„Veislubakkarnir okkar eru frábær lausn fyrir þá sem vilja ódýra og góða vöru fyrir fundi, veislur eða hvað sem er. Og það er hægt að panta þá með einungis dagsfyrirvara,“ segir Ágústa Líney Ragnarsdóttir hjá sölu- og markaðsdeild Sóma.
„Bakkarnir eru alltaf ferskir og eru gerðir að morgni, rétt áður en við opnum. Það nýjasta hjá okkur í veislubökkunum eru miniborgarar en við bjóðum upp á bæði kjúklingaborgarabakka og pulled pork bakka. Þetta er alveg að slá í gegn hjá okkur og eru vinsælustu bakkarnir okkar í dag. Svo eru reyndar sætu bakkarnir okkar mjög vinsælir líka en fólk vill oft bjóða upp á mat, ávexti og sætan bita. Við erum með tvær tegundur af sætum bökkum, annar er með kökum og hinn bakkinn er með bollum og litlum sætum bitum.“
Þá talar Ágústa um að það sem meðal annars geri veislubakkana vinsæla sé hversu auðvelt er að nálgast bakkana. Bæði sé hægt að sækja bakkana í Sóma og svo sé hægt að fá heimsendingu. „Eins er hægt að sækja bakkana í Pikkoló stöð sem er opin allan sólarhringinn. Þetta eru nýjar stöðvar en fullkomin lausn fyrir svona. Við sendum bakkana í Pikkoló stöð og viðskiptavinurinn fær QR kóða og getur sótt sendinguna hvenær sem er sólarhringsins. Við erum mjög ánægð með þessar stöðvar enda frábær lausn fyrir þá sem vilja vöruna en geta ekki nýtt sér heimsendingu eða sótt bakkana.“
Sómi var stofnað árið 1978 og fyrirtækið er því 46 ára gamalt. Í upphafi var Sómi eingöngu með hamborgara. „Þá var allt gert á staðnum, hamborgarinn var eldaður og settur saman og svo þegar það var búið fór sama fólkið og keyrði út hamborgarann. Það hefur því ansi mikið breyst og vörurnar okkar eru vitanlega orðnar mun fleiri. Fljótlega eftir stofnun fórum við að gera samlokur og fleira en þá var markaðurinn farinn að kalla eftir því. Þá byrjuðum við með klassísku samlokurnar eins og roastbeef, rækjusalat og hangikjötssamlokuna,“ segir Ágústa og bætir við að Sómi leggi verulega mikinn metnað í vöruþróun.
„Það er hópur starfsmanna hjá okkur sem er aðallega í vöruþróun. Við bæði fáum hugmyndir sjálf, svo hlustum við á viðskiptavinina sem og fylgjum líka þróun samfélagsins. Við fylgjumst vel með því hvað markaðurinn kallar eftir og reynum að vera með tvær til þrjár nýjungar á ári en þær virka vitanlega ekki alltaf. Og sama með hugmyndirnar sem við fáum, við framkvæmum kannski bara eina af hverjum tíu hugmyndum sem við fáum.“
Aðspurð hvað sé vinsælast hjá fyrirtækinu fyrir utan veislubakkana segir Ágústa að klassísku samlokurnar séu alltaf vinsælastar. „Það er þá meðal annars roastbeef og rækjusamlokurnar en svo er reyndar pepperoni taco langlokan gríðarlega vinsæl líka. Fyrir þremur árum byrjuðum við með safa en þeir hafa líka verið mjög vinsælir. Þetta eru ferskir safar með engum aukaefnum, engum viðbættum sykri og ekkert auka vatn.
Safarnir eru alltaf gerðir úr ferskustu uppskerunni af ávöxtum og grænmeti. Safarnir eru líka kaldpressaðir sem þýðir að safinn er alltaf sem ferskastur. Kaldpressaður safi geymist reyndar í stuttan tíma en við notum aðferð sem heitir HPP sem er notuð til þess að lengja líftímann, aðferð sem er notuð til að halda næringarefnunum og halda bragðinu fersku. Það er eins og þú hafir verið að brasa þetta heima korteri áður. Enda hefur þessu verið tekið rosa vel og við erum með sex mismunandi tegundir af söfum, þar á meðal klassískan appelsínusafa og engifersafa sem rífur aðeins í hálsinn sem er sérstaklega gott á svona köldum dögum.“