„MBA-nám í 100% fjarnámi“

Freydís Heba mælir með heimasíðunni www.smha.is fyrir nánari upplýsingar um …
Freydís Heba mælir með heimasíðunni www.smha.is fyrir nánari upplýsingar um Símenntun Háskólans á Akureyri.

Á nýju ári er margt spennandi á döfinni. Samstarfið við University of the Highlands and Islands (UHI) tekur mest af orku minni þessa dagana enda skráning í námið í fullum gangi. Skólinn hefst 20. janúar og það er enn hægt að láta skrá sig í það. Þar má helst nefna MBA-námið sem við höfum boðið upp á í 100% fjarnámi í gegnum UHI frá árinu 2020 með frábærum árangri og svo er það meistaranám í mannauðsstjórnun og diplóma í leiðtogafærni í heilbrigðisþjónustu. Síðan erum við að bæta enn frekar úrvalið með 100% fjarnámi í gegnum UHI með meistaranámi í verkfræði og meistaragráðu í sjálfbærni á fimm mismunandi línum,“ segir Freydís Heba Konráðsdóttir, verkefnastjóri Símenntunar Háskólans á Akureyri (SMHA). „Starf mitt snýst um að markaðssetja Símenntun Háskólans á Akureyri og að efla menntun og hæfni á Íslandi í gegnum spennandi námskeið, námsáætlanir og samstarfsverkefni við erlenda háskóla,“ segir hún.

„Læra þegar hentar og oftast nær á sínum hraða“

Á vorönn má finna fjölmörg námskeið sem ætluð eru til þess að styðja við faglega og persónulega þróun stjórnenda sem og annarra. „Við bjóðum upp á mjög fjölbreytt úrval af námskeiðum, allt frá jákvæðri sálfræði og ítölsku upp í meistaragráður,“ segir Freydís Heba.

Sigrún Stella Þorvaldsdóttir útskrifaðist úr MBA-náminu við UHI síðastliðið haust, …
Sigrún Stella Þorvaldsdóttir útskrifaðist úr MBA-náminu við UHI síðastliðið haust, með viðurkenningu fyrir rannsóknarverkefni ársins, UHI Perth Student Research of the Year.

Símenntun Háskólans á Akureyri hefur stutt við símenntun atvinnulífsins og þróun í samfélaginu um árabil. „Við leggjum mjög mikla áherslu á að bjóða upp á sveigjanlegt nám í fjarnámi og er eftirspurnin eftir slíku námi alltaf að aukast. SMHA hefur einnig verið framarlega í margs konar erlendum samstarfsverkefnum og í dag erum við þátttakendur í fjórum slíkum verkefnum og leiðum meðal annars tvö þeirra. Í sumar lukum við til að mynda BlendVet-verkefninu, þar vorum við með háskólum og framhaldsskólum frá Slóveníu, Noregi og Íslandi í samstarfi um að útbúa ramma og kennslu um tilfærslu verknáms í sveigjanlegt námsform,“ segir hún.

Hverjir sækja aðallega í nám hjá ykkur?

„Hópurinn er fjölbreyttur. Allt frá mjög ungu fólki sem sækir forritunarnámskeið, millistjórnendur sem vilja bæta við þekkingu sína með einstaklega hagnýtu stjórnendanámi eða sem dæmi verkefnastjórnunarnámskeiði, til fólks á miðjum aldri sem er að endurmennta sig eða sækja sér sérhæfða þekkingu með sem dæmi meistaranámi við UHI. Við erum einnig með mjög stóran hóp fólks í námi í fíkniráðgjöf sem við bjóðum upp á í samstarfi við SÁÁ og er einmitt fyrsta önnin að hefjast í annað sinn núna í janúar. Við sjáum einnig vaxandi áhuga frá atvinnulífinu þar sem fyrirtæki senda starfsmenn á námskeið til að styrkja hæfni þeirra,“ segir Freydís Heba og bætir við að allir eigi þessir einstaklingar það sameiginlegt að vilja læra á eigin forsendum og á eigin tíma. „Þess vegna henta fjarnámið og námskeiðin svo vel, fólk getur lært þegar því hentar og oftast nær á sínum hraða.“

