrif þess að lesa fyrir börn. „Í öllu því ati sem einkennir líf okkar verður sífellt mikilvægara að verja saman gæðastund yfir bók. Góð saga róar hugann, eykur samkennd og lýkur upp heimum sem annars væru okkur lokaðir. Bóklestur hefur í raun aldrei verið jafn mikilvægur og einmitt nú. Lestur styrkir sjálfsmyndina og skerpir gagnrýna hugsun. Lestur hefur góð áhrif á færni í öðrum námsgreinum, þar á meðal stærðfræði auk þess sem lestur krefst athygli og eflir einbeitingu og eftirtekt.“
Allir sem hlustað hafa á góða sögu þekkja værðina sem kemur oft yfir mann. „Aðrar sögur vekja síðan hlátur og þá er gaman að ræða upplifunina við aðra og finna jafnvel nýja fleti á sögunni,“ segir Bryndís.
Hvaða bækur eru góðar fyrir sálina um jólin?
„Fátt er jafn gott fyrir sálarlífið og ljóðið. Íslendingar eiga mörg góð ljóðskáld svo það er úr fjölda góðra ljóðabóka að velja. Við erum í góðum málum,“ segir Bryndís og bætir við að Bakað með Láru og Ljónsa eftir Haukdalssysturnar Birgittu og Sylvíu sé svo bók sem búast má við að gefi orku um jólin.
„Fyrst þarf að baka, síðan að borða og ekki að efa að sykurinn og rjóminn fylli okkur orku. Stóra brauðtertubókin ætti síðan að vera til á hverju heimili. Hún er stórviðburður í íslenskri matreiðslubókasögu og hálffurðulegt að hún sé nú fyrst að líta dagsins ljós. Ekkert sameinar þjóðina betur en bísperrtar rækjur og majónes á hvítu brauði.“
Aðspurð um vinsældir íslenskra rithöfunda um víða veröld nefnir Bryndís nokkur atriði. „Íslenskir höfundar hafa vissulega einstaka rödd og hér er löng bókmenntahefð svo engum bregður í brún þótt ung manneskja vilji gerast rithöfundur. Fyrir því ríkir skilningur. Listamannalaunin hafa líka búið höfundum starfsskilyrði svo þeir geti sinnt starfi sínu. Æfingin skapar jú meistarann.“
Hvað viltu segja við þá sem ganga með bók í maganum?
„Verið eftirtektarsöm, skráið hjá ykkur allt það sem vekur athygli ykkar og hefjist síðan handa við að skrifa bókina sem ykkur hefur alltaf fundist vanta. Grunnurinn að öllum skrifum er þó alltaf sá að hafa lesið sem allra allra mest,“ segir Bryndís og brosir.
Bryndís segir íslenska bókaútgefendur jafn ólíka og þeir eru margir. „Allir eiga þeir sér þó þann sameiginlega draum að vilja veg bókarinnar sem mestan.“
Bókatíðindi ársins 2024 eru komin á vefinn en dreifing prentútgáfunnar hefst á Bókahátíðinni í Hörpu. Auk þess liggur blaðið frammi á bóksölustöðum og bókasöfnum um allt land. Á vefnum getur að líta útgáfu tímaritsins allt frá árinu 2010 og allir árgangarnir eru á tímarit.is.
Tímarnir breytast og það sama má vissulega segja um bókmenntirnar. „Glæpasagnahefðin hefur fest sig rækilega í sessi og fáir geta hugsað sér jólin án þess að lesa spennandi krimma sem uppfyllir draum okkar allra um að réttlætið sigri að lokum. Ástin hefur líka orðið fyrirferðarmeiri í þýðingum jafnt sem íslenskum skáldverkum. Það er gaman að fylgjast með þeirri þróun því auk réttlætis dreymir jú flesta líka um hina einu sönnu ást.“
Bryndís hvetur alla til að mæta í Hörpu um helgina. „Til að sýna sig og sjá aðra, skoða góssið sem jólabókaflóðið hefur skolað á land, strjúka yfir bókarkápurnar og láta sig dreyma um bók að lesa á jólanótt. Ég mæli með nýjum bókum á öll náttborð! Tendrum lesljósin!“