Áhugavert að hefja endurmenntun á stuttu námskeiði

Þegar kemur að áhugaverðum námskeiðum á vorönn nefnir Freydís Heba nokkur styttri námskeið. „Ég get nefnt sem dæmi Verkefnastjórnun með vottun sem er nýtt 12 vikna námskeið sem lýkur með alþjóðlegri D-vottun verkefnastjóra. Þetta er mjög gott námskeið fyrir þau sem hafa verið að vinna sem verkefnastjórar en vilja ná sér í vottun sem og fyrir þau sem vilja koma sér betur inn í starfið. Við erum einnig með stök námskeið í samstarfi við Háskólann á Akureyri, og má þar nefna Stjórnendur og starfsumhverfi sem er tíu eininga námskeið á meistarastigi.“

Þann 9. janúar hefst leiðsögunámið Ísland alla leið. „Þetta er blandað nám þar sem allt bóklega námið er í fjarnámi en eðli málsins samkvæmt eru svo staðarlotur þar sem farið er í vettvangsferðir og þar er meira verklegt nám. Það er enn hægt að bætast við í þetta nám sem spannar þrjár annir,“ segir Freydís Heba.

Það er greinilega úr mörgu að velja hjá Símenntun Háskólans á Akureyri. „Það eru ótrúlega mörg námskeið vinsæl um þessar mundir enda mikið og fjölbreytt úrval námskeiða hjá okkur. Heildræn öndun og Jákvæð sálfræði eru stutt námskeið sem allir ættu í rauninni að nýta sér og hafa verið mjög vel sótt. Svo er sem dæmi Grunnur að rekstri og bókhaldi nýtt námskeið sem sló í gegn í haust og verður því aftur á vorönn. Gæðastjórnun ISO9001 er hagnýtt námskeið fyrir fólk sem starfar samkvæmt gæðastöðlum. Markaðssetning á samfélagsmiðlum var vel sótt og erum við með það í annað sinn núna í vor. Síðasta haust fylltist í Verkefnastjórnun með vottun og hefur það því verið sett aftur á dagskrá núna í janúar.“

Freydís Heba ásamt Stefáni Guðnasyni, forstöðumanni Símenntunar HA, og Ásdísi …
Freydís Heba ásamt Stefáni Guðnasyni, forstöðumanni Símenntunar HA, og Ásdísi Sigríði Þorsteinsdóttur, verkefnastjóra hjá SMHA, í San Jose á TECHEX AI ráðstefnunni.

Stjórnendanámið opnar dyr að öflugri þekkingu

Freydís Heba segir stjórnendanámið hafa verið vinsælt frá upphafi. „Enda einstaklega hagnýtt nám og sveigjanlegt, sem nemendur finna frá fyrsta degi. Stjórnendanámið er mikið sótt af fólki í vinnu og atvinnurekendur sjá hag sinn í auknum mæli í því að senda starfsfólkið sitt í námið. Stjórnendanámið er í heildina tveggja ára nám og er það byggt upp með fimm lotum. Hver lota tekur á sérstökum þætti þess að vera stjórnandi. Fyrsta lotan ber nafnið Ég – stjórnandinn/millistjórnandinn. Þessi 13 vikna lota fjallar um einstaklinginn í þeirri stöðu sem hann gegnir. Stjórnendur eru hvattir til að velta upp spurningunni: Hvers vegna er ég hér? Farið er á dýptina með því að velta upp spurningum um hæfni, hverjir styrkleikar eru og hvernig hægt er að auka hæfni á ákveðnum sviðum. Eins er velt upp spurningum sem mæla afstöðu til fyrirtækis, yfirmanna, samstarfsmanna og undirmanna, svo eitthvað sé nefnt. Í annarri lotu er fjallað um stjórnun mannauðs. Sú lota tekur 16 vikur og er fjallað í henni um meginatriði mannauðsstjórnunar, svo sem starfsaðstöðu, velferð mannauðs þegar kemur að öryggismálum og heilsufari. Fjarvistir eru teknar fyrir og ýmis vandamál sem fyrirtæki og starfsmenn glíma við ásamt lausnum við þeim.

Þriðja lotan er 12 vikna lota, sem fjallar um innra skipulag fyrirtækja sem stjórnandi/millistjórnandi þarf að hafa þekkingu á og hæfni til að takast á við hverju sinni, svo sem stjórnkerfisskipulag og ákvarðanatöku á þeim vettvangi, stefnuvinnu og samkeppnishæfni, formlegt starfsmannahald, gæðakerfi, öryggismál á vinnustað og viðhald tækja, einkum með tilliti til öryggis og framleiðni. Í fjórðu lotu er reksturinn tekinn fyrir. Sú lota er í sjö vikur og eru stjórnendur/millistjórnendur leiddir í gegnum þau atriði í rekstraráætlunum sem þeir þurfa að standa klárir á. Í lotunni er fjallað um markmið, ferla, framleiðnimælingar, hagræðingu og tölulegar rekstrarupplýsingar. Í fimmtu lotu er fjallað um fyrirtækið í nútíð og framtíð. Sú lota stendur yfir í sjö vikur og er sjónum beint að fyrirtækinu í nær- og fjærumhverfi sínu. Fjallað er um eigendur, viðskiptavini, keppinauta, birgja, stofnanir og stjórnvöld.“

Freydís Heba kveður stefnu SMHA vera þá að bjóða upp á sem mest í gegnum fjarnám. „Við viljum helst hafa allt í fjarnámi til að ná til sem flestra sem og gefa öllum tök á því að læra og þróa sig áfram í starfi. Langflest námskeiðin eru í fjarnámi, lengri námsleiðir eins og MBA-nám og þær sem eru við UHI eru allar í 100% fjarnámi, en svo erum við með leiðsögunámið sem er blandað fjarnám og einstaka námskeið sem eru haldin á staðnum,“ segir hún.

Mikilvægt að vera í tengslum við góða alþjóðlega háskóla

Þekking er lykillinn að persónulegum og faglegum vexti. „Í heimi sem breytist hratt er stöðug menntun nauðsynleg til að viðhalda færni, aðlagast nýjum aðstæðum og taka virkan þátt í samfélaginu. Ég vil því hvetja alla til að skoða þann möguleika að koma í nám til okkar. Við erum stolt af því að bjóða upp á framúrskarandi kennslu og aðgengileg námskeið fyrir fólk um land allt. Fjarnám hefur opnað dyr fyrir marga, og við höldum áfram að þróa námskeið sem henta fjölbreyttum hópi fólks,“ segir Freydís Heba.

Spurð um þá færni sem atvinnulífið kalli eftir um þessar mundir segir hún sjálfsvitund mikilvæga. „Atvinnulífið er að kalla eftir því að fólk skilji sjálft sig, skilji heiminn og tæknina. Síðan eru hugtök eins og sjálfbærni, stafræn hæfni og leiðtogahæfni meðal þeirra sviða sem við sjáum að áhersla er á núna. Við höfum einmitt þróað námskeið í þessum greinum til að mæta þessum þörfum,“ segir hún og bætir við að góð samskiptafærni sé nú sem fyrr eftirsóknarverð að búa yfir. „Gagnrýn hugsun og leiðtogahæfni eru hæfileikar sem alltaf nýtast, óháð tíðaranda eða atvinnugrein.“

Það sem Freydís Heba segir skipta miklu máli í samhengi við menntun í dag er farsælt samstarf við alþjóðlega háskóla. „Þess vegna leggjum við svona mikla áherslu á samstarf okkar við University of the Highlands and Islands sem er skóli sem þykir einstaklega góður í alþjóðlegu samhengi. Slíkt samstarf opnar dyr fyrir íslenska námsmenn að alþjóðlegri þekkingu og tengslum, sem styrkir ekki bara einstaklingana, heldur samfélagið í heild sinni vegna styrkleika námsins,“ segir Freydís Heba Konráðsdóttir, verkefnastjóri Símenntunar Háskólans á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka